03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2910 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það sækist þungt róðurinn að tryggja hag ríkissjóðs á þessu sviði. Eftir núgildandi löggjöf er ríkissjóður algerlega rjettlaus, ef skip sekkur á siglingaleið við höfn. Getur þá hafnarnefnd látið taka það burt án þess svo mikið sem að spyrja ríkisstj. um það, jafnt þó það kosti tugi þúsunda. Dæmi um þetta eru bæði hjer í Reykjavík og á Siglufirði. Verður ríkissjóður afarhart úti, og get jeg búist við, að lendi í málaferli hjer. Nú hefir meðferð málsins orðið sú í hv. Ed., að dregið hefir verið úr því þar, að hagur ríkissjóðs væri vel trygður. Og hv. sjútvn. hjer hefir gengið enn lengra í þessa átt með brtt. sínum. Í frv. stj. var kostnaði skift svo, að ef kostnaður verður svo mikill, að meiru nemur en 1/2 eign hafnarsjóðs, þá skiftist afgangur jafnt milli ríkissjóðs og hafnarsjóðs. Þessu breytti Ed. þannig, að ef kostnaður nemur meiru en 1/2 árstekjum sjóðsins, þá greiðir ríkissjóður það, sem framyfir er. En samkv. brtt. hv. sjútvn. hjer má kostnaðarhluti hafnarsjóðs ekki nema meiru en 1/4 hluta af þess árs tekjum. Jeg verð að líta svo á, að hv. sjútvn. hafi gengið of langt í því að leggja gjöldin á ríkissjóð, einkum með tilliti til þess, að ríkissjóður hefir víða lagt mjög ríflega fram til hafnarmannvirkja. En þrátt fyrir það, að jeg tel hjer of langt gengið hjá hv. sjútvn., þá skal jeg þó játa, að jafnvel þótt till. n. verði samþ., þá er þó frv. stór bót frá því ástandi, sem nú er, og verð jeg því að óska þess, að frv. gangi fram samt. Það út af fyrir sig er stórt atriði, að verkið á að vinnast með samþykki og eftirliti ríkisstj.

Jeg býst ekki við, að hægt sje að spyrna á móti brtt. hv. sjútvn., og þar sem frv. svo breytt verður samt til aukinnar tryggingar fyrir ríkissjóð, mun jeg ekki leggjast á móti brtt. n., en óska þess, að frv. nái fram að ganga, þó að hjer sje óneitanlega um skerðing á rjetti ríkissjóðs að ræða.