15.04.1929
Efri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2914 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

Ingvar Pálmason:

Þetta frv. er aftur komið frá Nd. og hefir þar verið gerð á því sú breyt., að sá hluti kostnaðar við að nema burt farartálma á höfn, sem hafnarsjóði er ætlað að greiða, er færður niður; auk þess er forminu breytt þannig, að hafnarsjóði er ekki ætlað að greiða nema 500 kr. Verði nettókostnaður meiri en 500 kr., greiðist það, sem umfram er, að 2/3 hlutum úr ríkissjóði og 1/3 úr hafnarsjóði. Sú skifting er í sjálfu sjer ekki óeðlileg; en þó er sleginn sá varnagli, að kostnaðarhluti hafnarsjóðs má aldrei nema meiru en hluta af þess árs tekjum hans. Sjútvn. þessarar d. lítur svo á, að þó þetta sje nokkru lægra en var í frv., þá sje rjett að farast á þetta til samkomulags, að kostnaður hafnarsjóðs við að nema burtu farartálma á höfn verði ekki nema 1/4 hluti af árstekjum sjóðsins það ár; en ríkissjóður greiði það, sem fram yfir er. En n. finst óþarfi að gera skiftingu þessa kostnaðar eins grautarlega og Nd. hefir ákveðið, og telur nægilegt að slá því föstu, að hafnarsjóður greiði aldrei meira en 1/4 af árstekjum sjóðsins. N. hyggur, að þessi leið, sem Nd. hefir valið um skiptingu kostnaðarins, geti valdið ágreiningi og að rjettara sje að ákveða það skýrt, þannig að hafnarsjóður greiði kostnaðinn alt að 14 árstekna sjóðsins það ár. N. flytur því brtt. á þskj. 324, við 5. málsgr. frvgr., og leggur til, að hún verði samþ., enda þótt frv. verði að fara til Nd. aftur. Jeg býst við, að hjer geti ekki orðið um mikinn ágreining að ræða milli þingdeildanna, þegar þær verða sammála um hámarksgreiðslu hafnarsjóðs.