30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2915 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

Frsm. meiri hl. (Ólafur Thors):

Þetta frv. er hjer í deildinni til einnar umr. Jeg álít því útrætt um það að öðru leyti en því, sem við kemur þeirri breyt., sem hv. Ed. gerði á frv., en sú breyt. er á þskj. 324. Breyt. snertir það ákvæði laganna, hvernig skifta skuli kostnaði, sem leiðir af burtnámi farartálma úr siglingaleið, að svo miklu leyti sem sá kostnaður ekki fæst greiddur af eiganda farartálmans.

Þessi hv. deild hafði lagt til, að hafnarsjóður greiddi af þessum kostnaði fyrstu 500 krónumar, en síðan 1/3 hluta kostnaðar, þó aldrei meira en 1/4 hluta af „brúttó“-árstekjum sínum. Hv. Ed. breytti þessu í það horf, að hafnarsjóður á að greiða kostnaðinn allan, alt hvað hann ekki nemur meiru en hluta árstekna hans, en hitt á svo ríkissjóður að greiða í báðum tilfellum. Minni hl. sjútvn. hefir litið svo á, að hjer sje aðeins um smávægilega breyt. að ræða, orðbúningsbreytingu, eins og hv. minni hl. n. kallar það. En þetta er töluverður misskilningur, því að hjer er um mikla efnisbreyt. að ræða.

Um þessar till. má segja, að það gildi einu, hvor þeirra er, ef kostnaður við brottnám farartálma nemur 3/4 árstekna hafnarsjóðs eða meira, vegna þess að framlag hafnarsjóðs takmarkast við hluta árstekna í báðum tillögunum, og sje kostnaðurinn orðinn 3/4 af árstekjum, jafngildir 1/3 kostnaðar 1/4 árstekna. Sje kostnaðurinn minni en þetta í hlutfalli við árstekjur hafnarsjóðs, ganga till. hv. Ed. mjög á hagsmuni hafnarsjóðs, og þegar kostnaður nemur hluta af árstekjum, þá er mismunurinn orðinn mestur, er verið getur. Þá er framlag hafnarsjóðs þrisvar sinnum meira eftir till. hv. Ed., því þá á hafnarsjóður að greiða allan kostnaðinn samkv. till. Ed., en aðeins 1/3 hluta hans samkv. till. Nd. Og helst þetta hlutfall áfram þegar kostnaðurinn minkar frá þessu í hlutfalli við árstekjurnar. Hefi jeg hjer ekki tekið tillit til 500 kr. framlagsins, enda skiftir það minstu. Þetta þykir nú kannske tyrfinn útreikningur, en er þó auðskilinn sæmilega reikningsglöggum mönnum. Meiri hl. hefir tekið eitt raunverulegt dæmi, til þess að sýna, að full rök liggja til grundvallar áliti meiri hl. um þetta efni. Reykjavíkurhöfn hefir um 1 milj. kr. árstekjur. Útkoman verður þá sú, ef miðað er við þessar tekjur, að mismunur þess, sem hafnarsjóði ber af mörkum að leggja eftir till., getur numið mest 167 þús. kr. á ári. Að öðru leyti leyfi jeg mjer að vísa til nál. meiri hl. á þskj. 406.

Jeg á erfitt með að skilja, hvernig minni hl. fer að kalla þetta einungis „orðbúningsbreytingu“ eða „minni háttar breytingu“. Jeg vil vona, að hv. þdm. kynni sjer vel þau rök, sem fram eru flutt í nál. meiri hl., en hygg, að þeir, sem þegar hafa ekki haft áhuga til þess að kynna sjer það, muni nú litlu bættari, þó jeg lesi upp tölur og útreikninga þessu viðvíkjandi. En þess vil jeg vænta í lengstu lög, að hv. Nd. standi við það, sem hún hefir þegar sagt um þetta mál. Það er búið að ræða málið í þrjú skifti, og deildin hefir þegar kveðið upp sinn dóm. Nú veltur á því, að deildin standi við þann dóm, eftir að hv. Ed. hefir gert tilraun til þess að hrinda honum, tilraun, sem bygð er á hreinum misskilningi. En látum það aldrei á sannast, að hv. Ed., með sínum fáu atkv., traðki rjetti þessarar hv. deildar, þegar við höfum á rjettu máli að standa. Annars geri jeg fastlega ráð fyrir, að þegar minni hl. hefir sjeð það svart á hvítu, að hjer er um meira en orðbúningsbreytingu að ræða, muni mega leiðrjetta þann misskilning, sem nál. hans byggist á. Og ef svo tækist til, þá er jeg í engum vafa um, að deildin mun standa sem einn maður gegn þessari tilraun hv. Ed. til þess að traðka rjetti þessarar hv. deildar.