07.05.1929
Sameinað þing: 4. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2921 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

Ingvar Pálmason:

Frv. þetta hefir nú gengið í gengum báðar deildir þingsins, 3 umr. í hvorri deild, og aftur eina umr. í hvorri, og ekki fengist samkomulag um málið.

Það, sem á milli ber, virðist ekki sjerstaklega stórvægilegt atriði. Það er það, að ákveða, hversu mikinn þátt hlutaðeigandi hafnarsjóðir skuli taka í kostnaði við að nema burt farartálma samkv. þessum lögum. Nú hafa báðar deildir komið sjer saman um, að hluti hafnarsjóðs skuli aldrei nema meiru en 1/4 hluta af árstekjum sjóðsins það ár.

Að fara inn á frv. þetta í einstökum atriðum virðist ekki ástæða til að þessu sinni, en við, sem eigum sæti í sjútvn. Ed., teljum okkur hafa gengið svo langt til samkomulags, að ekki sje ástæða til að ganga lengra.

Eftir frv. eins og það nú er. eftir eina umr. í hv. Nd., á hafnarsjóður að greiða kostnaðinn upp að 500 kr., en það, sem hann kann að nema fram yfir það, á að greiðast að 1/3 úr hafnarsjóði og úr ríkissjóði. Þó þannig, að hluti hafnarsjóðs aldrei nemi meiru en 1/4. af tekjum hans það ár. Sjútvn. Ed. telur hinsvegar nægilegt, að því sje slegið föstu, að hluti hafnarsjóðs skuli ekki nema meiru en 1/4, tekjum þess árs, og liggur þá í því, að hafnarsjóður greiði allan kostnaðinn upp að því marki. Þetta hefir Ed. haldið fast við og vill enn halda fast á sínu máli.

Að okkar áliti, Ed.-manna, getur hjer tæplega orðið um verulegan mun að ræða, svo að stórfje geti numið; þó getur það komið fyrir í sjerstökum tilfellum, að þetta geti munað nokkru fyrir ríkissjóðinn.

Sjerstaklega teljum við þann ókost á frv., að eins og það nú liggur fyrir er ekki hægt að sjá, hvernig kostnaðurinn skiftist, fyr en hann nær hámarki.

Sjútvn. Ed. flytur nú aftur brtt. shlj. þeirri, sem hún flutti við eina umr. í Ed., og vil jeg nú að svo mæltu afhenda hæstv. forseta þessa till. Hún er að vísu prentuð og má finna hana í skjölum þingsins, en af því að henni hefir ekki verið útbýtt í Sþ., hygg jeg, að hún verði að skoðast sem skrifleg.