07.05.1929
Sameinað þing: 4. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2923 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

1839Frsm. meiri hl. sjútvn. Nd. (Ólafur Thors):

Eftir þessa atkvgr. sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Nú hafa menn tækifæri til að samþ. gerðir Nd., eða fella frv. ella.

Annars var það ekki rjett hjá hv. 2. þm. S.-M. (IP), að hjer sje um mjög veigalítið ágreiningsatriði að ræða. Það sjest best á því, að fyrir hafnarsjóð Reykjavíkurbæjar getur munað alt að 167 þús. kr., hvor leiðin er farin.

Það er rjett, að í vissu falli getur niðurstaðan orðið hin sama, nefnil. þegar kostnaðurinn nemur 3/4 af árstekjum hafnarsjóða. Þá er sama, hvort sagt er, að hafnarsjóður skuli greiða 1/3 hluta kostnaðar eða 1/4 hluta af árstekjum sínum það ár. Því að 3/4 :3 — 1/4. Þetta er ofureinfalt reikningsdæmi, sem jeg hygg, að a. m. k. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) geti skilið. Sem sagt, þegar kostnaðurinn er 3/4 af áratekjum hafnarsjóða eða meiri, gildir einu, hvor leiðin er farin. En lækki kostnaðurinn í hlutfalli við árstekjur, fer munurinn vaxandi og nær hámarki sínu þegar kostnaðurinn nemur 1/4 af áratekjum sjóðsins. Eins og sýnt er fram á í nál. á þskj. 406, getur þessi mismunur numið að því er snertir Reykjavíkurhöfn, sem hefir ca. 1 milj. kr. árstekjur, 167 þús. kr. á ári. Það er því fjarri lagi að vera að deila um, hvort hjer sje um verulegt atriði að ræða. Hitt má auðvitað deila um, hvort það sje sanngjarnt eða rjett að binda hafnarsjóðum slíkan bagga.

Jeg sje ekki ástæðu til að vera að fjölyrða um þá hlið málsins að þessu sinni. Hv. Nd. hefir tekið svo ákveðna afstöðu til þess, næstum einróma, við eina umr. fyrir skömmu, og með því að atkvgr. um afbrigðin fór eins og hún fór, þá vænti jeg einnig, að hv. Ed.-menn kjósi heldur að samþ. frv. eins og það liggur fyrir en að fella það. Af tvennu illu, frá þeirra sjónarmiði, vænti jeg, að þeir kjósi það betra.