07.05.1929
Sameinað þing: 4. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2925 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er sem betur fer sjaldgæft hjer á Alþingi, að slíkur reipdráttur verði á milli deilda sem átt hefir sjer stað í þessu máli.

Um málið sjálft vil jeg aðeins segja það, að sú brtt, sem hv. 2. þm. S.-M. flytur, er nær frv. eins og það var frá stj. hendi og betri fyrir ríkissjóðinn, en jeg mun þó eigi að síður, ríkissjóðsins vegna, telja mjer skylt að mæla á móti því, að hún verði samþ.

Það er vegna þess, að ef brtt. verður samþ., má telja víst, að frv. verði felt á eftir.

Hv. 2. þm. S.-M. má ekki búaat við því, að hann fái alla hv. þm., sem eru fylgjandi till. efnislega, til að greiða atkv. með henni; þeir munu margir hverjir greiða atkv. gegn henni, til þess að fá það næstbesta, nefnil. frv. eins og það er nú.

Þar sem það virðist kappsmál margra hv. Ed.-manna, að málið verði tekið út af dagskrá, vil jeg styðja að því, að svo verði gert, til þess að stofna ekki til meiri ófriðar. En jeg vil þó beina því til hv. 2. þm. S.-M., hvort hann getur ekki fallist á að hverfa frá þessari ósk, með því að telja má næstum því víst, að till. nái ekki fram að ganga.