07.05.1929
Sameinað þing: 4. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2925 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

Ingvar Pálmason:

Jeg skal verða við þeirri ósk hæstv. forsrh. að svara því, hvort jeg geti fallið frá þeirri ósk, að málið verði tekið út af dagskrá, en jeg verð að svara því neitandi. Mjer stendur enginn ótti af því, þótt frv. verði felt. Það kemur dagur eftir þennan dag og þing eftir þetta þing, og þar sem það er viðurkent af hæstv. forsrh. og fleirum, að stefna okkar Ed.-manna sje rjett og eðlileg, tel jeg engan nauð reka til, að þetta frv. verði samþ. nú. Jeg veit, að hæstv. forsrh. er það áhugamál að fá leiðrjettingu á núgildandi l. um þetta efni, en jeg get ekki fallið frá þessari ósk minni, sjerstaklega þegar jeg sje, að hv. Nd. hefir tilhneigingu til að beita okkur Ed.-menn ofríki. Að svo sje, kom greinilega í ljós í því. að hv. Nd. skyldi synja um afbrigði fyrir þessa till., og jeg vil heldur bera skarðan hlut frá borði, þannig að málið gangi ekki fram, því að jeg hefi góða von um, að till. okkar Ed.-manna nái fram að ganga, þó að síðar verði.

Það, sem á milli ber, snýst aðallega um hafnarsjóðina í Reykjavík og Hafnarfirði, og að nokkru leyti í Vestmannaeyjum. Þegar þess er gætt, að sumir hafnarsjóðir hafa mikil efni, að einum hafnarsjóði hafa verið veitt mikil hlunnindi fram yfir alla aðra hafnarsjóði af Alþingi, þ. e. fengið fje til mannvirkis, sem sannanlegt er, að hann gat reist upp á eigin spýtur, sje jeg ekki ástæðu til þess að láta í minni pokann. Jeg er þess sannfærður, að einhverntíma opnast augun á mönnum fyrir því, að ekki sje rjett, að ríkið greiði slíkan kostnað, þegar um auðuga hafnarsjóði er að ræða.

Hv. Nd. meinaði okkur Ed.-mönnum um afbrigði fyrir till. okkar, en þótt við megum okkur lítils hjer í hv. Sþ., teljum við rjett að halda hlut okkar fyrir Nd.-mönnum, hvernig sem ástatt er.