16.04.1929
Neðri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2930 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

88. mál, tilbúinn áburður

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mjer er það í fersku minni, að í fyrra, þegar frv. um þetta efni var á ferð, komu svipaðar till. fram, en þá var svo liðið á þingið, að til þess að stofna málinu í heild ekki í voða var samþykt þeirra frestað.

Mitt álit er það, að hjer sje farið inn á rjetta braut, en jeg vildi þó gera tvær aths. við þetta. Jeg vildi beina því til hv. n., hvers vegna hún hafi ákveðið, að Búnaðarfjelag Íslands skyldi hafa úthlutunina á hendi. Eins og hv. þdm. mun kunnugt, er það S. Í. S., sem hefir aðalverslunina á hendi fyrir bændur, og því álít jeg það hyggilegra að láta það sjá um úthlutunina í þessi 3 ár. Hitt atriðið lýtur að styrk hreppa-, búnaðar- og jarðræktarfjelaga. Oft er það svo, að þessar stofnanir útvega áburðinn, en oftar gera samvinnufjelög bænda það. Vildi jeg því beina því til n., hvort ekki myndi rjett að taka þau fjelög með.