05.04.1929
Neðri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Sveinn Ólafsson:

Það fór framhjá mjer talsvert af ræðu háttv. frsm. landbn. (BSt), og heyrði jeg því ekki nema nokkurn hluta af rökstuðningi hans fyrir brtt. nefndarinnar. Við lestur frv. hefi jeg þó gert mjer grein fyrir brtt., og skal því leyfa mjer að minnast lítillega á þrjár þeirra, sem jeg er í vafa um, að sjeu til bóta. Tveimur af þeim hefir að vísu verið mótmælt af öðrum, en jeg hefi ekki tekið eftir, að hreyft hafi verið við þeirri þriðju í umr. Þessar brtt. n., sem jeg vildi minnast á, eru 1., 2. og 13. brtt. í nál. Fyrsta brtt. lýtur að nafninu á bankanum, og er mjer hún ekki að skapi; jeg sje mjer því ekki fært að fylgja þeirri brtt. Jeg get fremur felt mig við brtt. frá hv. 1. þm. N.-M. (HStef), á þskj. 258, um nafnið á bankanum. Þó má vel vera, að rjettara sje, að í nafni bankans á Norðurlandamálum felist bending um það, að ríkið beri ábyrgð á bankanum, eins og stjfrv. ber með sjer. Gæti það ef til vill veitt bankanum frekara láns- og viðskiftatraust erlendis, ef hann væri þektur undir slíku nafni. Till. n. um nafnið á bankanum treysti jeg mjer ekki til að fylgja. Jeg felli mig best við það eins og það er í stjfrv.

Um 2. brtt. er það að segja, að auk þess sem bankinn á eftir henni að veita lán til landbúnaðar, þá er samkv. brtt. ætlast til þess, að hann veiti einnig lán til smábátaútvegs. Mjer finst, að í raun og veru felist það í 2. gr. stjfrv. sjálfs óbreyttri, að útvegsmenn geti lána notið. Það spillir ekki og getur ekki spilt rjetti þeirra, sem reka landbúnað, til að fá lán úr bankanum, þótt þeir stundi útveg öðrum þræði eða eigi hlutdeild í útgerð. Auðvitað hefði mátt taka það fram í gr., að þeir bankar, sem stunda jöfnum höndum landbúnað og smábátaútveg, gætu notið þessara lána; þó virðist þess tæpast þörf. En mjer skilst, að ef brtt. n. verður samþykt, þá verði takmörkin alt of óljós á starfssviðum þeirrar lánsstofnunar, sem hjer er um rætt, og annara stofnana, sem sjerstaklega er ætlað að veita lán til bátaútvegsins. Mjer kemur ekki til hugar, að nokkur bóndi, sem rekur landbúnað og býr við sjávarströndina, geti ekki fengið og notað til bátaútvegs þann stuðning, sem bankinn veitir vegna landbúnaðarframleiðslunnar. Jeg kysi því helst, að brtt. kæmi ekki til atkvæða nú, en yrði geymd til 3. umr. Virðist mjer, að vel megi orða hana betur, til þess að það komi ljósar fram, að þeir bændur, sem stunda bæði landbúnað og bátaútveg, eigi kost á lánum, án þess þó að teygja verksvið bankans út yfir gervallan bátaútveginn.

Þá kem jeg að 13. brtt. n., um að fella niður 39. gr. frv. Jeg álít rjett að láta ákvæði gr. um vaxtabrjef með happvinningum haldast í lögunum; jeg held, að það geti á engan veg spilt fyrir stofnuninni, þó að þetta tækifæri sje gefið til þess að draga meira fje að henni, en vænti, að það muni fremur bæta fyrir henni. Annars heyrði jeg ekki, hvað hv. frsm. sagði um þessa brtt., en jeg hefi það á tilfinningunni, að þetta ákvæði í lögunum bæti heldur fyrir stofnuninni.

Jeg gæti nú látið máli mínu lokið. En út af því, sem hv. þm. Borgf. (PO) leiddi nál. sjútvn. á þskj. 248 inn í umræðumar, vil jeg taka það fram, að þó að n. í áliti sínu minni á stuðning þann, er útvegsbændur gætu fengið frá Landbúnaðarbankanum, þá var það aðeins hugsað þannig, að þeir myndu njóta þess vegna landbúnaðarframleiðslu þeirrar, sem þeir kynnu að hafa, þegar ekki væru starfsgreinarnar aðgreindar. En það var alls ekki hugsun n. að rugla reitum Landbúnaðarbankans saman við útveginn eða Fiskiveiðasjóð. Jeg þarf svo ekki fleira að segja og get látið hjer staðar numið. Hjer er um svo mikilsvert mál að ræða, að ekki má tefja för þess gegnum þingið með þrætum um smávægileg eða ómerk atriði.