02.04.1929
Efri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2952 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil þakka hv. sjútvn. fyrir það, hve vel hún hefir tekið þessu frv. Hún hefir fallist á frv. í öllum aðalatriðum, og jeg hefi sjálfur ekkert að athuga við brtt. hennar á þskj. 220.

Hv. þm. Snæf. á hjer sjerstaka brtt. á þskj. 239. Vil jeg geta þess, að þessi brtt. hans fer ekki aðeins fram á, að útgerðarmenn fái sinn sjerstaka fulltrúa í stjórn verksmiðjunnar, heldur sviftir hún einnig Siglufjarðarkaupstað sínum fulltrúa. Þetta get jeg alls ekki fallist á, en get þó að ýmsu leyti skrifað undir aths. hv. þm. Snæf. Það atriði, að Siglufjörður fái að skipa einn mann í stjórnina, er svo til komið, að þegar athugað var, hvar hentugast væri að setja upp svona verksmiðju, þá varð Siglufjörður fyrir valinu. Sá kaupstaður fær því mest hlunnindi af stofnuninni, og þótti þá sjálfsagt, að hann tæki einhvern verulegan þátt í stofnkostnaðinum. Hefir komið til tals, og fullvíst að getur orðið, að Siglufjörður legði til lóð undir verksmiðjuna á ágætum stað í bænum með miklum mannvirkjum. Þess vegna tel jeg ósanngjarnt, að Siglufjörður fái ekki jafnframt að hafa hönd í bagga með verksmiðjunni, en ef brtt. hv. þm. Snæf. verður samþ., þá er loku fyrir það skotið að bærinn fái nokkum íhlutunarrjett um stjórnina. Má þá búast við, að bærinn kippi að sjer hendinni og ríkisjóður fái ekki þetta framlag, sem mun nema alt að 1/4 stofnkostnaðar. Þess vegna er jeg á móti brtt. hv. þm. Snæf. eins og hún er nú. Jeg vil annars benda hv. sjútvn. og hv. þm. Snæf. á það, að ef til vill má finna aðra leið út úr þessu. Jeg sje t. d. ekkert því til fyrirstöðu að hafa 5 menn í stj. verksmiðjunnar, og þá má koma því við, að útgerðarmenn fái fulltrúa án þess að útiloka Siglufjörð.

Jeg vil annars geta þess, að mjer þótti það kynlegt, að hv. sjútvn. hefir ekki fengið ályktun, sem samþ. var á Búnaðarþingi út af 5. gr. þessa frv. Form. þeirrar n. sagði mjer, að hann hefði ekki fengið hana, en þar sem jeg vil ekki tefja umr. með því að lesa hana upp, vil jeg afhenda n. hana og biðja hv. nm. að athuga hana milli 2. og 3. umr.