09.04.1929
Efri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2958 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Halldór Steinsson:

Við 2. umr. flutti jeg brtt. við 7. gr. frv., er jeg tók þá aftur. Gat jeg þess þá, að jeg mundi flytja hana breytta við þessa umr. Það hefir upplýstst, að Siglufjörður muni leggja verksmiðjunni nokkur fríðindi og vill fá í staðinn íhlutunarrjett í stj. verksmiðjunnar. Að fengnum þessum upplýsingum verð jeg að segja það, að jeg tel ekki ósanngjarnt, að Siglufjörður fái einn mann í stj. verksmiðjunnar, svo framarlega sem það kemur ekki í bág við skýlausan rjett útgerðarmanna til íhlutunar. En er málið er nánar athugað, sjest, að engin þörf er á því, að síldareinkasalan fái mann í stj. Einkasalan og verksmiðjan eru tvær algerlega aðskildar stofnanir, er hvor hefir sjerstakra hagsmuna að gæta. Einkasalan selur þá síld, er hún hefir markað fyrir, en þegar hann er uppfyltur, þá tekur verksmiðjan við. Þetta eru tvær aðskildar stofnanir og í engu innbyrðis sambandi, og hefir því einkasalan ekki hinn minsta rjett til að fá mann í stj. Því er hjer lagt til, að í stað einkasölunnar komi útgerðarmenn, og fæ jeg ekki sjeð, að með því. sje rjettur einkasölunnar á nokkurn hátt fyrir borð borinn. Frekari rök fyrir rjetti útgerðarmanna til að eiga mann í stj. þarf jeg ekki að færa en jeg gerði við 2. umr., og vænti jeg, að till. fái góðar undirtektir.

Hv. 4. landsk. talaði um, að það mundi valda útgerðarmönnum erfiðleikum að koma sjer saman um skipun fulltrúa, ef mín till. yrði samþ. Jeg fæ ekki sjeð þetta; þeir mundu áreiðanlega hafa einhver ráð til að mynda með sjer fjelagsskap nógu tímanlega. Og þó ekkert sje um það getið í lögunum, þá mundi þó stj. að sjálfsögðu setja einhverjar reglur um kosninguna.