01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2986 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg er um flest alveg sammála hv. 1. þm. Reykv., en tel vansjeð, að takast megi, eins og nú er áliðið, að koma þeim breyt. gegnum þingið, sem hann taldi æskilegar. Þess vegna mun jeg að þessu sinni bera fram þær breyt. einar, sem jeg tel mestar líkur til, að hægt verði að ná samkomulagi um.

Jeg sje ekki ástæðu til nú að fara að deila um málið. Jeg heyrði því miður ekki alla ræðu hv. frsm. meiri hl. og get því ekki svarað öllu. Hann sagði, að í frv. væri farið eftir líkum um frádrátt til að standast áhættu. Það er rjett, að það er engin reynsla fengin um það, hvað áhætta ríkissjóðs vegna fyrirtækisins kann að verða mikil, en hitt er rangt, að ákvæði frv. miðist við líkur.

Jeg sýndi fram á það hjer í framsöguræðu minni í fyrradag, að bað er ekki um að ræða venjulega rekstraráhættu fyrir ríkissjóð, og þess vegna nær auðvitað ekki neinni átt að meta áhættu ríkissjóðs svo mikils, að öll þau gjöld, sem lögð eru á útgerðarmenn, geri ekki meira en jafna þá áhættu. Hinsvegar verður mikið fje bundið í fyrirtækinu á hverjum tíma, og ef svo færi, að verksmiðjan gæti ekki starfað um lengri tíma, hlýtur óhjákvæmilega að leiða af því mikið tap, bæði vaxtatap og sömuleiðis kostnað af föstu mannahaldi, viðhaldi o. fl.

Hin hættan, sem jeg gat um, var áhættan, sem leitt gæti af því, að þegar búið væri að reisa fyrirtækið, yrðu fundnar aðrar betri og ódýrari vjelar. En það virðist þó ekki mögulagt að gera fyrir þessum áhættum á eðlilegan hátt með fyrirmælum eins og þeim, sem eru í 4. gr., eins og það er erfitt að meta þær. En það fullyrti jeg af nokkrum kunnugleika, að líkurnar benda gegn því, að rjett sje ætlast fyrir þessari áhættu með fyrirmælum frv.

Jeg heyrði það á ræðu hv. 1. þm. Reykv., að hv. frsm. hefði sagt, að þau 5%, sem getið er um í 4. lið 4. gr., settu að vera af söluverði afurða. Jeg hefi nú í lengstu lög vænt þess, að sá skilningur verði ekki lagður í þessi fyrirmæli, því að ef svo er gert, er það sama og alt að 35% skattur af stofnkostnaði fyrirtækisins sje alls lagður á framleiðendur. Hv. 8. landsk., sem hefir áætlað um stofnkostnað og rekstrartilhögun þessarar verksmiðju, skýrði frá í sínu áliti, að það mesta vinslumagn, sem slík verksmiðja gæti komist yfir. sje 15 smál. á klst., eða 860 smál. á sólarhring. En þetta gæti á þeim 80 dögum, sem slík verksmiðja má í hæsta lagi starfa, numið upp undir 200 þús. mál síldar. En andvirði þeirra unninna og kominna á erlendan markað vildi jeg ætla 4 milj. króna. 5% af þeirri upphæð er 200 þús. kr., og það yrði hvorki meira nje minna en 20% af öllum stofnkostnaði slíkrar verksmiðju. Svo að ef þessi skilningur verður lagður í 4. lið 4. gr., þá er frv. með öllu ótækt.

Jeg ætla þá að snúa máli mínu með nokkrum orðum til hæstv. forsrh. Jeg tel óþarfa að orðlengja mjög um þetta mál, vegna þess að jeg geri ráð fyrir, að reynt verði að ná samningum um breytingar á frv. til 8. umr.

Hæstv. forsrh. benti á, að það hefði verið hlutverk bæði mitt og annara íhaldsmanna í þessari hv. deild á síðasta þingi, að brýna hann mjög til varfærni fyrir hönd ríkissjóðs í þessu máli, og þótti honum mikið ósamræmi í því, að nú er öll áhersla lögð hjá okkur á það, að gera hlut ríkissjóðs sem minstan í þessu máli, Jeg talaði svo hógværlega og — ef nota má það orð — svo vingjarnlega í garð hæstv. forsrh., að það er tæplega verðskuldað, þegar hann fer að snúa út úr þessum hlutum. Jeg skal segja hæstv. ráðh. það, að ef jeg hefði átt við hæstv. dómsmrh. um svona frv., þá hefði jeg tekið fastari tökum á því. Hæstv. ráðh. skilur það áreiðanlega vel, að aðstaða okkar íhaldsmanna í ár er í samræmi við aðstæðu okkar í fyrra, nefnilega að hætta sem minstu fyrir ríkissjóð. Og ráðið til þess er að haga starfrækslunni þannig, að ríkissjóður hafi ekki þá áhættu, sem leiðir af kaupmensku í þessu efni, heldur beri þeir einir áhættu af rekstrinum, sem fyrirtækið er reist fyrir. Nú hefir hæstv. ráðh. gengið inn á þessa braut. Nú tryggir sjálft frv. það, sem við í fyrra fórum fram á, að ríkissjóður kaupi ekki þessa vöru og selji fyrir eiginn reikning, heldur aðeins veiti vörunni móttöku og aðstoði útgerðarmenn, með fjárframlögum. Með því er aldrei greitt út á vöruna meira en svo, að fullvíst er, að hún skili því öllu aftur, og meiru til. Þarna yrði fullnægt þeim óskum, sem við Íhaldsmenn bárum fram.

Þegar svo hæstv. ráðh. fer að ætla ríkissjóði stórkostlegar tekjur, er of langt gengið. Enda er jeg sannfærður um, að hæstv. forsrh. gerir það af ókunnugleika, þar sem hann hefir ekki haft aðstöðu til að kynna sjer til fulls, hverju þetta nemur, en ekki af því, að hann vilji leggja þessa byrði á smáútgerðina.

Þegar hæstv. ráðh. leggur út í þetta, þá er eðlilegt, að við segjum: engin áhætta fyrir ríkissjóð og ekkert okur fyrir ríkissjóð. Er það í fullu samræmi við það, sem við sögðum í fyrra, og í samræmi við anda þess manns, sem er faðir þessa frv., fyrv. fjmrh. Magnúsar Kristjánssonar. Það er og í samræmi við ummæli, sem fjellu hjá hæstv. forsrh. sjálfum. En því hefi jeg vikið nokkuð að þessu, að jeg vil ekki, að hæstv. forsrh. hafi þetta í háði. Aðstaða okkar er hin sama og í fyrra: öryggi ríkissjóðs, en ekkert okur.

Jeg ætla ekki að neita því, að mín ræða í fyrradag í þessu máli bar vott um velvilja til málsins. Jeg vil benda á, að öll mín framkoma gagnvart málinu á síðasta þingi bar vott um, að jeg vildi, að slík stofnun kæmist upp, þó að jeg beitti mjer með talsverðri festu gegn því, að ríkið hefði áhættu af henni.

Jeg læt mjer það alveg í ljettu rúmi liggja, hvort hæstv. ráðh. þykir það sannmæli eða öfugmæli, að það sje stefna íhaldsmanna í þessu máli, sem nú sjái dagsins ljós að nokkru leyti í þessu frv. Það er engin ástæða að rífast um, hver á heiðurinn af þessu. En jeg álít, að hæstv. ráðh. hafi orðið fyrir góðum áhrifum af ýmsum till. okkar íhaldsmanna. En því miður hefir ekki orðið alræði íhaldsins í málinu. Hæstv. ráðh. hefir ekki alveg farið eftir till. okkar. Gengið of skamt, málinu til skaða. Eins og hæstv. ráðh. man, var altaf um það deilt, hvort fyrirtækið ætti að hlíta venjulegum ríkisrekstri eða vera á samvinnugrundvelli. Við íhaldsmenn börðumst fyrir samvinnugrundvellinum. Og hæstv. ráðh. hefir ekki gengið inn á þann grundvöll í sínu frv. Það, sem jeg ætla að leitast við að fá hæstv. ráðh. til að aðhyllast til 3. umr., er einmitt að koma málinu á samvinnugrundvöll. Og þar sem hann má svo að segja aldrei ógrátandi á samvinnuna minnast, þá vænti jeg þess, að auðvelt verði að fá aðstoð hans í þeim efnum.

Hæstv. ráðh. sagði, að allir rendu blint í sjóinn um áhættu ríkissjóðs af þessu fyrirtæki. Jeg hefi skýrt í frumræðu minni, að þetta er ekki svo. Að vísu er erfitt að segja, hver mesta áhætta geti orðið. En ráðið til að firra ríkissjóð allri áhættu er að flytja hana yfir á þann rjetta aðila, — er einmitt það, sem jeg óska að nái framgangi, nefnilega að þeir, sem skifta við fyrirtækið, þeir eigi það. Og ef þeir megi ekki eignast það, þá a. m. k. eignist þeir það í sjóðum fyrirtækisins, sem þeim að rjettu hlutfalli ber við aðra skiftamenn fyrirtækisins. Jeg get vel hugsað mjer til bráðabirgða að aðhyllast það fyrirkomulag, að ríkið ætti fyrirtækið, að skiftavinir borguðu allan kostnað og náttúrlega vexti, því að það skoða jeg sem rekstrarkostnað, og auk þess 5% afborganir, og svo t. d. 5% í staðinn fyrir þau 10, sem frv. mælir fyrir. Að lokum yrði árlega gert upp, hvað afgangur væri, og þegar allur rekstur væri borgaður, fengi hver viðskiftavinur sinn hlut, eftir því hvert magn hann hefir fengið verksmiðjunni til vinslu í hlutfalli við heildarmagn verksmiðjunnar. Þetta fje gæti svo eftir sem áður staðið inni sem innieign hjá verksmiðjunni, jafnvel allan þann tíma, sem ætlast er til, að ríkissjóður hafi eignarhald á verksmiðjunni, þ. e. þau 20 ár, sem myndu ganga til að greiða allan stofnkostnað.

Hæstv. ráðh. bendir á, að hann sje reiðubúinn til að gera á þessu leiðrjettingu seinna, ef reynslan sýnir, að þessi gjöld sjeu of há. En það er ákaflega erfitt að finna nokkra algilda reynslu í þessu efni. Hæstv. ráðh. gat um, að jeg hefði nokkra reynslu. Hún er þó ekki það mikil, að jeg treysti mjer til að segja um, hvort sú áhætta, sem hvílir á fyrirtækinu, nefnilega að nýjar vjelar verði fundnar upp, eða fyrirtækið ekki starfrækt, mundi skella á. En jeg ítreka það enn, að hjer er ekki um venjulega áhættu þeirra fyrirtækja að ræða, sem kaupa síld til vinslu og selja afurðir fyrir eiginn reikning. Þá áhættu ber ekki ríkissjóður, heldur viðskiftavinirnir.

Um ákvæði 5. gr. skal jeg ekki fjölyrða. Hæstv. ráðh. hefir skýrt þau þannig, að þau ættu ekki að verða verksmiðjunni að baga. Verðið, sem þar er ákveðið, er kostnaðarverð. Skilst mjer hann þar eiga við það meðalverð þess mjöls, sem verksmiðjan selur öðrum en þeim aðiljum, sem tilgreindir eru í 5. gr. frv. Einasti annmarkinn á þessari skýringu er þó sá, að ef svo skyldi fara með tímanum, að meiri hl. mjölsins yrði seldur innanlands, gæti það orðið bændum óhagstætt að vera bundnir við verð á þeim tiltölulega litla hluta, sem seldist út úr landinu og af hendingu gæti náð einhverju gæðaverði. Þyrfti kannske að tryggja þetta enn nánar en fyrirmælin gera. En sá skilningur, sem jeg sje, að hæstv. ráðh. leggur í þetta, er mjer að öðru leyti geðfeldur.

Jeg vil þá benda á það, að það er ekki full trygging fyrir því, að varan sje góð, að hún sje frá þessari verksmiðju. Hæstv. ráðh. sagði sjálfur, að varan til þessa hefði oft verið vond, en þó ekki vísvitandi. Slíkir annmarkar geta náttúrlega alveg jafnt komið til greina hjá þessari stofnun. En við ættum þó að hafa fulla tryggingu fyrir því, að forráðamenn þessarar verksmiðju reyndu að halda besta mjölinu til íslenskra bænda. Og það er kannske sú hlið málsins, sem gerði það að verkum, að jeg vildi mæla með þessu fyrirmæli.

Um stjórnarfyrirkomulag kvaðst hæstv. ráðh. geta gengið til móts við minni hl. n., og þá helst með því að fjölga í stjórninni upp í fimm. Jeg þarf ekki mikið um það að ræða; hv. 1. þm. Reykv. hefir gert það allítarlega. Jeg tel eins og hann miklu heppilegra að hafa aðeins þrjá menn í stj. og ástæðulaust að hafa fleiri, en mun annars ræða um það við hæstv. ráðh. milli umr.

Um fyrirmæli 8. gr. skal jeg að vísu játa, að jeg hafði a. m. k. lagt í þau víðtækari skilning en hæstv. ráðh. Jeg hjelt, að hæstv. ráðh. ætti með þessum fyrirmælum við það, að verksmiðjan mætti gera bindandi samninga um viðskifti við erlenda menn að sama skapi sem erlendum verksmiðjum hefir verið heimilað það. En jeg sje nú, að hæstv. ráðh. á aðeins við það, að þessi verksmiðja megi kaupa af þeim erlendu skipum, sem samkv. ísl. lögum — eða a. m. k. ísl. venju — hafa leyfi til að selja hjer afla úr einni veiðiför. Þetta er náttúrlega talsvert annað. En þó hefði mjer verið langgeðfeldast að láta þessa heimild niður falla. Jeg geri ráð fyrir, að þetta komi sjaldan eða aldrei til. En mjer þykir það styrkja okkar aðstöðu út á við, að við sýnum, að það er hægt að reka ísl. síldarverksmiðju án þess að kaupa síldina af erlendum skipum.

Að öðru leyti ætla jeg að láta liggja milli hluta sumt af því, sem mjer hefði fundist tilefni til að ræða um, hefði jeg ekki haft von um að geta náð samkomulagi við hæstv. ráðh. og hv. frsm., og vel því heldur að ræða málið við þá á milli deildarfunda.