01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2996 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það eru aðeins fáein orð út af því, er þeir hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. þm. G.-K. hafa sagt. En jeg geri ráð fyrir því, út af þeim aths., sem hjer hafa verið gerðar, að þessi atriði verði nánar rædd við 3. umr. í sambandi við þær brtt., er þá verða á ferðinni. Er því ástæðulaust að rökræða það sjerstaklega nú.

En jeg vil benda á það, út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um þau ákvæði 4. gr., er snerta prósenttölu þá, er á að ganga til verksmiðjunnar, að hann átti þar við alt annan lið en hv. 2. þm. G.-K., sem átti við 4. lið gr. En hv. 1. þm. Reykv. átti aðallega við 2. lið þessarar greinar.

Út af því, sem hv. 2. þm. G.-K. sagði um áhættuna, þá er ekki undarlegt, þó jeg tali nokkuð um hana, svo mikið veður sem gert hefir verið út af henni bæði utanþings og innan. Hafa íhaldsblöðin básúnað þetta viku eftir viku og kallað síðasta þing síldarþing og reynt að gera Framsókn tortryggilega út af þessu máli. En jeg hefi áður lýst því yfir, að jeg teldi það mína fyrstu skyldu að hafa opin augun fyrir þessari margumræddu áhættu.

Þá var jeg og spurður að því hjer á Alþingi í fyrra, hvort jeg ætlaði ekki að leigja verksmiðju, ef ekki yrði hægt að byggja hana bráðlega. Voru blöðin síðan látin bergmála þetta um land alt. En hvað hefir nú orðið úr öllu þessu? Jú, engin verksmiðja hefir verið reist og þegar jeg kem með frv., er ákveður fyrirkomulag rekstrarins, er jeg áfeldur fyrir það að vera of varfærinn.

Af einstökum atriðum, er hv. 2. þm. G.-K. vjek að, skal jeg aðeins minnast á nokkur.

Hann vjek nokkuð að ákv. 5. gr. viðvíkjandi því, er landbúnaðurinn á að fá af síldarmjöli. Hann fjelst á skýringu mína viðvíkjandi kostnaðarhliðinni, en benti á, að erfitt mundi að framkvæma þetta. En jeg vil minna hann á, að í 5. gr. frv. eins og það var frá stj. hendi var talað um, að verksm. væri ekki skyldug að selja til landbúnaðarins nema alt að 1/3 þess síldarmjöls, er hún framleiddi árlega. Og jeg hygg, eftir því, sem nú er og búast má við, að bað verði ekki svo mikið, er verksmiðjan þarf að selja. Jeg setti upphaflega 1/5 hluta í uppkastið af frv. Þetta mun því ekki valda neinum erfiðleikum, því þörf bænda fyrir síldarmjöl er svo lítil í samanburði við væntanl. framleiðslu.

En það var aðallega út af fyrirspurn hv. þm. Dal., að jeg stóð upp. En áður en hann bar hana fram talaði hann mikið um og lagði áherslu á þá áhættu, er fylgdi þessu fyrirtæki, sjerstaklega þó ef verksmiðjan hefði ekki nóg að starfa. Það er einmitt þetta, sem mjer finst hv. 2. þm. G.-K. fullgleyminn á, þegar hann vill ekki fallast á þær tryggingarráðstafanir, sem gert er ráð fyrir í 4. gr. frv. Virðist mjer svo um hann, að hann hafi gengið fulllangt til annarar hliðarinnar í fyrra, en til hinnar núna. En það er svo, að þar sem ríkið ber áhættuna, er setlast til þess, að varasjóður sá, sem gert er ráð fyrir í 4. lið 4. gr., beri þá skelli, er fyrirtækið kann að verða fyrir. (ÓTh: Jeg hefi þegar bent á þetta í frumræðu minni). Já, það er rjett. En mjer fanst hv. þm. ekki taka nægilega afleiðingunum af þeirri niðurstöðu, er hann komst að.

Þá spurði hv. þm. Dal., hvað gert yrði, ef ekki fengist nægileg síld til þess að vinna úr. Hann svaraði sjer svo sjálfur og sagði, að hún mundi verða rekin samt. En þetta er ekki rjett. Lögin segja sjálf, að hún skuli ekki rekin. (SE: En hvað verður gert, eftir að ríkið er búið að byggja verksmiðju fyrir 1 milj. kr., ef hún verður svo ekki notuð neitt?). Ef reynslan verður sú, að hennar er ekki þörf fyrir síldarútveginn, þá verður hún seld og ríkið hættir við reksturinn. Að vísu verður ríkissjóður þá fyrir nokkru vaxtatapi, en jeg álít, að nauðsynlegt sje að leggja út í þetta vegna síldarútvegsins.

Þá spurði hv. þm., hvort nokkurt samband væri milli fyrirmælanna í 8. gr. um það, að heimilt sje að kaupa síld af utanríkismönnum, og þeirra samningaumleitana, er farið hafa fram í Noregi af hálfu síldareinkasölunnar, og hvort þær væru gerðar í samráði við landsstj. Jeg skal strax geta þess, að milli frv. og þessara samningsumleitana er ekkert samband. Mjer skildist að samkv. frásögn þess blaðs, er hv. þm. las upp, hafi þessi umræddi fundur átt að hafa átt sjer stað fyrir fáum dögum. En frv. var samið í desember og endanlega frá því gengið í janúar. Skal jeg ennfremur lýsa því yfir, út af því, er hv. þm. las upp úr þessu norska blaði, að stj. veit ekki til þess, að neinir samningar, slíkir sem þar er getið um, hafi átt sjer stað.

Yfirleitt er það svo, að enginn sá samningur er gerður við útlönd, er utanríkismálanefndin fjallar ekki um, heldur eru öll slík mál útkljáð í samráði við hana. En ef þessi ummæli blaðsins skyldu því miður reynast rjett, þá get jeg sagt það, að um það hefir ekkert verið ráðgast við stj. Og ef um einhverjar slíkar samningsumleitanir er að ræða, mun hv. þm. Dal. sem meðlimur í utanríkismálanefndinni fá að vita það jafnsnemma og stj.