01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3030 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Umr. eru nú mjög teknar að dragast á langinn, og tel jeg því rjett að lengja þær ekki til muna, úr því sem komið er. Jeg ætla því að leiða hjá mjer að svara ræðu hv. 4. þm. Reykv., enda geri jeg ráð fyrir, að þeir, sem fylgst hafa með fyrri ræðum mínum, muni þá hafa heyrt svör við flestu því, sem hv. þm. sagði í síðustu ræðu sinni. Mjer virðist það vera orðin gróin skoðun í þessari hv. deild, að síldarverksmiðjan eigi að verða einskonar safnþró fyrir einkasöluna, en vænti þó, að takast megi að girða fyrir slíkan misskilning þegar í upphafi.

Þegar hv. þm. Dal. hjelt fyrri ræðu sína, þá vildi svo til, að jeg gekk fram á ganginn meðan hann las þessa grein í hinu norska blaði, „Bergens Aftenblad“, frá 25. apríl síðastl. Jeg verð að segja það, að við lestur þessarar greinar rak mig í rogastans, og ef rjett er frá skýrt, þá er hjer um alveg einstaka óhæfu að ræða, sem með engu móti má taka vetlingatökum. Hv. þdm. er það sjálfsagt fullljóst, að fiskiveiðalöggjöf okkar er beinlínis fjöregg þjóðarinnar. Það skiftir því mestu máli að halda fast við þá löggjöf og láta í engu undan þoka. Þjóðarheill býður oss að láta ekki erlendar þjóðir ganga á þann rjett vorn nje traðka honum. Allir þekkja viðskifti okkar við Norðmenn út af þessum málum. Árið 1924 gerðu Norðmenn harðvítuga og jeg vil segja ósvífna tilraun til þess að rjúfa skarð í þann varnargarð, sem vjer höfum hlaðið utan um hið litla þjóðfjelag vort með fiskiveiðalöggjöfinni. En fyrir festu og einurð íhaldsmanna var þeirri tilraun á bug vísað. Það er og alkunnugt, að eftir 1924 hafa Norðmenn gert margar tilraunir í sömu átt, en allar verið kveðnar niður, bæði af fyrv. stj. og jeg hygg líka af núv. stj.; a. m. k. mun núv. hæstv. forsrh. hafa áhuga á því að láta ekki ganga á rjett vorn á þessu sviði. Jeg verð því að telja það býsna ósvífið, að sá eða þeir aðilar, sem á þessu sviði, í huga erlendra manna, lítt fróðra í þessum efnum, ganga næstir hæstv. stj. að myndugleik til samninga um síldveiðar, skuli leyfa sjer að setjast við samningaborðið ásamt þeirri þjóð, sem að þessu leyti hefir gert sig bera að ágangi og fjandskap við okkur. Og svo langt gengur frekjan hjá þessum trúnaðarmönnum okkar, að þeir dirfast að gera slíkt algerlega án vilja og vitundar hæstv. stj., hvað þá heldur í umboði hennar. Slíkt keyrir alveg fram úr öllu hófi, ef rjett er skýrt frá. Yfirleitt verður að halda með einstakri varúð á þessum málum, fyrst og fremst af því, að fái einhver þjóð hjer aukin rjettindi, eiga allar þjóðir, sem njóta bestu kjara, kröfu til hins sama. Jafnframt og festan er fyrir öllu verðum við þó að koma fram með lipurð og lægni við erl. vinveittar þjóðir. Þegar óánægja blossar upp, gildir því að draga á langinn og láta tímann jafna deiluna. En þegar svo langt er komið, að við í augum Norðmanna erum búnir að fylla syndabikarinn, þá er það hæstv. stj. og enginn annar, sem á að setjast við samningaborðið. Alt annað er óþolandi og má ekki líðast. Það er óafsakanlegt af forstjórum einkasölunnar að fara að tala við Norðmenn um þetta og lofa að mæla með ákveðnum fríðindum þeim í hag, og að gera slíkt í fullu heimildarleysi, það keyrir úr öllu hófi. Ef rjett er skýrt frá í áminstu blaði, þá hafa forstjórar síldareinkasölunnar lofað og skuldbundið sig til þess að mæla með því, að Norðmenn fengju frjáls afnot síldarverksmiðja hjer á landi um sölu síldar, að svo miklu leyti sem verksmiðjur kynnu að vilja kaupa, og ennfremur, að þeir mættu hafa fljótandi bræðslustöðvar í íslenskri landhelgi. Forstjórarnir hafa lofað þessu öllu. Þau fríðindi, sem áskilin eru af þeirra hálfu okkur í hag, eru, að norska stjórnin skipi fyrir um lögþvingaða samvinnu hinar norsku síldarútgerðar hjer við land, og að stilt verði í hóf söltun beggja, til þess að markaðurinn verði ekki offyltur. En með þessu er einmitt verið að tryggja Norðmönnum betri aðstöðu, þá aðstöðu, sem þeir þurfa að hafa til þess að geta orðið okkur verulega hættulegir á þessu sviði. Það, sem nú gerir þeim erfiðara um vik til þess að stunda síldveiði hjer við land, er, að geta ekki selt hæfilegan hluta aflans hjer á landi, því að útgerðin er rekin mestmegnis á smáum eða tiltölulega smáum skipum. Með hliðsjón af þessu getur slík ívilnun, sem hjer er um að ræða, orðið beinlínis stórhættuleg þessari atvinnugrein okkar. Nú er það hlutverk ríkisstj. að láta rannsókn fara fram um ósóma þennan og krefja hlutaðeigendur sagna, og ef ummæli blaðsins reynast á rökum bygð, þá verða þessir menn að víkja sæti, skilyrðislaust og tafarlaust. Með engu öðru móti getur ríkisstj. markað afstöðu okkar gagnvart slíkum tilraunum. Er og mikilsvert, að útlendar þjóðir sjái það, að við tökum hart á slíku athæfi og að við erum staðráðnir í að láta í engu þokast, þegar annarsvegar er um ágang og ásælni útlendra þjóða að ræða og hinsvegar sá rjettur, sem að alþjóðarjetti tilheyrir okkur sem fullvalda þjóð.