01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3033 í B-deild Alþingistíðinda. (1944)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Magnús Guðmundsson:

Jeg skal ekki tefja umr. frekar. Aðeins örstutt aths.

Hæstv. forsrh. áleit, að ekki þyrfti nema sex umr. um þetta frv. Jeg veit ekki. Þær gætu eins orðið níu. Ef svo færi, þá eru umr. ekki nema hálfnaðar nú. En hinsvegar get jeg vel skilið þá ástæðu, sem hæstv. ráðh. færði fyrir því, að hann vildi vita, á hvaða grundvelli og eftir hvaða meginreglum verksmiðjan yrði rekin. En mjer kemur það kynlega fyrir sjónir, að hæstv. ráðh. vildi ekkert á þetta atriði minnast í fyrra, þegar um þetta var rætt í þinginu. Þó var það meining hæstv. ráðh. þá, að byggja ætti verksmiðjuna tafarlaust. Annars finst mjer það undarlegt, að menn skuli ætla sjer að reka verksmiðjuna á þessum grundvelli, þannig, að útgerðarmenn, sem leggja síld til hennar, fái ekki nema 70% af sannvirði síldarinnar fyrir hana. Það sýnist nokkurnveginn gefinn hlutur, að þeir kjósi þá heldur að leggja síldina inn annarsstaðar, þar sem þeir fá hana greidda með gangverði. Annars veltur öll afkoma verksmiðjunnar á því, meir en nokkru öðru, að eitthvað veiðist, en ef síldveiði bregst, þá er verksmiðjan í voða og gífurlegur fjárhagslegur hnekkir vofir yfir ríkissjóði. Það gegnir furðu, að menn skuli ekki koma auga á jafneinfaldan sannleika. Annars mættu hv. þm. spara sjer að þvæla um þetta mál meira en þegar er gert, því á þinginu í fyrra var látið svo, að verksmiðjuna þyrfti að reisa strax á þessu ári, en framkvæmdirnar hafa orðið helst til smástígar. Mjer er ekki kunnugt um, að annað hafi verið gert í þessu máli en að manni nokkrum hafa verið greiddar 1200 kr. fyrir að fara frá Siglufirði til Reykjavíkur á fund hæstv. stj. og segja til um, fyrir hvaða verð hann vildi leigja ríkinu verksmiðju þá, sem hann hefir yfir að ráða.