01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3035 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil einungis minna hv. 1. þm. Skagf. á það, að lögin í fyrra voru einungis heimildarlög. Jeg hafði því í mínu valdi að ákveða, hvort jeg neytti þessarar heimildar eða ekki. Hv. þm. má álasa mjer, þótt jeg neytti heimildarinnar ekki að svo stöddu, en til þess gekk mjer það, að jeg vildi vita með vissu, á hvaða grundvelli og eftir hvaða meginreglum ætti að reka verksmiðjuna. Þetta er jeg búinn að upplýsa hv. þdm. um, og það má hver lá mjer sem vill.

Hv. 1. þm. Skagf. talaði enn mikið um áhættusemi þessa fyrirtækis. En þessi skoðun hv. þm. kemur illa heim við það, sem hv. 2. þm. G.-K. sagði um þetta atriði. Hann kvað ríkið mundu græða 5 milj. kr. á 20 árum á þessu fyrirtæki. Jeg ætla að eftirláta þessum tveim hv. flokksbræðrum að samrýma þetta.

Út af þeim ummælum, sem fallið hafa hjer í hv. deild um þessa grein í „Bergens Aftenblad“, þá skal jeg lýsa yfir því, að ef blaðið fer rjett með, þá er sá verknaður, sem þar ræðir um, alls ekki með mínum vilja og vitund ger. Og ef þetta reynist satt, þá álít jeg það mjög óviðeigandi og tel það mjög illa farið, en á hitt ber að líta, að „tíðindamönnum svellur oft í muna mjög“ og því ekki ósennilegt, að eitthvað sje málum blandað. Það er ekki ætíð mikið leggjandi upp úr öllu því, sem útlend blöð flytja af slíku tægi, enda býst jeg við, að sumir hv. þm. hafi einhverntíma orðið þess áskynja. Að öðru leyti tel jeg sjálfsagt, að mál þetta verði krufið til mergjar, enda munu nú þeir menn, sem hlut eiga að máli, vera á leiðinni upp til Íslands, og gefst mönnum þá væntanlega tækifæri til þess að fá að vita, hvað satt er og rjett í þessu máli.