08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3047 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Magnús Jónsson:

* *Ræðuhandr. óyfirlesið. Jeg verð að segja, að mjer þykir hin ágæta prentsmiðja þingsins vera tekin að gerast nokkuð seinlát um prentun þingskjala. Fyrir rúmri 1½ stundu síðan sendi jeg brtt. til prentsmiðjunnar og þær eru ekki enn komnar til útbýtingar. (ÓTh: Eru þetta meðmæli með ríkisprentsmiðju?). Ekki var það meiningin, enda býst jeg ekki við, að hæstv. forseti leyfi umr. um það mál nú.

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. í samræmi við það, sem jeg talaði við 2. umr., og er það skilyrði fyrir því, að jeg geti fylgt frv., að brtt. mínar verði samþ. Enda þótt brtt. hæstv. forsrh. og brtt. hv. 2. þm. G.-K. og hv. þm. Vestm., sem jeg tel allar til bóta, yrðu samþ., get jeg þó ekki fylgt frv., vegna þess að þær koma ekki nálægt því, sem mesta deilan reis út af í fyrra, hvort hjer ætti að vera um ríkisrekstur að ræða eða samvinnufjelagsskap. — Jæja, jeg sje, að verið er að útbýta brtt. mínum, og geta þá hv. þdm. sjeð, að þær eru einu brtt., sem fyrir liggja, er snerta þetta deilumál frá í fyrra.

Að vísu skal jeg játa, að málið horfir dálítið öðruvísi við en í fyrra, þar sem nú eru bornar fram till. um að draga úr áhættu ríkissjóðs af þessu fyrirtœki. Umr. hafa leitt í ljós, að dregið er úr áhættunni, en ekki komið í veg fyrir hana. Áhættan er að vísu minni, en hún er þó engan veginn farin.

Hv. 2. þm. G.-K. benti á 2 hættur, og jeg sje þær þó fleiri. Hann nefndi í fyrsta lagi þá áhættu, að verksmiðjan fengi ekki nóg verkefni, og í öðru lagi nefndi hann, að nýjar uppfyndingar, t. d. í vjelum, gætu orðið hættulegar.

Jeg vil hjer bæta við því þriðja, sem sje því, að verksmiðjan fái ekki fyrir afurðir sínar þau 70% af áætluðu verði. Þetta er alls ekki óhugsandi óhapp. Og enn eina tegund áhættu mun jeg síðar nefna.

Fyrst nefnda áhættan er hjer stærsta atriðið. Og það erfiðasta viðfangs við þessa áhættu er það, að hún eykst með þeim öryggisráðstöfunum, sem eiga að bæta úr henni, eins og hv. 2. þm. G.-K. hefir sýnt. Gjöldin eiga að tryggja ríkissjóðinn, en fæla jafnframt viðskiftamennina frá, og auka með því þessa áhættu ríkissjóðsins. Hæstv. forsrh. sagði, að hægt væri að slaka á klónni og færa þessi útgjöld niður, ef reynslan sýndi, að þau vœru óþarflega há. En sú reynsla fæst aldrei. Hættan er sífelt yfirvofandi. — Það má aldrei slaka á þessari kló. Hjer er engin önnur leið til útgöngu en sú, að halda gjöldunum, en gera þau aðgengilegri með því að láta þá sjálfa eiga fyrirtækið og sjóðina, sem gjöldin borga. Það er ríkisrekstrarfyrirkomulagið eitt, sem hjer veldur örðugleikunum. Í einstaklinga höndum hverfa þessir örðugleikar eins og aðrir, alveg eins og mjöll fyrir sól. Gjöld þessi eru þó að vísu erfið mönnum í svip, en þau styrkja þó um leið og efla þeirra eigin. fyrirtæki. Það er svipað eins og þegar menn t. d. leggja hart á sig að greiða lífsábyrgðargjald, en eignast þá jafnframt verðmæti, sem bætir þeim fullkomlega erfiðleikana. En hjer á að pína framleiðendur með gjöldum án þess að þeir fái nokkra eign, og er það óhæfa og getur ekki leitt til annars en þess, að menn fjarlægjast þetta fyrirtæki og það stendur uppi gagnslaust, en þungur baggi á ríkissjóði.

Hæstv. forsrh. nefndi hliðstætt fyrirtæki, sem hv. 2. þm. G.-K. hefir. með að gera, og sagði, að hann mundi ekki telja eftir sjer að tryggja það fyrirtæki með allmiklum gjöldum í varasjóð, til fyrningar o. fl. En hjer er einmitt um það sama að fjalla sem jeg hefi hjer vikið að. Þessi gjöld eru þarna bærileg, af því að eigendurnir greiða þau í sitt eigið fyrirtæki. Hæstv. ráðh. var ennfremur að tala um, að áhætta seljanda væri minni með því að leggja inn í ríkisverksmiðjuna heldur en með því að selja verksmiðju hv. 2. þm. G.-K., úr því að hann borgi sömu gjöld í sjóði og hafi ágóða að auki.

En þetta er alveg rangt. Minsta áhætta er altaf að selja fyrir ákveðna peningaupphæð. Ágóðinn getur orðið minni, en áhættan er áreiðanlega minst. Seljandinn afsalar sjer með því voninni í meiri gróða fyrir það að losna við alla áhættu. Eins og jeg sagði áðan, er þessi áhætta ríkissjóðs þess eðlis, að úr henni verður alls ekki bætt með því að hækka tryggingargjöldin til varasjóðs o. s. frv. Slík gjöld fæla aðeins viðskiftamennina frá. Þessi ráðstöfun er alveg jafneinfeldnisleg eins og ef kaupmaður hjeldi, að hann gæti trygt sig gegn áhættu af versluninni með því að leggja sem mest á vöruna. Ágóðinn af sölunni yrði að vísu mikill, ef hann legði t. d. 200% á innkaupsverð vörunnar. En sá ágóði snerist upp í beint tap vegna þess, að þessi mikla álagning mundi fæla alla viðskiftamenn frá. Hann sæti með vöruna óselda og hefði ekkert nema skaðann og skömmina. Eins fer með ríkissjóðinn í þessu tilfelli. Hann tryggir sig með því að gera öllum framleiðendum vörunnar viðskiftin óaðgengileg og fæla þá frá.

Þá skal jeg víkja að þeirri áhættu, sem jeg gat um fyr, að jeg mundi koma að síðar. En það er sú hætta, að farið verði að heimta, að ríkissjóður leggi fram fje til þess að kaupa síld handa verksmiðjunni í fullri samkeppni við aðrar verksmiðjur. Þyrfti ekki annað en það, að illa gengi að fá viðskifti við framleiðendurna til þess að þessi krafa kæmi fram. Yrði afnumin takmörkun laganna um kaupverðið til þess að verksmiðjan gæti kept við aðra um síldina, og þar með er þetta alt komið inn á ríkissjóðinn sem hreint áhættufyrirtæki. Jeg vil benda á reynsluna í þessu efni frá síldareinkasölunni. Í fyrra var því haldið fram, að einkasöluna ætti og mætti reka án nokkurs rekstrarfjár úr ríkissjóði. Jeg og fleiri þm. hjeldum því þá fram, að þetta mundi varla takast, og hefir þetta nú rætst. Nú hefir reynslan kent mönnum þetta. Og reynslan mun leiða það sama í ljós í þessu fyrirtæki líka. Það getur ekki starfað án rekstrarfjár, og þá er það orðið að beinu áhættufyrirtæki, langt fram yfir það, sem nú sjest af þessu frv. Annars er það næsta gaman, ef svo mætti segja, að sjá alla þá endalausu örðugleika, sem hrúgast upp í kringum hverskonar ríkisrekstur sem er, en sem allir leysast og hverfa, ef einstaklingsframtakið fær að njóta sín í fullu frelsi. Þess vegna er það næsta undarlegt, að ríkisrekstur með öllum sínum göllum skuli eiga svo marga formælendur hjer á Alþingi eins og raun hefir orðið á.

Jeg ætla þá að víkja að brtt. mínum á þskj. 580, sem jeg geri ráð fyrir, að hv. þdm. sjeu nú búnir að kynna sjer. Jeg mælti að mestu fyrir þeim við 2. umr. og get því látið mjer nægja að fara um þær fáum orðum nú. Þær fara fram á, að notuð verði nú þegar heimild laganna frá í fyrra um það, að selja verksmiðjuna samlagi síldarframleiðenda, ef það verður myndað. Þar er tilskilið samþykki beggja deilda til þessarar sölu, og það er því mjög einfalt ráð að gera það með þessari lagasetningu. Skilyrði þeirra laga um tryggingar af hálfu kaupanda standa auðvitað í gildi, og þarf því ekki að endurtaka þau nú.

Með þessu eru leyst öll þau vandamál, sem menn hafa hjer verið að deila um. Þau stafa öll af því, að menn eru að vandræðast með ríkisrekstur. Ef fyrirtæki þetta er bygt upp á þeim grundvelli, sem jeg legg hjer til, hverfur alt deilumál um upphæð gjaldanna, því að menn una þeim ekki illa eftir að þeir eiga sjálfir þá sjóði, sem þau renna í. Þá hverfur og ein aðaláhættan, sem sje hættan á því, að verksmiðjan fái ekki síld til vinslu, því að þá er það orðið hagsmunamál framleiðendanna sjálfra, að verksmiðjan fái nægilegt verkefni. Þá hverfur einnig deilan um skipun stjórnarinnar, því að þá skipa eigendurnir sjálfir stjórnina. Erfiðleikarnir stafa yfirleitt af ríkisrekstrinum, og honum einum, hjer eins og ávalt. Og af honum stafar öll áhætta fyrir ríkissjóðinn, en hann á að vera utan við það. Þeir, sem þessa atvinnu stunda, eru rjettur aðili til þess að hafa allan hag og alla áhættu af þessum rekstri.

Jeg skal svo ekki tefja tímann með því að mæla frekar fyrir brtt. mínum, enda vona jeg, að hv. þdm. hafi áttað sig á því, að með því er skorið úr þeim deilum, sem uppi hafa verið um þetta mál. Hinar brtt. eru um fyrirkomulagsatriði, sem heldur eru til bóta, en breyta ekki frv. í neinu verulegu.

Jeg mun greiða atkv. með þeim brtt., sem fram eru bornar, en á móti frv., ef mínar brtt. verða feldar.