08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3056 í B-deild Alþingistíðinda. (1960)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Pjetur Ottesen:

Mjer hafa að sumu leyti brugðist þær vonir, sem jeg gerði mjer við 2. umr. þessa máls um það, hvað vinnast mundi við endurskoðun málsins í sjútvn., þar sem gert var ráð fyrir, að hæstv. atvmrh. yrði í samvinnu við n. Jeg skal þó hinsvegar viðurkenna, að þær brtt., sem hæstv. atvmrh. flytur nú, eru til bóta, a. m. k. að sumu leyti.

Vonbrigði mín eru einkum út af því, að ekki hefir tekist að ná samkomulagi um að breyta 7. gr., um það, hvernig stj. verksmiðjunnar skuli skipuð. Það hafa verið færðar svo gildar ástæður fyrir því hjer í hv. deild, að útgerðarmenn, sem leggja verksmiðjunni til hráefni og eiga mjög hag sinn undir rekstri hennar, ættu kröfu á því að hafa fulltrúa í stj. hennar, að óþarfi er að bæta þar við. Enda er nú svo komið, að hv. 1. þm. S.-M., sem reyndi að bera fram ástæður gegn því, hefir nú algerlega lagt árar í bát, og ætti hann nú, úr því að hann treystist ekki til að mæla þessu í gegn lengur, hreinlega að viðurkenna það, með því að greiða atkv. með þeim brtt., sem hjer liggja fyrir um að kippa þessu í lag. Að hjer sje um svo hreinan ríkisrekstur að ræða, að þetta geti ekki átt við, nær auðvitað engri átt. Það er þvert á móti ef til vill sterkasti þátturinn, sem hægt er að setja til þess að tryggja, að fyrirtækið nái tilgangi sínum. Þetta, að búið er að gefa upp vörnina, ætti að mega skoða svo, að nú eigi að taka kröfur þessar til greina.

Jeg vil leyfa mjer að skjóta því til hæstv. atvmrh., að ef hjer hefðu bændur átt í hlut, þykir mjer ólíklegt, að hann hefði ekki gengið inn á slíka sanngirniskröfu frá þeirra hálfu, og jeg lít svo á, að þó sá atvinnuvegur sje honum ef til vill mest að skapi og hjartfólgnastur, þá œtti hann að líta þannig á það embætti, sem hann gegnir, að honum beri að láta alla jafnt ná rjetti sínum.

Það hafa nú komið fram ýmsar brtt., meðal annars frá hv. 1. þm. Reykv. Hann leggur til, að þetta fyrirtæki gangi smám saman yfir á hendur viðskiftamanna og verði þá rekið með samvinnusniði. Jeg tek þessari till. fegins hendi og vænti, að hún verði samþ. Þetta er einmitt það fyrirkomulag, sem íhaldsmenn börðust fyrir á síðasta þingi. Jeg vona, að endirinn verði nú sá, að þessi möguleiki standi opinn, að verksmiðjan verði rekin með samvinnusniði.