08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3068 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Ásgeir Ásgeirsson:

Það hafa nú staðið nokkrar deilur um það, hvort fyrirtækið skuli rekið sem samvinnufjelag eða hvort það skuli rekið að nokkru leyti af ríkinu. Frv. áskilur að vísu, að allur ársrekstur skuli vera með samvinnusniði. En jeg skal játa, að þá vantar heimild um það, að það megi framselja þessar eignir ríkisins samvinnufjelagi, svo að fjelagið sje að öllu leyti rekið sem samvinnufjelag, — að bæði sjeu eignir og stj. á valdi þess fjelags á sama hátt og allur ágóðinn skiftist eftir þeim reglum, sem gert er í samvinnufjelögum. Þetta kemur einna skýrast fram í 2. lið 4. gr., þar sem ætlast er til, að ríkið taki 5 af hundraði af þeim, sem við verslunina skifta og afborga með því stofnkostnað ríkissjóðs.

Jeg skal játa, að það er ekki vel eðlilegt, ef ríkið á að vera hinn eini eigandi, að það taki þannig gjald af þeim mönnum, sem við verslunina skifta og afborga með því sín eigin lán til fyrirtækisins. Það er miklu eðlilegra, að þetta fje, sem þannig er innborgað, hlíti þeim sömu lögum, sem gilda um varasjóði samvinnufjelaga. Það er með þeim hætti eðlilegast, að stj. hafi rjett til að selja þessa verksmiðju samvinnufjelagi, sem starfar eftir samvinnulögunum frá 1921. Það eru að vísu komnar hjer fram till., sem horfa nokkuð í þá átt, en mjer finst þó orðalag þeirra till. ekki nógu ákveðið til þess að hægt sje að treysta, að það fjelag, sem þar er um að ræða, starfi samkv. þessum lögum. (MJ: Það má gera í reglugerð). Ef það er geymt að ákveða um þá hluti þar til reglugerð yrði samin, þá er það ekki þingið sjálft, sem ákveður, hvort fjelagið er reglulegt samvinnufjelag, heldur sú stj., sem situr, þegar salan fer fram. Ef því þingið vill ekki selja verksmiðjuna í hendur öðru fjelagi en samvinnufjelagi, sem starfar eftir lögunum frá 1921, þá þarf að taka það skýrt fram, að það fjelag skuli vera með því sniði. Í till. hv. 1. þm. Reykv. stendur það að vísu, að fjelagið skuli vera með samvinnusniði. Þetta minnir mig á karlinn, sem var að panta sjer föt og sagðist helst vilja hafa þau með samvinnusniði. Annars þykir mjer brtt. hv. 1. þm. Reykv. nokkuð loðnar. (MJ: Jeg las ekki till. háttv. þm. frá í fyrra, en ef jeg hefði lesið þær, þá mundi jeg hafa getað tekið þær næstum því orðrjett upp). Mínar till. eru ákveðnari en svo, að farið verði í kringum þær. Vona jeg, að hv. þm. taki sínar aftur, er hann sjer anda sinna brtt. birtast hjer í ákveðnara og skýrara formi. (MJ: Eru komnar fram nýjar brtt.? Það vissi jeg ekki). Jeg og hv. þm. Mýr. munum bera fram brtt., er bráðlega verður útbýtt. Fara þær í þá átt að gera það skýrt og ákveðið, að fjelag það, er stofnað kann að verða, skuli verða starfrækt eftir samvinnulögunum nr. 36 1921, og skal þar ekkert vera undanskilið.

Fyrsta brtt. okkar er við 4. gr. 2. lið, sem svo mjög hefir verið rætt um, þar sem þeim, er skifta við verksmiðjuna, er gert að greiða til ríkisins 5% afborgun af stofnkostnaði síldarstöðvarinnar. Við þennan lið leggjum við til að bætist: — „og skal um það fje fara eftir ákvæðum 25. gr. 1. nr. 36 27/6 1921, um samvinnufjelög, en ef verður úr stofnun samvinnufjelags þeirra, sem leggja verksmiðjunni verkefni, telst það afborgun af stofnkostnaði“. Hjer er hvorttveggja tekið fram, að þetta sje ekki eign ríkisins, heldur eign þeirra, er lagt hafa fram efnið til þess að vinna úr, og að það skuli útborgað með þeim skilyrðum samvinnulaganna, er sett eru um slíkar útborganir. En þau eru: dauði manns, burtflutningur af fjelagssvæði, gjaldþrot og ef viðkomandi verður fátækrastyrksþurfi. Í þessu sambandi er landið alt gert að einu fjelagssvæði. Auk þessa er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að fjelagið bæti við 5%, er svo gengur upp í þær afborganir, er um semst milli ríkisins og þess.

Við 9. gr. leggjum við til að bætist, þar sem talað er um undanþáguna: „meðan verksmiðjan er í eign ríkisins“. Liggur það í augum uppi, að það er sjálfsagt, að verksmiðjan sje undanþegin þessum gjöldum meðan hún er eign ríkisins. Býst jeg við því, að þeir, er flytja málstað framleiðendanna, verði síst á móti því. En eftir að verksmiðjan hefir verið seld slíku fjelagi og hjer um ræðir, kemur slíkt ekki til mála lengur, heldur verður hún þá að greiða alla sína skatta og skyldur samkv. því, er samvinnulögin segja til um.

Þriðja brtt. okkar er þess efnis, að á eftir 9. gr. bætist ný grein, sem verður 10. gr., svo hljóðandi: „Ef minst helmingur þeirra manna, sem láta síld til verksmiðjunnar, gera með sjer fjelag, sem starfar samkv. lögum nr. 36, 27. júní 1921, um samvinnufjelög, er heimilt að selja því fjelagi verksmiðjuna, enda eru þá allir, sem leggja verksmiðjunni til verkefni, skyldir til að vera í fjelaginu. Skal samvinnufjelagið þá jafnframt skipa einn mann í stjórn verksmiðjunnar, í stað þess manns, sem bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar skipar eftir 7. gr., en alla stjórnendur, þegar fjelagið hefir greitt stofnkostnaðinn að fullu, enda ræður það úr því allri tilhögun rekstrarins. Þó skal skuldbinding sú, er um getur í 5. gr., hvíla á fyrirtækinu áfram“. Hjer er aðalheimildin til þess að selja samvinnufjelagi verksmiðjuna. Hygg jeg og rjett að taka fyrst út úr stj. þann mann, er Siglufjörður skipar, því þegar fjelagið hefir eignast verksmiðjuna, þá hefir Siglufjörður mist eignarhald á því, er hann lagði í hana í byrjun. Þetta hygg jeg, að geti ekki á neinn hátt orðið hættulegt, því fyrsta skilyrði Siglufjarðar var það, að verksmiðjan væri rekin þar. Hitt má honum standa á sama, hvort hún er rekin af samvinnufjelagi útgerðarmanna eða ríkinu. Enda er hjer aðeins um formbreyt. að ræða, því allur andi laganna er sá, að samvinnusnið skuli vera á rekstrinum, þótt í þau vanti heimild til þess að selja verksmiðjuna í hendur slíku fjelagi, ef það tekur á sig allar þær skyldur, er því fylgja.

Þá þótti okkur og rjett að bæta því í 10. gr., að reglugerð skuli sett um ákvæði viðvíkjandi rekstrinum, hvort heldur sem honum er stjórnað af ríkinu eða samvinnufjelagi, því samvinnulöggjöfin er ekki sniðin með tilliti til slíkra stofnana. Þykir okkur rjett, að stj. hefði íhlutunarrjett um það, hvernig verksmiðjan væri útbúin og rekin, því ýms vafaatriði geta orðið í þessu máli, þó alt verði vitanlega að vera í samræmi við samvinnulögin frá 1921.

Með þessum till. er það ætlun okkar að byggja brú á milli hinna mörgu hjer í þessari hv. deild, er deila um þessa hluti. Kveða þessar till. skýrt á um það, að það skuli vera samvinnufjelag, er tekur við verksmiðjunni og rekur hana. Þarf enginn, sem á annað borð trúir á samvinnufjelagsskapinn, að efast um það, að hann geti gert sama gagn hjer og á öðrum sviðum.

Í þessum brtt. okkar er ekkert talað um fulltrúa framleiðenda í stj. verksmiðjunnar, fyr en fjelag hefir verið stofnað til þess að starfrækja verksmiðjuna. En ef þessar brtt. verða samþ., þá geri jeg ráð fyrir því, að þess verði ekki langt að bíða, að slíkt fjelag verði stofnsett. Er heldur ekkert á móti því að ákveða þetta svona, eins og við leggjum til, því það ætti þá heldur að ýta undir stofnun slíks fjelags. En ef þeir, sem sjerstaklega eru kallaðir framleiðendur, hafa engan áhuga á því að stofna með sjer svona samvinnufjelag, þá er vafasamt, hvort þeir eiga að hafa rjett til þess að skipa mann í stj. verksmiðjunnar. Vil jeg vona, að það verði ekki till. okkar hv. þm. Mýr. að fótakefli, þó við leggjum ekki til, að stj. verði skipuð fulltrúa frá framleiðendum, enda má svo segja, að þeir hafi eins og frv. er nú töluverðan rjett.

Það er ekki ávalt rjett að skifta þjóðfjelaginu niður í stjettir, og eins og stj. þessa fyrirtækis á nú að vera skipuð, þá er það ekki gert. Hún verður svo skipuð, að í henni eiga sæti: einn maður, sem ríkisstj. skipar, annar, er Siglufjörður kýs, og þann þriðja leggur síldareinkasalan til. Þessa fulltrúa eiga allar þær stjettir jafnt, er kosningarrjett hafa til Alþingis og til bæjarstjórnar Siglufjarðar og nokkru ráða um það, hvaða stj. fer með völdin í landinu. Hjer er öllum stjettum blandað saman, og ef það ætti að ákveða stj. fyrirtækis þessa eftir stjettum, þá yrði að skipa hana eftir alt öðrum reglum en gert er ráð fyrir í frv. Þá yrði að taka fulltrúa þeirra verkamanna, er þarna vinna, jafnframt því og tekinn væri fulltrúi þeirra, er stjórna útgerðinni. Jeg segi þetta ekki vegna þess, að mjer sje ekki kunnugt um það, að það eru útgerðarmenn einir, er bera áhættuna af þessu, heldur vegna þess, að þetta fje, eins og alt annað fje, er ekki annað en samanspöruð vinna, sem ekki á meiri rjett til þess að ráða yfir fyrirtækjunum en hinn lifandi og starfandi vinnukraftur. Hvorttveggja er „kapital“. Og ef ekki er hugsað eingöngu um stjettaskiftinguna, þá verður líka að hugsa um fleiri en þá, er eiga sparifje, enda þótt þeir beri ef til vill mesta fjárhagslega áhættu.

Þegar þetta er orðið að samvinnufyrirtæki, eiga þeir einir að ráða, er skifta beint við það samkv. samvinnulögunum. Er það enginn fastur stofn, heldur einn þetta ár og annar næsta ár. Allir hafa því jafnan rjett og tækifæri til þess að skara fram úr.

Jeg vona svo, að þessum till. verði bráðlega útbýtt. (ÓTh: Það hefir þegar verið gert). Jæja, það er ágætt. Þær eru ekki svo ólíkar öðrum till., er of seint hafa komið fram og þurft að leita afbrigða fyrir, að þess vegna þurfi að amast við þeim.