08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3079 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Magnús Jónsson:

* Brtt. á þskj. 586 var útbýtt eftir að jeg hafði talað í seinna sinn, svo að jeg hefði þurft að fara nokkrum orðum um þær nú. Jeg held, að jeg láti eins og vind um eyrun þjóta hið vinsamlega ávarp hv. þm. V.-Húnv. og hv. 1. þm. S.-M. til mín. Þó að hv. þm. V.-Húnv. talaði alldigurbarkalega um, að við þyrftum ekki að kenna honum samvinnufjelagsskap, situr það illa á honum, sem er að svíkja samvinnufjelagsskapinn og heimta ríkisrekstur í staðinn. Hann sagði, að útgerðarmenn ættu ekki rjett á að vera í samvinnufjelagi, fyr en þeir gætu sýnt fram á, að þeir störfuðu á heilbrigðum grundvelli. Það ætti kannske að láta þá ganga undir einhverskonar gáfnapróf, en það kostar breyt. á lögunum um samvinnufjelög. Hv. 1. þm. S.-M. var líka að tala um, að Siglfirðingar mundu ekki verða góðir í samvinnufjelagsskap. En jeg hjelt, að það væri hverjum manni frjálst að starfa í þeim anda, sem hann vildi.

Hv. 1. þm. S.-M. sagði, að samvinnufjelagsstarfsemi væri í þessu tilfelli óeðlileg, þar sem mönnunum væri dreift út um alt land. Starfsemin fer fram á einum stað, þó að mennirnir komi saman af ýmsum stöðum á landinu.

Jeg ætla þá að víkja að till. þeirra hv. þm. V.-Ísf. og hv. þm. Mýr. Jeg verð að játa, að það er dálítið erfitt að átta sig á slíkum till. í fljótu bragði. En við yfirlestur þeirra virðist mjer þær vera hjer um bil shlj. mínum till. Jeg skal játa, að orðalag þeirra er að sumu leyti betra en á mínum till. í nokkrum atriðum líkar mjer þær samt ver, þó að jeg geti fallist á þær til samkomulags. Jeg álít fyrstu brtt. þeirra vera til bóta. Hún gerir ráð fyrir, að ef samvinnufjelag verður stofnað, sem leggur verksmiðjunni verkefni, teljist það fje, sem í gr. ræðir um, afborgun af stofnkostnaði. Jeg hafði hugsað mjer þetta beint í ríkissjóð.

Lakari er viðbótin við 9. gr. Jeg skil ekki, af hverju á að binda undanþágu undan tekju- og eignarskatti við það, að verksmiðjan sje í eign ríkisins. Það er hvort sem er ekki verið að undanþiggja ríkið, heldur mennina, sem leggja til hráefnið í verksmiðjuna. Hinsvegar álít jeg það ákvæði til bóta, að ekki þurfi nema helming þeirra manna, sem láta síld til verksmiðjunnar, til að mynda fjelag, sem megi kaupa verksmiðjuna. Það er sennilegt, að kaupin geti tekist fyr með því móti. Og að vitna í lögin frá 1921 er líka til bóta frá því, sem sagt er í mínum tillögum: með samvinnusniði. Hv. þm. V.-Ísf. flutti í fyrra samskonar till., en jeg las ekki þá till. fyr en jeg hafði skilað minni.

Jeg tel óheppilegt, að það sje fulltrúi Siglufjarðarkaupstaðar, sem gengur úr stjórninni í staðinn fyrir fulltrúa síldareinkasölunnar. Meðan nokkuð er óborgað af stofnkostnaðinum, hefir Siglufjörður hagsmuna að gæta. Brtt. við 10. gr. er shlj. minni till.

Mjer þykir vænt um að hafa komið þessum brtt. af stað, sem líklega eru mjög ítarlega undirbúnar, og það er ekkert metnaðarmál fyrir mjer, hvort þær koma frá sjálfum mjer eða þessum tveim hv. þm., sem flytja þær. Mjer er það fyrir mestu, að löggjöfin um þetta fyrirtæki sje bygð á heilbrigðum grundvelli. Jeg mun taka mínar till. aftur, þar sem meiri von er til, að þessar nái samþykki.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.