08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3083 í B-deild Alþingistíðinda. (1968)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Ásgeir Ásgeirsson:

Hv. síðasti ræðumaður gat þess, að jeg væri í flokki þeirra manna, sem bygðu stjórnmálastarfsemi sína á stjettaskiftingu. Jeg býst við, að allir stjórnmálaflokkar í landinu geri það, því að hagsmunir hinna einstöku stjetta hljóta að koma fram í stjórnmálunum. Þegar verið er að berjast fyrir hagsmunum einstakra stjetta eða einstakra manna, er engan veginn víst, að þar sje á ferðinni vont mál. Það getur orðið heildinni fyrir bestu. Þannig getur það verið, að flokkur, sem kalla má stjettaflokk, stefni einmitt að því að gera þjóðfjelagið stjettalaust.

Hv. þm. sagði að hin lifandi vinna tæki þóknun sína í krónum, en fjármagnið hirði afganginn og eigi þess vegna mest á hættu. Það er rjett, að verkamennirnir fá krónutöluna ákveðna fyrirfram. En hvað mikið þeir fá í kaup, er alls ekki óháð því, hvernig atvinnureksturinn gengur. Það má segja, að það, sem kemur fyrir hjá atvinnurekendunum, hafi sínar afleiðingar eftir á fyrir verkamenn. Auk þess er jeg ekki sammála hv. þm. um, að hin uppsparaða vinna, þ. e. a. s. framleiðendurnir, eigi að hafa rjett til afgangsins, heldur sjeu það líka sameiginlegir hagsmunir, sem þróunin á eftir að skapa, sem skifta arðinum.

Jeg vil þakka þeim, sem hafa tekið vel undir till. okkar hv. þm. Mýr. Þó að á milli beri um ýms smœrri atriði, getum við flestir staðið saman um aðalatriðin. Jeg vona, að þó að þetta snerti hv. þm. V.-Húnv. illa í augnablikinu, sje hann ekki í hjarta sínu andstæður efni tillagnanna. Hv. þm. sagði, að við flm. hefðum getað beðið eftir því, að einhver skilyrði mynduðust hjá þessum mönnum fyrir rjettum samvinnuhug. Jeg verð að segja, að að því er snertir samvinnulöggjöfina hefir ekki verið beðið eftir því, að eitthvert útmælt hugarfar myndaðist. Hvar sem er og hvenœr sem er er heimilt að stofna ný fjelög á grundvelli samvinnulaganna, án nokkurra prófa. Slík fjelög verða hvort sem er ekki til fyr en menn þeir, sem stofna þau, vilja starfa eftir þeim reglum, sem í lögunum eru settar. Jeg hefi aldrei um samvinnufjelög sett önnur skilyrði en þau, að menn vilji gerast samvinnumenn.

Hv. þm. sagðist treysta núv. stj. vel til að dœma um innræti fjelagsmanna, sem kæmu með slíkar beiðnir sem þessa, en komandi stjórnum væri ekki eins vel treystandi.

Hv. þm. virtist leggja ákafl. mikla áherslu á, að hjer vœri um stjett að rœða, sem ekki gæti meðtekið heilagan anda. Það minnir á söguna um prestinn, sem sagði, að sig óaði við að segja: „Drottinn sje með yður“ við þessa bölvaða dóna. Þegar einhver kemur og krýpur við altarið, þá á að segja við hann: Haltu áfram þínu fyrra lífi. Nei, slíkt þekkist hvergi um stofnanir, hvort sem þær eru andlegar eða verklegar. Það er á móti guðs og manna lögum. Nú höfum við þau meðmæli með þessum mönnum, sem ef til vill mundu einhverntíma koma inn í samvinnufjel.skapinn, að þeir eru áður búnir að koma og segja: Við viljum starfa í samvinnufjelagi. En ef á að leyfa þeim að starfa saman undir samvinnuskipulagi. hvers vegna á þá að banna þeim að mynda sitt eigið samvinnufjelag? Jeg held jeg verði að segja eins og Pjetur postuli: Á þá að banna þeim vatnið?