18.03.1929
Efri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

25. mál, tannlækningar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Jeg verð að taka það fram, að þó að allshn. þessarar hv. deildar sje að sjálfsögðu vel skipuð, þá brestur hana algerlega þekkingu á læknisfræðilegum efnum eins og þeim, er þetta frv. fjallar um. En frá sínu leikmannssjónarmiði telur nefndin rjett, að frv. nái fram að ganga. Jeg tel mjer eigi fært að fara út í neinar sjerfræðilegar umr. um einstök atriði þessa máls, enda er það undirbúið af kunnáttumönnum.

Eins og sjá má af frv., felast í því nokkur sjerrjettindi fyrir eina stjett manna, nefnil. læknana, og er það vafalaust gott, að þeirra rjettur sje trygður. En jeg fæ ekki sjeð, að frv. tryggi á neinn hátt rjett þeirra manna, sem þurfa að nota aðstoð læknanna. Hjer á jeg við taxta. Vera má, að eigi sje gott að koma þeim við hjer, af því að tannlæknarnir eru ekki starfsmenn ríkisins. En jeg skýt þessu fram meðfram af því, að orð leikur á, að tannlæknar sjeu dýrari á vinnu sinni en aðrir læknar.

N. hefir gert eina minni háttar orðabreyt. á frv. Hún er í því fólgin, að í staðinn fyrir „hafa rjett til að kallast tannlæknar“ komi „rjett til að kalla sig“ o. s. frv. Þetta er betra mál, enda í samræmi við orðalag annarsstaðar í frv.

Tel jeg svo ekki ástæðu til að tala fleira um frv., en geri ráð fyrir, að hv. dm. hafi athugað afstöðu sína til þessa máls.