08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3088 í B-deild Alþingistíðinda. (1970)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Jón Sigurðsson:

* Jeg get ekki neitað því, að jeg er undrandi yfir þeirri tilhneiging stjórnarliðsins hjer á Alþingi, að vilja draga ríkissjóð inn í þá áhættu, sem er samfara síldarútveginum: síldareinkasölu, síldarsöltun og síldarbræðslu. — Þá sýnist ekki vera nema eitt stig eftir til fullkomins ríkisrekstrar. — Það er talað um, að vel geti svo farið, að síldarverksmiðjuna skorti hráefni til að vinna úr. Jeg sje ekki annað en að þá geti rekið að því, að síðasta sporið verði stigið og ríkissjóður látinn gera út skip til síldveiða; þá er hann kominn svo langt inn á áhættubrautina sem unt er.

Hjer liggur fyrir till. frá hv. þm. V.-Ísf. og þm. Mýr. um að ríkissjóður leggi fram fje til verksmiðjunnar og að þeir útgerðarmenn, sem skifta við hana, geti orðið eigendur hennar, þegar a. m. k. helmingur þeirra hefir stofnað samvinnufjel. til þess að reka hana og óskar eftir kaupum á henni. Jeg hefði talið eðlilegt, að hjer væri farið líkt að eins og við landbúnaðinn. Þar er ekki um að ræða nein ríkisrekstrarfyrirtæki, heldur eru bændur studdir með lánum til þess að gera búsafurðir sínar sem best seljanlegar á erlendum markaði. Síldariðjufyrirtækin gætu alveg eins verið í höndum framleiðenda sjálfra. Fyrst komið er út á þessa braut, þá mun jeg styðja þessa till.

Hv. sessunautur minn, þm. V.-Húnv., talaði um, að í hjeruðum, þar sem jarðvegurinn er slæmur, væri ekki til þessi samvinnuandi, sem stjórnar starfi samvinnufjelaganna. Sumstaðar eru alls engin samvinnufjelög, og þar af leiðandi enginn samvinnuandi.

Hv. þm. talaði um, að ef þar væru bygð verslunarhús á kostnað ríkissjóðs, þá gæti það komið sjer vel fyrir hjeraðsbúa að fá þau; en þá lítur út fyrir, að samvinnufjel. eigi ekki að fá styrk til slíkra húsa. Þetta þykir mjer undarlegt að heyra frá manni, sem þykist vera samvinnumaður.

Ræðuhandr. óyfirlesið.