15.05.1929
Efri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3110 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Mjer skildist á hv. 3. landsk., að honum þykja undarlegt, að við samvinnumenn hefðum ekki altaf verið því fylgjandi, að þetta fyrirtæki á Siglufirði væri einskonar kaupfjelag. Jeg skal gefa hv. 3. landsk. fulla skýringu á þessu, og þætti mjer vænt um, að hann reyndi að afsanna það, sem jeg segi.

Við samvinnumenn vitum, að samvinnan hefir leyst sum verkefni vel, en önnur ekki til fulls. Samvinnufjelögin eru nú í miklum blóma. Þau hafa annast verslun landbúnaðarins að miklu leyti, en hafa ekki ennþá getað náð neitt verulega til sjávarhjeraða, og síst til útvegsins. Það er eins og útvegsmenn, og að nokkru leyti verkamenn, álíti ekki, að samvinna geti leyst þeirra málefni. Samt er ekki um neina andúð að ræða frá sjómönnum. Þeir hafa ekkert gert, sem sýni, að þeir sjeu í framtíðinni ómóttækilegir fyrir þetta form á verslun og viðskiftum. Alt öðru máli er að gegna um útvegsmenn, en þeir mundu einmitt aðallega skifta við bræðsluverksmiðjuna. Það er ekki til eitt einasta dæmi þess um einn einasta mann í þeirri stjett, að hann hafi unnið sem samvinnumaður. Flestir hafa þeir gert samvinnumönnum alla þá skömm og skapraun, sem þeir hafa getað, þó að aðrir hafi vitanlega verið hlutlausir. Þeir hafa haldið úti einum 15 blöðum, sem með rógi og níði hafa reynt að ófrægja samvinnustefnuna og alla hennar starfsemi fyr og síðar. Það verður því að skoðast sem mjög fjarlægt framtíðaratriði, að menn með þennan hugsunarhátt myndi samvinnufjelag. Það er sjálfsagt að ganga svo frá í frv., að ekki sje hægt að kasta fyrirtækinu í spekúlanta, sem hlaupa saman í fjelag og nefna samvinnufjelag. Það má segja, að vakað hafi fyrir tveim hv. framsóknarþm. í Nd. svo fjarlægt takmark sem trúboðar stefna að. Þeir vona, að sá tími renni upp, þegar allir negrar í heimi verði vel kristnir menn og skilji kristindóminn út í æsar. Á því byggja þeir sína starfsemi, og jeg þykist vita, að það sje samskonar hugsjón, sem vakir fyrir hv. flm. till. í Nd. Mjer skilst á blaði hv. 3. landsk., að það geri gys að þeim samvinnumönnum í Nd., sem höfðu slíka bjartsýni. Það er óviðeigandi, því till. sýnir einmitt trú á málstað okkar samvinnumanna. En jeg óska þess, að ef hv. 3. landsk. vill ræða þetta atriði til þrautar, þá komi fram hjá honum, af hverju hann álítur, að samvinna eigi að koma hjer til greina, úr því að hann og hans flokkur berst á móti samvinnu.

Til að gera enn ljósari mína skoðun, vil jeg bæta því við, að alveg eins og þjóðirnar hafa hallast að því, að t. d. póstur, sími, járnbrautir og skólar eigi að vera ríkisfyrirtæki, af því að allir stjórnmálaflokkar hafa komist að þeirri niðurstöðu, að þetta verði svo að vera, vil jeg nú, að þetta fyrirtæki verði rekið undir eftirliti ríkisvaldsins, en á ábyrgð framleiðenda og verkamanna.

Eins og jeg hefi áður sagt, hygg jeg, að fyrir flm. till. í Nd. vaki þessi ótrúlega bjartsýni, sem jeg hefi lýst, en fyrir íhaldsmönnum vakir það, að nota sjer þessa bjartsýni til þess að geta klófest fyrirtækið og gert það að spekúlantafyrirtæki. Þess vegna verður annaðhvort að ganga svo frá till., að flm. fái þær tryggingar, að bjartsýni þeirra verði ekki misnotuð, eða að þetta mál verður að bíða eitt ár enn.