15.05.1929
Efri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3112 í B-deild Alþingistíðinda. (1991)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Erlingur Friðjónsson:

Hv. þm. Snæf. var að tala um ósamræmi og ósanngirni hjá mjer út af því, sem jeg sagði um aðstöðu útgerðarmanna til að eiga mann í stj. síldarbræðsluverksmiðjunnar. Það er alt öðru máli að gegna um þá, sem eiga viðskifti við fyrirtækið, en þann aðilja, sem á fyrirtækið. Fyrirtækinu á að stjórna svo, að þeir, sem skifta við það, fái allan hagnað af viðskiftunum. Aðeins á að draga frá rekstrarkostnað og lítið eitt, sem legst í sjóð. Ef hægt hefði verið að koma því við, að útgerðarmenn ættu einn mann í stj., gat jeg verið með því. En jeg get ekki fallist á að taka mann úr stj. einkasölunnar, því henni er það nauðsynlegt að eiga hlutdeild í stj. verksmiðjunnar. Einkasalan er einnig erindreki sömu viðskiftamanna, sem hv. þm. Snæf. bar fyrir brjósti, þegar hann vildi skifta.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði verið að grobba, þegar jeg mintist á, að hv. 3. landsk. gengi út úr deildinni, þegar hann byggist við, að honum yrði svarað, en reyndi ekki að bera af hv. 3. landsk., að hann gerði þetta. Jeg verð að segja, að það er grobb hjá hv. þm. Snæf. að vera að bera hönd fyrir höfuð hv. 3. landsk., því að með því telur hann sig færari en hv. 3. landsk. að svara. En jeg ber ekki þá menn saman að dugnaði og þingmenskuhæfileikum. Hv. þm. Snæf. getur tæpast talist meðalskussi, en hv. 3. landsk. er þó góður meðalmaður.