05.04.1929
Neðri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Pjetur Ottesen:

Jeg byrjaði á því í ræðu minni í gær í þessu máli að láta í ljós undrun mína yfir mótspyrnu hæstv. atvmrh. gegn því, að smábátaútvegurinn fengi greitt úr þeirri þörf, sem hann hefir til rekstrarlána, í sambandi við Landbúnaðarbankann. Mig furðar mjög á þeirri mótspyrnu, sem tillögur landbn. mæta hjá hæstv. atvmrh. Og því meiri er undrun mín, þar eð hæstv. ráðh. notar hvert tækifæri til að láta í ljós samúð sína með smábátaútveginum og telur sig hafa hug á að greiða úr erfiðleikum hans og þörf. — En jeg verð því miður að líta svo á, og mjer virðist öll framkoma hæstv. ráðh. benda fullkomlega til þess, að hugur fylgi ekki máli hjá honum að því er þetta snertir. Og það er einmitt af því, að hann fór þannig að ráði sínu, er hann tók upp rekstrarlánafyrirkomulag það, er íhaldsfl. bar fram á síðasta þingi, að fella burtu úr því lánveitingar til smábátaútvegsins.

Ef hæstv. ráðh. hefði haft verulegan áhuga fyrir þessu, og þó að honum hefði ekki þótt heppilegt að veita bátaútveginum úrlausn í sömu stofnun og landbúnaðinum, þá hefði hann átt að bera fram einhverjar tillögur til að greiða úr þörfum útvegsins. En eins og kunnugt er, þá hefir hann ekkert borið fram í þá átt.

Nú liggur þetta mál þannig fyrir frá mínu sjónarmiði, og líka frá sjónarmiði landbn., eða að minsta kosti meiri hl., að það verði langheppilegast leyst úr vandkvæðum þeirra, sem smábátaútveg stunda — en landbn. hefir skilgreint, hverjir teljist til þeirra — á þann hátt að gefa þeim kost á að mynda fjelagsskap um rekstrarlánastofnun í sameiningu við landbændur. Jeg gerði fullkomlega grein fyrir þessu í gær og þarf ekki að endurtaka það nú, að smábátaútvegurinn og landbúskapurinn eru atvinnuvegir, sem víða eru svo nátengdir og samfljettaðir og styðja hvor annan, að frá því sjónarmiði getur ekkert verið á móti því að bæta hag þeirra í sameiningu.

Auk þess er það, að þegar litið er á framkvæmdahlið þessa máls, þá verður þetta langeðlilegast og heppilegast. Við skulum hugsa okkur hrepp, þar sem bæði er stundaður landbúnaður og bátaútvegur, — sumir stunda hvorntveggja, en aðrir annan atvinnuveginn —, hversu mikið hagkvæmnisatriði það er, að þessir menn geti fengið með einum og sama fjelagsskap greitt úr sínum þörfum með einni stofnun, í stað þess að þurfa að hafa tvenskonar fjelagsskap og þurfa að leita til tveggja eða fleiri stofnana. Það atriði liggur raunar ekki fyrir hjer, því að sá atbeini, sem gert er ráð fyrir í till. sjútvn., nær ekki svo langt, heldur aðeins til þess, að menn fái lán á þeim stöðum, þar sem banki er eða bankaútibú. Hvað snertir framkvæmdahlið málsins, þá er mikill aðstöðumunur fyrir þá, sem eru í afskektum hreppum og stunda landbúnað, að geta myndað rekstrarlánadeild heima hjá sjer, heldur en hina, sem bátaútveg stunda og verða að sækja til banka og útibúa þeirra. Eftir till. sjútvn. um aukningu á Fiskiveiðasjóðnum verða allir þeir, sem versta hafa afstöðu og eru fjærst peningastofnunum, algerlega útundan um þennan stuðning. Þeir standa ekki hóti betur að vígi fyrir þessar till., þó að samþ. verði, af því að þeir hafa enga aðstöðu til að tileinka sjer þessi lán.

Jeg veit, að sú stofnun stendur til bóta, en jeg býst við, að vöxtur hennar fari ekki það hröðum skrefum, að fljótt verði bætt úr lánaþörf bátaútvegsmanna á afskektum stöðum. Þó að það sje vitanlega meiningin með frv. sjútvn. að leggja grundvöll að lánsstofnun fyrir smábátaútveginn á nokkuð svipaðan hátt og gert hefir verið fyrir landbúnaðinn, þá má gera ráð fyrir, að þess verði nokkuð langt að bíða, að sú stofnun sje komin í fult horf. Þess vegna get jeg ekki sjeð, hvað er því til fyrirstöðu, að lands- og sjávarbændur eigi þess kost meðan verið er að fikra sig fram á sjálfstæðan hátt, að geta myndað rekstrarlánafjelagsskap í sameiningu. Það hagar hjer um bil alstaðar svo til, að það myndi verða beinn eða óbeinn stuðningur fyrir ræktun landsins, ef smábátaútvegurinn er styrktar með lánum, og sýndi jeg ljóslega fram á það í gær.

Þá hefir hæstv. forsrh. borið fram tvær ástæður gegn þessu, að mjer skilst, og leiðrjettir hann, ef jeg fer ekki rjett með. önnur er sú, að að nokkru leyti væri sjeð fyrir lánsstofnun bátaútvegsmanna með þessu frv. eins og það var flutt upphaflega. Raunar hjelt hann því ekki fram, að þetta væri gert beinlínis, en sagði, að þeir, sem að einhverju leyti stunduðu landbúnað, gætu verið með í þessum fjelagsskap, þótt þeir jafnframt gerðu út báta. Ákvæði frv. um þetta er ekki ljóst orðað, en skýrt tekið fram í grg. frv., að þeir, sem jöfnum höndum reka landbúnað og sjávarútveg, geti raunar orðið aðnjótandi rekstrarlána samkv. frv., en aðeins til þess hluta atvinnurekstrarins, sem að landbúnaði lýtur. Og jeg býst við, að þar sem þessi hugsun liggur til grundvallar fyrir þessum ákvæðum frv., muni verða reistar skorður við því í reglugerðum, að fjeð yrði að nokkru notað í þarfir útvegsins. Mjer virðist því ekki hægt að byggja á, að þetta frv. eins og það er leiði til neinnar úrlausnar fyrir bátaútvegsmenn, þó þeir reki jafnframt landbúnað.

Hin ástæða hæstv. ráðh. var sú, að ef gengið væri inn á þessa braut, sem landbn. leggur til, þá myndi — eins og hann komst að orði — Landbúnaðarbankinn verða opnaður fyrir öllum smábátaútveg landsmanna. (Forsrh.: Utan kaupstaða). Alveg rjett. En jeg held, að annaðhvort hafi hæstv. atvmrh. ekki lesið þær till, sem fyrir liggja, eins og lesa ber slíkar till., eða hann er blátt áfram að tala á móti betri vitund. Það er ekki um nema tvent að ræða. Jeg ætla með leyfi hæstv. forseta að lesa upp ofurlítinn kafla úr nál. landbn. um frv. um sveitabanka, sem hljóðar um þetta efni. Auk þess sem í þessum ummælum kemur fram, hvaða takmarkanir nefndin gerir ráð fyrir að setja við því, hverjir bátaútvegsmenn fái aðgang að þessum rekstrarlánafjelögum, kemur líka fram áhersla á því, hve nátengdir þessir atvinnuvegir eru, smábátaútvegurinn og landbúnaðurinn. Um þetta segir svo:

„Smábátaútvegurinn er líka stundaður mest af þeim mönnum, er meira og minna stunda landbúnað jafnframt. Þeir hafa útveginn sjer til styrktar og stunda hann mikið eftir því, hvernig í ári lætur með gæftir og fiskigöngur. Þessum mönnum er því flestum engu auðveldara að afla sjer rekstrarlána en þeim bændum, er landbúnað stunda eingöngu. En þeir þurfa auðvitað fjármuna við til sinna starfa. Nú hefir smábátaútvegurinn oft og einatt verið landbúnaðinum til hins mesta gagns, og hann er því víða svo samfljettaður búnaðarstarfseminni, að þar verður ekki sundur greint. Margir bændur gætu því fengið sjer rekstrarlán og notað þau í þágu smábátaútvegsins. Fyrir þessa sök þykir nefndinni betur fara og miklu hreinna“ — Vil jeg sjerstaklega vekja athygli hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) á þessu. Hann talaði um óskýrar takmarkanir í þessu sambandi. — „að heimilað sje að lána fje í þessu skyni, en þess sje stranglega gætt, að ekki sje lánað nema 4 þús. kr. á hvern bát í mesta lagi, þó að margir sjeu bátseigendur“.

Svo kemur ennþá eitt, sem dregur mikið úr, hve víðtæk þessi notkun á lánsfjenu getur orðið:

„Lánveitist aðeins þeim, sem enga fiskverslun stunda, og eingöngu til þeirra báta, er hafnar leita úr hverjum róðri og hiklaust teljast því smábátar“.

Jeg held nú, að skilgreining milli smærri og stærri báta sje orðin nokkurn veginn föst í meðvitund manna, nefnilega að kalla þá báta smábáta, sem eru 12 smál. og þar undir. Þetta er orðin nokkurnveginn föst venja bæði í hagskýrslum og í löggjöfinni.

Það er því ekki nema tiltölulega lítið af bátaútveginum, sem mundi koma undir þetta, en þó engan veginn svo lítið, að það bæti ekki úr nokkurri þörf. Og það mundi ekki síður styðja að því að efla landbúnaðinn, eins og jeg hefi fært rök fyrir áður. Enda segir n. um áhættuna, sem af þessu gæti stafað:

„Ef varfærni er gætt, eiga þessi lán að vera hættulaus eins og önnur rekstrarlán“. En þetta: „ef varfærni er gætt“, það gildir vitanlega um rekstrarlán yfir höfuð.

Þetta mál, um úrlausn á lánsþörf bátaútvegsmanna, horfir því þannig við, að þó tillögur sjútvn. um aukningu Fiskiveiðasjóðsins verði samþ., þá fá þeir, sem erfiðasta eiga aðstöðuna, enga úrlausn samkvæmt þeim að svo stöddu, eins og jeg hefi áður lýst, en ef umræddar tillögur landbúnaðarnefndar verða samþ., þá er jafnframt bætt úr þarf þessara manna, og það á mjög hagkvæman hátt.

Þá vænti jeg, að menn muni við nánari athugun málsins geta orðið sammála um það, að það sje ekki verið með þessu að brjóta neitt í bága við þá stefnu, sem hjer kemur fram í frv. um landbúnaðarbanka og jeg viðurkenni alveg rjettmæta, nefnilega að koma upp sjerstakri stofnun fyrir landbúnaðinn. Jeg sje ekki, að það komi nokkurn skapaðan hlut í bága við þá stefnu, þó að þeim mönnum utan kaupstaða, sem stunda bátaútveg, sje gefinn kostur á að afla sjer rekstrarlána í fjelagi við landbændur. Það má gera ráð fyrir — og telja þessu máli til stuðnings —, að slík rekstrarlánafjelög kæmust upp á fleiri stöðum en ella, ef smábátaútvegsmenn, hvort sem þeir stunda landbúnað meðfram eða sjávarútveg eingöngu, ættu kost á að mynda fjelagsskap með landbændum. Jeg býst við, að því fleiri sem væru í hverju hreppsfjelagi til að mynda slíkan fjelagsskap, mundi það ganga greiðar fyrir sig. Enda gæti sumstaðar staðið svo á, að þeir, sem stunda bátaútveg, væru tryggari fjárhagslega. Gæti þá einmitt oltið á þessu, hvort fjelagsskapur yrði stofnaður eða ekki á sumum stöðum. Þarna hnígur ein stoð undir það, að rjett sje að greiða úr lánaþörf lands- og sjávarbænda á einn og sama hátt, að minsta kosti þangað til komin er upp svo öflug stofnun fyrir þá, sem bátaútveg stunda, að hún gæti staðið jafnfætis við þá stofnun, sem nú á að setja upp fyrir landbúnaðinn.

Mjer virtist hæstv. atvmrh. hneykslast á því, sem kemur fram í þessum till., að bátaútvegurinn í kaupstöðum skuli útilokaður. Og hann vildi kalla þetta mínar till. Svo er nú alls ekki, heldur till. landbúnaðarnefndar, þó að það sje hinsvegar rjett, að jeg hafi vakið athygli nefndarinnar á því, að nauðsynlegt væri og jafnframt hagkvæmt að gefa bátaútvegsmönnum kost á því að geta fengið rekstrarlán í fjelagi við landbændur. Hæstv. ráðh. vildi fullkomlega gefa í skyn, að jeg hefði hjer aðallega Akranes fyrir augum og sjóndeildarhringur minn næði þar skamt út fyrir. Jeg þarf ekki að verja þetta fyrirkomulag, af því að jeg eigi það, en hinsvegar er jeg sammála hv. landbn., að rjett sje að gera þennan mismun. Í kaupstöðunum hjer um bil öllum er annaðhvort banki eða bankaútibú, sem þessir bátaútvegsmenn geta snúið sjer til og fengið þar greitt úr sínum nauðsynjum. Það getur þess vegna ekki dulist neinum heilskygnum manni, hver aðstöðumunur er fyrir bátaútvegsmenn á þessum stöðum eða þá, sem afskektir eru og fjarri öllum lánsstofnunum. Þessi aðstöðumunur rjettlætir því fullkomlega þær takmarkanir, sem landbn. setur í þessu efni, og er því með öllu ástæðulaust að vera að tala hjer um nokkra hreppapólitík.

Ennfremur var hæstv. ráðh. að tala um það, að jeg hefði sagt, að í till. sjútvn. væri engin úrlausn, og hin eina úrlausn, sem jeg kæmi auga á í þessu efni, væri sú, sem fælist í till. landbn. Þetta sagði jeg alls ekki, en hitt sagði jeg, að þetta væri ekki úrlausn nema á takmörkuðu svæði, en till. landbn. bættu þar um, því að þær leystu vandann á þeim stöðum, sem till. sjútvn. næðu ekki til.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að hv. 1. þm. S.-M. Hann lagðist á móti þeirri breytingu, sem landbn. lagði til að gera. (Einhver: Meiri hl. er rjettara að orða það). Það hafa ekki komið fram tvö nál., heldur hefir verið lýst ágreiningi tveggja manna. Annar þeirra hefir lýst yfir, að hann ætli að ganga á móti n„ en hv. frsm, hefir ekki lýst yfir því. (Forsrh: Því er lýst yfir í nál.). Já, að þeir hafi óbundnar hendur, en það þýðir hinsvegar ekki, að n. hafi klofnað, svo að það gefi tilefni til að tala um meiri og minni hl.

Jeg hafði lagt þá meiningu í þau orð, sem jeg tilfærði úr nál. sjútvn., að nefndin benti til þess, þar sem hún talar um, að till. geti orðið styrkur fyrir bátaútveginn, að því leyti, sem till. hennar næðu skamt í þessu efni, þá bættu till. landbn. úr. Jeg hafði lagt þennan skilning í nál. sjútvn. af því, að nál. landbn., sem gerir ráð fyrir þessum stuðningi fyrir bátaútveginn, er útbýtt hjer í deildinni fullri viku áður en nál. sjútvn. var útbýtt. Enda get jeg ekki lesið úr þessum tilfærðu ummælum sjútvn. annað en það, að hún miði einmitt við þessar till. Jeg ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp þetta atriði. Það hljóðar svo:

„Fiskiveiðasjóður verður að vísu eftir tillögum vorum miklu smáskornari en æskilegt hefði verið. Þó teljum vjer, að bátaútveginum einum geti orðið að honum mikill styrkur, ef vel er á haldið, einkum ef fyrirhugaðir sveitabankar störfuðu samtímis og styddu jafnhliða útveg bænda þeirra, er á ströndunum búa“.

Það er ekki annað hægt að lesa út úr þessu en að gengið sje út frá, að jafnframt því, sem bændur eigi að fá rekstrarlán þarna, eigi bátaútvegsmenn að fá rekstrarlán beint til bátaútvegsins. Og þegar þess er gætt, að till. landbn. voru áður fram komnar, þá sje jeg ekki, að mögulegt sje að leggja aðra merkingu í þessi orð. Jeg hefi talað við fleiri menn úr sjútvn., og þeir sögðu, að þetta hefði verið sinn skilningur á þessu atriði. Og jeg vænti þess, að ef hv. 1. þm. S.-M. ætlar að halda því gagnstæða fram, þá komi raddir fram frá einhverjum öðrum sjútvn.manna, sem færi sönnur á, að minn skilningur á þessu atriði sje rjettur. Enda liggur það í hlutarins eðli, að þetta hlýtur að vera svona, því það kemur greinilega fram í nál., að tillögur n. ná harla skamt og koma ekki að notum fyrst um sinn nema fyrir menn á takmörkuðu svæði. Það er þess vegna nauðsynlegt að samþ. tillögur landbn., því með því móti fá bátaútvegsmenn alment nokkra úrlausn sinna mála. Vænti jeg þess, að hv. deildarmenn geti orðið sammála um það, að veita bátaútvegsmönnum aðgang að rekstrarlánum í fjelagi við landbændur, þangað til Fiskiveiðasjóðnum hefir vaxið svo fiskur um hrygg, að hann sje orðinn þess megnugur að fullnægja lánsþörf útvegsmanna.