17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3123 í B-deild Alþingistíðinda. (2001)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Jón Ólafsson:

Jeg er sammála hv. frsm. meiri hl. um það, að ekki sje rjett að tefja þetta nauðsynjamál, stofnun síldarbræðsluverksmiðju, með því að vera að flytja brtt. við það eins og nú er komið, enda skiftir bað engu máli, hvernig gengið er frá þessu atriði nú, þar sem vitanlegt er, að síldarbræðsluverksmiðjan mun ekkert starfa í ár, eða þá svo lítið, að engu nemur. Hinsvegar finst mjer þær breyt., sem hv. Ed. hefir gert á frv., ekki eins mikilvægar og hv. þm. Vestm. vildi vera láta. Mjer fanst hann tala svo, sem hann hefði ekki skilið, að það er ætlast til þess, að þeir einir geti orðið þátttakendur í þessu fyrirtæki af sjómönnum, sem ráðnir eru upp á hlut við síldveiðamar. En til þess að háseti geti orðið hluthafi í þessu fyrirtæki, verður hann að hafa lagt inn svo margar tunnur af síld, að það nemi hans skerf af þessum 10%, sem sett eru sem skilyrði fyrir því, að hægt sje að mynda þennan samvinnufjelagsskap. Að öðrum kosti öðlast hann að sjálfsögðu ekki rjett til að gerast hluthafi. Því að þá leggur hann ekkert á hættu. Þetta er svo einfalt mál, að um bað ætti ekki að þurfa að þrátta. Mjer finst því ástæðulaust að vera að stofna þessu máli í hættu með því að fá þessu atriði breytt, Það er ekki svo mikils virði. En hinsvegar er þetta mál svo þýðingarmikið fyrir síldarútveginn, að ekki má leggja stein í götu þess.