17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3125 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Bjarni Ásgeirsson:

Mjer finst hann dálítið einkennilegur þessi úlfaþytur, sem gerður hefir verið út af þeim breyt., sem hv. Nd. gerði á frv., þar sem var ákveðið, að þessi verksmiðja skuli rekin á samvinnugrundvelli, svo framarlega sem þeir, sem að henni standa, finna þörf á að reka hana svo og hafa vilja til þess. Jeg get þó skilið þennan úlfaþyt hjá jafnaðarmönnum, við nánari athugun. Að vísu fundu þeir ekkert hneykslanlegt við það. þó að samvinnufjelagið á Ísafirði væri stofnað og styrkt með ríkisábyrgð, nje þó að stofnuð yrðu með aðstoð löggjafarvaldsins byggingarfjelög í bæjunum á samvinnugrundvelli. en ætla hinsvegar að ganga af göflunum út af þessu máli, eins og verið sje að grafa undan allri velmegun í landinu. hvað þennan atvinnnveg snertir. En þó að þetta sje einkennilegt, skil jeg það samt, því að jafnaðarmenn vilja koma ríkisrekstri alstaðar að, þar sem þeir sjá sjer þess nokkur tök, og líta því samvinnufjelagsskapinn alt annað en hýru auga, er þeir sjá hilla undir þjóðnýtinguna á aðra hönd.

Þá virðist það einnig nokkuð einkennilegt, að íhaldsmenn skuli beita sjer svo fast fyrir því að koma á samvinnufjelagsskap í þessum efnum, því að þeir virðast ekki, a. m. k. sumir þeirra, sjá svo bráða þörf fyrir hann á öðrum sviðum atvinnulífsins. En þetta er líka skiljanlegt. Af tvennu illu og bölvuðu vilja þeir heldur samvinnuna en ríkisreksturinn. Við framsóknarmenn stöndum eins og endranær mitt á milli þessara öfgaflokka. Það eina, sem jeg því ekki skil af því, sem fram hefir komið í þessu máli, er það, að ýmsir af samvinnumönnum þingsins virðast orðnir eins og áttaviltir þegar um er að ræða samvinnurekstur á þessari atvinnugrein. Þetta getur ekki stafað af öðru en vantrú á samvinnu eða vantrú á mönnunum, sem er í rauninni hið sama, því að trúin á frjálsa samvinnu er að mínu áliti ekki annað en trúin á það heilbrigða í mannlegu eðli.

Mjer þykir að vísu fyrir því, hve frv. var skemt í hv. Ed. Þó að vísu sje ekki vikið af samvinnugrundvellinum, eru samt lagðir nokkrir steinar í götu þess, að þetta fyrirtæki geti þróast í samvinnuátt, þar sem mjög lítill hl. fjelagsmanna getur hindrað það, að sú breyting komist á. og tel jeg það til stórskemda á frv. Hinsvegar er svo langt liðið á þing, að búast má við, að frv. dagi uppi, ef farið verður að gera hjer breytingar á því nú. Jeg mun því ekki greiða þeirri till., sem hjer er fram komin, atkv., en er reiðubúinn til þess síðar að taka höndum saman við þá menn, sem vilja færa frv. aftur til þess horfs, sem það var í, er það fór hjeðan frá þessari hv. deild.