17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3130 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Mjer finst það ekki undarlegt, þó að hv. þm. Vestm. sje illa að sjer í samvinnufræðum, því að hann hefir eingöngu lagt stund á gagnstœð fræði. Og mjer kemur það ekki á óvart, þó að honum sje illa við, að það sje skýrt tekið fram, að þessi verksmiðja sje rekin á samvinnugrundvelli. Það stendur nú svo á, að landið er neytt til þess, vegna ástands síldarútvegsins og vanmáttar samkepnismanna, að taka lán, til þess að þessi vara geti orðið til hagsmuna fyrir Íslendinga, en grotni ekki niður eða verði keypt af erlendum verksmiðjum. Ef það er kommúnismi í þessu frv., þá er orðið nokkuð mikið um kommúnisma hjer á Alþingi. Meðal annara er þá flokksbróðir hv. þm. Vestm., hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), kommúnisti, þó að jeg þykist nú vita, að honum gangi það til, að hann sjer, að eins og nú er ástatt hjá samkepnismönnum, gera þeir ekkert nema fyrir sjálfa sig. Ef þetta er kommúnismi, eru ekki einungis jafnaðarmenn kommúnistar, heldur líka allur Framsóknarflokkurinn og meiri hl. Íhaldsflokksins. En sannleikurinn er nú sá, að það er ekki meiri kommúnismi í þessu, nema síður sje, en í ríkisrekstri á pósti og síma. Það fyrirkomulag, sem œtlast er til, að verði á þessu fyrirtæki, er viss tegund samvinnu, það sem kallað er lögþvinguð samvinna, þegar þeir, sem ekki bera skyn á samvinnu og vilja hana ekki, eru neyddir til þess af löggjöfinni að vinna saman, svo að alt fari ekki í ólestri. Þegar Framsóknarflokkurinn hefir gert það mögulegt, að þessi tegund samvinnu geti komist á, með stuðningi íhalds- og jafnaðarmanna, finst mjer sem hv. þm. Vestm. geti ekki sagt, að við framsóknarmenn sjeum óframsýnir í þessu efni. En látum það nú vera, þó að hann kalli okkur svo, þótt rangt sje. Ríkissjóður leggur fram undir eina milj. kr. í þetta fyrirtæki og ber ábyrgð á því út á við, og verður því að athuga það, að þessu verðmæti, sem keypt er með dýrri fórn erlendra lána, sje sæmilega borgið og trygging fyrir því, að það verði til gagns, ef það er látið af hendi. Hv. þm. Vestm. verður að athuga það, að aðalblað Íhaldsflokksins, bændaútgáfa Morgunblaðsins, hefir haldið því fram, að allar till. í þessu máli væru runnar undan rifjum samkepnismanna. Auðvitað er ekki minsti fótur fyrir slíku. En mjer þykir ekki ótrúlegt, að samkepnismenn ætli sjer að sölsa þetta fyrirtæki undir sig, þegar búið er að koma því á laggirnar. Samvinnumenn hafa veitt þessu máli brautargengi í góðri trú, og hafa ef til vill verið of bjartsýnir og ekki gætt þess, hve erfitt er að gera þá menn að samvinnumönnum, sem andvígir eru stefnu og anda þess fjelagsskapar.

Mig rekur minni til þess, að svo bar við á einum stað hjer á landi, að kaupmannsverslunin, sem þar var, lagðist niður, og keypti þá kaupfjelagið á staðnum verslunarhúsin og varð að taka alla gömlu viðskiftamenn kaupmannsins í fjélagsskapinn. Þetta varð til þess, að nú risu upp deilur í þessu kaupfjelagi, sem aldrei hafði borið við áður, kaupfjelagsstjórinn var þjófkendur út af einum sykurkassa o. s. frv. og fjelagið hálfeyðilagt af innbyrðis deilum, sem þessir nýju menn vöktu. Þessir menn, sem gengið höfðu í fjelagið, ekki af löngun, heldur af slysi, gerðu það í stuttu máli að jarðnesku helvíti, og það var með naumindum hægt að reisa fjelagið við aftur. Þá sagði endurskoðandi þessa fjelags við mig, að það væri ekki hægt að fá verri menn inn í samvinnufjelagsskapinn en þá, sem kæmu þangað nauðugir eða fjandsamlegir og hvorki skildu samvinnuna nje vildu beygja sig undir hennar reglur.

Út frá þessu er það, að jeg álít bæði rjett og skylt að gera ráðstafanir til að varna því, að þessari miklu eign, sem bygð verður fyrir erlent lánsfje, verði gloprað úr höndum almennings og gerð að glæfrafyrirtæki samkepnismanna.

Hv. þm. Vestm. vildi útiloka, að minstu framleiðendumir hefðu rjett til að ganga í samlagið. Er það þá meining hv. þm., að lítil klíka kaupsýslumanna og spekúlanta myndi samvinnufjelag til málamynda til að svæla undir sig verksmiðjuna og stingi svo af með hana? Ef hv. þm. hefði meint það alvarlega, sem hann sagði um samvinnustefnuna, þá hefði hann ekki haft á móti því, að smærri framleiðendurnir fengju að vera með. Ef það á að vera forsvaranlegt af nokkurri stj. að selja verksmiðjuna, þá verður það að vera trygt, að smáframleiðendurnir fái líka að vera með. Nei, ef hv. þm. hefir meint þetta tal sitt alvarlega, þá hefði hann ekki á móti því, að smáfólkið fái að vera með. Það er síður en svo, að nokkurt kaupfjelag útiloki smáfólkið. Það hefir þar jafnan atkvæðisrjett á við þá stærstu. En þetta vill ekki hv. þm.

Jeg vil alvarlega vara hv. deild við að breyta frv., því mjer hefir skilist það á hæstv. forsrh., að ef það gangi ekki nú í gegn, þá geti svo farið, að útgerðarmenn eigi mest á hættu sjálfir. Ef þar er engu öðru að mæta en svikum og prettum, þá er þeim best að reyna að vera sjálfbjarga án stórlána, sem ríkið tekur þeim til handa. Núv. ríkisstj. rekur ekki erindi slíkra manna.