17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3133 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Hákon Kristófersson:

Jeg skal ekki hefja hjer miklar umr. um síldarmálin, þessi hjartans mál hæstv. stj. En mjer kemur það undarlega fyrir sjónir, hve ræða hæstv. ráðh. var árásarkend gagnvart hv. þm. Vestm. Hv. þm. Vestm. mun reynast fullfær um að svara fyrir sig sjálfur, en jeg vil spyrja: Hvað var það, sem hv. þm. fór fram á? Ekki annað en það að færa frv. í sama horf og þessi hv. deild skildi við það! Ef hjer er um einhver svik við samvinnustefnuna að ræða, þá vil jeg spyrja hæstv. ráðh.: Hví ásakar hann ekki hv. flm. þeirra brtt., er hjer voru samþ., þá hv. þm. V.-Ísf. og hv. þm. Mýr., fyrir svik við samvinnustefnuna? Annað var það ekki, sem hv. þm. Vestm. fór fram á, en það að breyta frv. í það horf, er þessir menn komu því í.

Hv. þm. Mýr. hjelt hjer ítarlega ræðu og ágæta að öðru leyti en niðurlaginu. Jeg hefði ekki búist við, að jafnmerkur þm. og þar fer reyndist svo undanlátssamur, þegar jafnlítil ástæða er til undanhalds og í þessu máli. Mjer dettur ekki í hug að furða mig á brtt. þeim, sem samþ. voru í Ed., og jeg met þá menn, er að þeim stóðu, síður en svo minna, þótt þeir kæmu fram áhugamálum sínum. Jeg tel þá menn að meiri fyrir að geta stungið mönnum eins og hv. 1. þm. S.-M. í vasa sinn, svo að ekkert bólar á honum upp úr, og að nokkru leyti vini mínum hv. 3. þm. Reykv. (Jól: Þetta var ómaklega mælt um hv. 1. þm. S.-M. ). Þá var annar gállinn á hv. 1. þm. S.-M., þegar hann skrifaði greinina frægu, sem ekki þótti prenthæf fyrir kosningar. Og nú gerist hann svo lítilsigldur að berjast fyrir þeim breyt., sem hann er óánægður með. Hann þykist ekki vilja stofna málinu í voða með því að breyta því aftur. En jeg vil spyrja: Er það forsvaranlegt, eftir að vera búinn að sitja yfir málinu allan þennan tíma, að lýsa því yfir, að það verði að hlaupast burt frá því, þó það sje ekki leyst á þann hátt, er skyldi, af því að komið er að þinglausnum? Svo framarlega sem einhver alvara liggur á bak við, þá mundi hann ekki hika við að reyna að koma skoðun sinni fram, þó málið þyrfti í sameinað þing. Það er broslegt að sjá eins gamlan og greindan þm. og hv.

1. þm. S.-M. koma með slíkar og þvílíkar ástæður fyrir því að vilja ekki koma málinu í samt horf og það fór hjeðan.

Mjer kemur það merkilega undarlega fyrir sjónir þegar hv. 3. þm. Reykv., sem jeg hafði haldið lausan við hugdeiglu, er haldinn sömu skelfingunni og hv. 1. þm. S.-M. Báðir skjálfa þeir af ótta við að færa frv. í samt lag.

Hæstv. dómsmrh. taldi, að verksmiðjunni yrði komið á með dýrri fórn. Jeg býst við, að það sje rjett og að hún verði ekki óveruleg fórn landsins á altari síldarfargansins.

Eins og jeg gat um áðan, þá var ræða hv. þm. Mýr. að flestu góð og viturleg, eins og við var að búast. Þó gat hann ekki slept því að hnýta í Íhaldsflokkinn fyrir fláttskap við samvinnufjelögin. Jeg veit, að þessi hv. þm. vill ekki vamm sitt vita og ekki bera neinn ósönnum sökum! Jeg vil því minna hann á, að íhaldsmenn guldu samvinnulögunum jákvæði, þegar þau voru til meðferðar á hv. Alþingi. Svo ekki hafa þessi ummæli með öllu makleg verið, og veit jeg ekki til, að íhaldsmenn hafi sýnt samvinnufjelögunum fjandskap, enda þótt þeir álíti, að einstaklingsátakið eigi að fá að njóta sín sem best má verða.

Af því jeg er ekki hræddur, þegar jeg hefi samhug hv. 1. þm. S.-M. með mjer, um að málið fái ekki afgreiðslu á þessu þingi, þá mun jeg greiða hinni skriflegu brtt. hv. þm. Vestm. atkv.

Jeg vildi aðeins hafa sagt þessi fáu orð til að láta óánægju mína í ljós yfir hræsninni, er hjer kemur fram, og benda á, hve óframbærileg vörn það er, að af því liðið er að lokadögum þings, þá sje það ekki sæmilegt að flaustra málinu af og vita fyrirfram, að nauðsyn verður að breyta lögunum þegar á næsta þingi. Ef það á þannig að ganga, þá er síst að furða, þó alþjóð undrist þann hringlandaskap, er á Alþingi ríkir.