17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3135 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Magnús Jónsson:

* Hv. þm. Barð. hefir nú sagt margt af því, er jeg vildi segja. M. a. er jeg sammála honum um, að það er óviðkunnanlegt að greina menn, eins og hv. þm. Mýr., eftir pólitískum flokkum, hvort þeir sjeu vinir samvinnunnar eða ekki. Jeg get vel um þetta talað, því mín æfikjör hafa aldrei leitt mig út í að vera í samvinnufjelagi; það hefir aldrei komið til. En þetta fer ekki eftir pólitískum flokkum. Í Íhaldsflokknum eru viðurkendir ágætir samvinnumenn og samvinnulögin voru alls ekki flokksmál.

Jeg er ekki sammála hv. 3. þm. Reykv., að þetta sje svo þýðingarmikið mál, að ekki megi tefja það. Jeg álít það einmitt svo stórt, að óforsvaranlegt sje að afgreiða það á annan hátt en þann besta. Það er hjer rætt um, hvort verksmiðjuna skuli reka sem ríkisfyrirtæki eða hana skuli selja framleiðendum. Það er um þetta að ræða, og ekki annað. Það er ekkert áhorfsmál að offra 2 dögum eða svo til að fá þetta stærsta mál þingsins afgr. eins og meiri hl. þings vill hafa það.

Jeg vildi gjarnan ræða hjer nokkuð við hæstv. dómsmrh., en það er ekki þægilegt að henda reiður á honum; hann er eins og alstaðar og hvergi og horfinn þegar maður vill fara að yrða á hann. En það vildi svo til, að jeg heyrði ræðu hans í þessu máli í Ed., og virtist hann hjer koma að svipuðu atriði, hve óhæfilegt það væri að hleypa öðrum eins mönnum og síldarframleiðendum inn í samvinnufjelögin. Eftir 1000 ára bót og betrun væri ef til vill hægt að hugsa sjer einhverja von um, að þeir yrðu góðir samvinnumenn. En eins og hv. þm. V.- Ísf. benti á, þá væri undarlegt, ef það væri ekki besta leiðin til að kristna heiðingja, að ná þeim í kirkju og láta þá hlýða messu. Og það er undarlegt, ef samvinnumenn vilja útiloka þá, er þeir telja að standi lægst, í stað þess að ná þeim til sín. — Hann sagði sögu af kaupfjelagi fyrir norðan, þar sem alt hafði orðið vitlaust, af því samkepnismenn neyddust til að ganga í það. En hjer er um ekkert slíkt að ræða. í þetta samvinnufjelag eiga ekki aðrir að ganga en þeir, sem þess óska. En hjer er verið að draga menn í dilka, stærri atvinnurekendur eru negrarnir, en hásetarnir hvítir og eiga að göfga alt fjelagið. Þetta er í ósköp góðu samræmi við aðra starfsemi hæstv. ráðh., þegar hann er að „sortera“ mannfólkið í svarta og hvíta. Það leit fallega út, þegar hæstv. ráðh. var að tala um hina smærri framleiðendur, hvort þeir ættu að fá að vera með eða ekki. En eftir frv., eins og það var, var hvorki talað um smærri eða stærri menn. Þar var miðað við þá, er síld láta í verksmiðjuna; smærri menn voru ekki undanskildir.

Annars var gaman að heyra muninn á ræðum ráðh. hjer og í Ed. Þegar það er athugað, að brtt. við frv. eru runnar frá flokksmönnum ráðh. sjálfs, þá lítur út fyrir, að það sje einhver misklíð á heimilinu. Og það var ekki annað að heyra en lengi innibyrgð gremja hefði brotist út og hæstv. ráðh. gripi tækifærið til að svala sjer á flokksmönnum sínum. Nú á hv. deild að gera upp á milli sósíalista Ed. og framsóknarmanna Nd., og ekki var að efa, hverjum liðveislan kom. En ekki skal jeg fara að blanda mjer inn í þessa misklíð hæstv. ráðh. og flokks hans.

Það er ástæðulaust að slá undan vegna þess að þing dragist. Till. er sú sama og hjer var samþ. áður, og liggur beint við að deildin samþ. aftur. Þetta er líka svo stórt atriði, að það væri fyllilega rjettmætt, þó þing drægist þess vegna.

*Ræduhandr. óyfirlesið.