17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3139 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Halldór Stefánsson:

Það kennir allmikils misskilnings hjá þeim hv þm., sem þykjast halda, að okkur framsóknarmönnum sje erfitt að greiða samþykki okkar með frv. eins og það kemur frá Ed. Breyt. þær, sem þar hafa verið gerðar á frv., eru ekki svo stórvægilegar eins og orð hefir verið á gert. Breyt. í raun og veru ekki önnur en að 2/3 í stað síldarframleiðenda þurfi að ganga í samvinnufjel. til þess að fá kauprjett á verksmiðjunni. Hinar aðrar breyt. eru aðeins ítarlegri orðun á því, sem áður var í frv., enda hefir hv. þm. Mýr. sýnt fram á þetta, og vil jeg því ekki lengja umr. með því að taka það upp aftur. Hitt get Jeg ekki felt mig við, að þm. sjeu að bera fram rógmæli um Framsóknarflokkinn á þingi út af þessu máli og öðrum og segi, að kommúnistar hafi gleypt hann með húð og hári. Þessir hv. þm. ljúga þessu að sjálfum sjer — og öðrum með því að bera þetta fram í heyranda hljóði —, þangað til þeir eru sjálfir farnir að trúa ósannindum sínum, og hafa svo engan hemil á ósannindavaðli sínum um yfirgang kommúnista. Þessir menn færa ekki rjett rök fyrir máli sínu. Þeir hafa samvinnufjelagsskapinn að yfirskini í þessu máli, en þeir vilja — af skiljanlegum ástæðum —, að gengið sje sem styst í kröfunum um samvinnufjelagsskap, til þess að sem hægast verði að ná yfirráðum á verksmiðjunni eftir á.