17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3140 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Magnús Guðmundsson:

Það eru aðeins örfá orð. Jeg vildi beina þeirri fyrirspurn til þeirra þm., sem vilja láta frv. þetta ná fram að ganga óbreytt, hvernig þeir hugsi sjer, að hásetar, sem eru upp á hlut, geti verið í þessum fjelagsskap. Þeir eru oft aðeins eitt sumar á hverju skipi og flytjast milli fjelaga eftir því, sem best lœtur. Þetta vona jeg, að hv. frsm. skýri. Um samvinnutalið, sem hjer hefir farið fram, vil jeg segja það, að það nær auðvitað ekki nokkurri átt að halda því fram, að samvinnumenn sjeu eingöngu í Framsóknarflokknum. Þeir eru í öllum flokkum, og jeg get sagt það t. d. hvað mig snertir, að jeg tel mig bæði fylgjandi samvinnu og samkepni. Jeg get ekki skilið það, að nokkur maður sje svo heimskur, að hann hafi á móti samvinnu innan vjebanda þjóðfjelagsins, en jeg verð einnig að líta svo á, að samkepnin sje jafnnauðsynleg. Við keppum altaf að því að ná feti framar í þroska og fullkomnun heldur en feður vorir hafa gert, eða meðbræður vorir hafa náð. Það er ekki nema eðlileg og sjálfsögð skylda vor. Hvorki samvinnu nje samkepni má vanta. Við eigum að vera í samvinnu um það að keppast um að verða sem bestir ríkisborgarar.