17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3140 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Jóhann Jósefsson:

Það þótti nokkur nýlunda hjer í hv. deild, að hæstv. dómamrh. sýndi sig skamma hríð og mælti þá til mín af allmiklum þjósti. Honum gramdist, er jeg benti á þann mannamun, er hann gerir sjer á hv. framsóknarmönnum í Nd. og þeim, sem breytingar þessar hafa borið fram í Ed. Það hefði raunar máske ekki verið þörf fyrir mig að taka upp þykkjuna fyrir þessa hv. þm., er það kom í ljós, að hann taldi till. Ed. mjög skynsamlegar og skýrar, af því að þær fœrðu úr lagi þœr brtt., sem hv. þm. V.-Ísf. og hv. þm. Mýr. höfðu borið fram og komið inn í frv. í Nd., auðvitað með aðstoð annara ágætra þm. Þetta er nú að vísu algert innanhússmál meðal stuðningsmanna stj., hvorn flokkinn eigi að telja gáfaðri. Hv. þm. Mýr. stóð hjer upp áðan og fór að tala um samvinnu og íhald eins og það væri eitthvað fjarskylt. Það er auðvitað vitleysa, eins og þegar hefir verið sýnt glögglega fram á. En það hefir komið fyrir oftar hjer í hv. deild, að hv. framsóknarmenn hafa staðið upp og barið sjer á brjóst að hætti Farisea og sagt: „Sjáið okkur, við erum hinir einu sönnu samvinnumenn, en íhaldsmenn mega ekki tala um neitt slíkt“. Það er eins og skilyrðið fyrir því, að verða talinn samvinnumaður af þessum hv. þm., sje, að menn sjeu annaðhvort í einhverju kaupfjelagi eða útskrifaðir af samvinnuskólanum; en jeg hygg, að þeim væri betra að athuga málið dálítið nánar, áður en þeir raupa of mjög af samvinnuafrekum sínum. Hœstv. dómsmrh. tók í sama strenginn og þessir menn og ljet þá trú sína í ljós, að útgerðarmenn myndu ófáanlegir til samvinnu. Þó má hœstv. ráðh. vita það, að útgerðarmenn hafa þó nokkra samvinnu sín á meðal, þótt löggjafinn hafi ekki sett nein verndunarlög fyrir þá, eða þeir farið fram á neitt slíkt; en þessir menn myndu sennilega ekki vera taldir samvinnumenn á bók hv. þm. Mýr., og því munu þeir ekki eiga skilið neina vernd frá löggjafans hendi. Annars væri full ástæða til að spyrja hv. þm. Mýr., hvenær hann tali í alvöru eða svo, að hann vilji láta taka mark á því, sem hann segir í þessu máli, og hvenær ekki. Í fyrri ræðu sinni sagði hann, að frv. væri „stórskemt“. Jeg skrifaði það eftir honum, en þegar dómsmrh. er búinn að tala og gefa honum tóninn — því að eftir pípu hans verður hv. þm. að dansa —, þá segir hann, að þetta sje aðeins formsatriði, en mannskapurinn er ekki svo mikill, að hann þori að standa við hin fyrri orð sín. Úr því að karlmenska hans er slík, er ekki heldur hægt að búast við því, að hv. þm. þori að standa upp og mótmæla eyðileggingu Ed. á brtt. hans.

Hæstv. dómsmrh. talaði um það, að ef frv. þetta gengi ekki fram nú á þessu þingi, myndi stj. ekki hirða mikið um það mál framar. Jeg held nú, að útvegsmenn hafi þegar fullreynt það, að gerðir stj. og stuðningsflokka hennar hjer á Alþingi hafa ekki orðið þeim til mikillar blessunar, enda er það svo, að ef Framsókn vinst í bili til fylgis við eitthvert mál, sem við stjórnarandstæðingar berum fram útgerðinni til hagsbóta, þá rísa jafnaðarmenn öndverðir gegn því, og hinir slá þá undan, eða láta málin sofna svefninum langa. Mörg slík dæmi mætti nefna, eins og t. d. fiskiveiðasjóðsfrv., sem nægur tími hefði verið til að afgreiða, ef hv. þm. Ak. og hv. 2. þm. S.-M. hefðu ekki sjeð fyrir, að það frv. yrði svæft. Þetta hefði hv. 1. þm. S.-M. mátt vita, ef hann á annað borð kynnir sjer gang mála hjer á þingi. Þá mættu menn einnig minnast þess, að við afgreiðslu laga um búnaðarbankann drap hv. Framsóknarflokkur þá brtt., að bændur, sem reka smábátaútveg samhliða sveitabúskap, fái hjálp úr bankanum til beggja greina atvinnurekstrar síns. Þetta sýnir umhyggju Framsóknar fyrir sjávarútveginum. Þá mætti minnast á síldareinkasöluna og afdrif hennar, sem þegar eru farin að koma í ljós, en sem með tímanum munu sýna sig betur, og þá mun sjást, hvaða afleiðingar atgerðir framsóknar- og jafnaðarmanna í þeim málum hafa fyrir sjómannastjett þessa lands og aðra, sem eiga afkomu sína undir sjávarútveginum. Mjer þykir mikið fyrir, að hv. 1. þm. S.-M. skuli ekki hafa það lunderni til að bera, að hann rísi upp gegn gerðum Ed., og jeg hlýt að telja ólíklegt, að hugur fylgi máli hjá honum, þegar hann ræðir um þetta frv.

Þá kem jeg að ummælum hv. þm. Mýr., er hann sagðist vilja, að hásetar, sem síld ættu, tækju þátt í þessu, og beini því til hans og hv. 1. þm. S.-M., á hvað skömmum tíma þeir myndu treysta sjer til að koma á samvinnu um rekstur verksmiðjunnar meðal háseta og útgerðarmanna, þegar hv. 4. þm. Reykv. stendur á móti og hefir ráð sjómanna í hendi sjer. (SÁÓ: Hvaða sannanir eru fyrir því, að hann muni standa á móti?). Orð hans ættu að vera næg sönnun, ef taka má nokkurt mark á þeim, og hann hefir þegar látið álit sitt í ljós í þessu máli, en svo bætist það við, að hann er bæði á móti samvinnu og samkeppni, og öllu öðru en ríkisrekstri, eða svo lætur hann ávalt að minsta kosti. En ef til vill — og það er sennilegast — hefir hann enga skoðun og enga stefnu í þessu nema augnabliksflokkshagsmunapólitík.

Hv. 1. þm. Skagf. benti rjettilega á, að þetta myndi ekki reynast svo auðvelt í framkvæmdinni, þar sem sjómenn væru ekki nema eitt og eitt sumar hjá sama fjelagi eða útgerðarmanni, en vel má vera, að þessir hv. þm. hafi sjeð einhvern óþektar möguleika til framkvæmda á samvinnu meðal þessa dreifða og hvarflandi sjómannahóps, og væri þá vel, ef þeir skýrðu frá því, sem þeim hefir hugkvæmst í málinu.

Þá vil jeg víkja að því aftur, er hv. þm. Mýr. taldi frv. stórskemt í fyrri ræðu sinni, en meinlaust í hinni seinni. Þær breyt. á frv., sem gerðar hafa verið í Ed., munu vera runnar undan rifjum jafnaðarmanna, en framsóknarþm. hafast ekki að og ætla að láta þá eyðileggja þessi lög eins og þeir ljetu hina sömu menn stöðva frv. um fiskiveiðasjóðinn, — en þeir um það.

Að endingu vil jeg segja það, að jeg álít best, að hæstv. dómsmálaráðh. skifti sjer ekkert af útgerðinni. Honum mun um annað sýnna yfirleitt en að hafa góð áhrif á atvinnumál sjávarútvegsins, og ef til vill á atvinnumálin yfirleitt. Sagan mun bera vott um, hvaða afleiðingar það hefir, að þessi ráðh., sem er útsendari og raunverulegur flokksbróðir jafnaðarmanna, skuli eiga sæti í þessari stj., og aumkunarverðan kalla jeg þann flokk þingbænda, sem er eða lætst vera starblindur fyrir því og styður þennan sósíalista til valda hjer á landi.