28.02.1929
Efri deild: 10. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3155 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

39. mál, einkasala á síld

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Jeg vil benda hv. 3. landsk., þegar hann var að tala um yfirráð íslenskra framleiðenda yfir þessum atvinnurekstri, á ummæli eins stærsta síldarkaupmannsins í Svíþjóð, er sendimaður einkasölunnar fann að máli í fyrra vor. Hann sagði eitthvað á þessa leið: „Jeg hefi altaf búist við því, að Íslendingar vildu taka síldarsöluna í sínar hendur úr höndum Svía, þar sem hún hefir verið áður“. Þessi síldarkaupmaður leit ekki svo á, að verið vœri að taka söluna úr höndum íslenskra framleiðenda, heldur úr höndum Svía.

Hv. 3. landsk. gaf í skyn, að það bryti í bága við till. mína í fyrra um niðurfærslu á útflutningsgjaldi af síld, að hjer er farið fram á, að 2/3 gjaldsins renni í varasjóð einkasölunnar. Jeg fæ ekki sjeð, að hjer sje um mikinn eðlismun að ræða, þar sem í báðum tilfellum kemur þetta sömu mönnum til hagsbóta, á öðrum staðnum sem eftirgjöf á tolli, en á hinum staðnum sjóðmyndun til styrktar framleiðendum, sem við síldarútveginn fást. Hv. 3. landsk. hefir því áreiðanlega reiknað þetta dæmi sitt rangt, eins og stundum fyrri.