03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3174 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

39. mál, einkasala á síld

Haraldur Guðmundsson:

Jeg veit ekki, hvort það er ástæða til þess að fara að lengja þessar umr., en jeg get þó tæpast setið hjá eftir að hafa heyrt ræðu hv. þm. Vestm. Ekki af því, að það sje neitt óvanalegt eða nýstárlegt að heyra slíka ræðu, en það tjáir ekki að láta hana standa ómótmælta, þó ekki sje nema í þingtíðindunum, sem tiltölulega fáir lesa.

Hv. þm. Vestm. virtist alveg hafa gleymt því, hver ljóður var á síldarversluninni áður en einkasalan tók til starfa, og er þó ekki langt um liðið síðan. Hann tók svo til orða, að síldarverslunin hefði þá ekki verið laus við ýms bernskubrek, en lýsti ekkert nánar þessum „bernskubrekum“ og virtist yfirleitt vera ánægður með þennan atvinnurekstur eins og hann var þá. Hv. þm. tók það fram, og gerði það alveg rjettilega, að stundum hefði orðið mjög mikið tap á þessari verslun, en svo hefðu aftur komið góð tímabil á milli, þegar síldveiði og verslun hefði verið rekin með miklum hagnaði. Hv. þm. tók svo til orða, að veiðibrestsárin hefðu verið sá tíminn, sem útgerðarmenn settu von sína til. Þá græddu þeir, en á góðu aflaárunum urðu þeir fyrir stórtöpum. Það er ekki hægt að fá gleggri sönnun en þessa fyrir því, hvílíkt feiknaólag var á þessum atvinnurekstri, þar sem mögru árin urðu að bæta upp þau feitu. Það er rjett, að yfirleitt var það svo, að á góðu aflaárunum voru töpin mest. Verslunin með þessa vöru var í þeim afskaplega ólestri vegna taumlausrar „spekulationar“ og skipulagsleysis, að góður afli og mikill varð að hefndargjöf bæði fyrir verkafólkið, útgerðarmenn og síldarkaupmennina, þá fáu, sem innlendir voru.

Nú vil jeg taka það fram, að jeg er alls ekki ánægður með einkasölulögin. Þau eru að vísu spor í rjetta átt, en það spor er of skamt. Einkasalan er eiginlega hvorki fugl nje fiskur. Hún er ekki ríkisfyrirtæki, og hún er heldur ekki samvinnufjelag. Er því hætt við, að fremur verði litið á hag útgerðarmannanna, sem teljast eiga að bera ábyrgð á fjárreiðunum, en minna hugsað um þörf þeirra, sem atvinnuveginn stunda, verkamanna og sjómanna. Með þessu frv., sem hjer liggur fyrir, eru gerðar nokkrar umbætur, en þó ekki eins miklar og æskilegt væri. Það er mælt svo fyrir, að sameiginleg yfirstj. einkasölunnar skuli sjá um alla söltun á síld, og sú yfirstj. skuli ráða. því, hversu mikið af síldinni er saltað, og hve mikið látið í krydd. Jeg er viss um, að þetta er til bóta frá því, sem nú er. Á þennan hátt má koma við fullkominni flokkun og vöruvöndun, en á því hafa verið miklir erfiðleikar.

Hv. þm. Vestm. hefir tekist á hendur að deila á framkvæmdastjórn einkasölunnar, og þó að jeg ætli alls ekki að fara að afsaka gerðir hennar á nokkurn hátt, þá vil jeg benda hv. þdm. á það, að þessi hv. þm. hefir ekki látið svo lítið að kynna sjer þá skýrslu, sem einn af forstjórum einkasölunnar hefir gefið út um hag og rekstur hennar á síðasta ári. Hv. þm. hefir eflaust haldið, að það væri hollara fyrir sig og málstað sinn að fá upplýsingar annarsstaðar að, frá öðrum og verri heimildum. Jeg get frætt þennan hv. þm. um það, að sá af flokksbræðrum hans, sem mest hefir staðið í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn einkasölunni, Björn Líndal á Svalbarði, hefir í ræðu og riti margoft látið þess getið, að hann hafi ekkert að athuga við það verð, sem einkasalan hafi fengið fyrir síldina, og segist vera alveg ánægður með það. Þessi maður hefir fundið einkasölunni margt til foráttu, en hann játar þó samt altaf þetta, og hefir slík játning ekki svo lítið að segja, þegar hún kemur úr þeirri átt. Jeg held líka, að hvert sem litið er, þá sje ekki hægt annað en að vera sæmilega ánægður með síldarverðið á síðasta ári, en að því mun jeg víkja síðar.

Hv. þm. Vestm. hjelt því fram, að það hefði verið veiðibrestsár 1928 og því hefði verðið átt að verða gífurlega hátt til að „bæta upp“ góðu aflaárin; Jeg veit ekki, hvaðan honum kemur sá fróðleikur. Jeg held þvert á móti, að það hafi verið óvenjulega gott veiðiár, og skal sýna hv. þm. það svart á hvítu með því að taka úr hagskýrslunum yfirlit yfir síldarafla 6 síðustu ára.

Árið1923 var síldaraflinn alls 325.392 hl.

— 1924 — 236.769 —

— 1925 — 341.054 —

— 1926 — 208.073 —

— 1927 — 597.347 —

og 1928 var hann milli 500 og 600 þús. hektólítra.

Af þessu yfirliti sjest, að það er fjarri öllum sanni, að veiðibrestur hafi verið árið 1928; það hefir þvert á móti verið langt yfir meðaltal. Aðeins árið 1927 hefir veiðin verið meiri, lítið þó, en öll hin árin miklu minni. Hinsvegar hefir minna verið saltað og kryddað en bæði 1927 og 1925, en aftur langtum meira en árið 1926.

Þessi 4 síðustu árin var saltað og kryddað sem hjer segir, talið í tunnum:

Árið 1925 215.011 í salt og 39.099 í krydd

— 1926

97.242 — — 35.079 —

— 1927 180.816 — — 59.181—

— 1928 124.157 — — 50.176—

Hv. þm. Vestm. hjelt því fram, að af því að árið 1928 hefði verið veiðibrestsár, sem jeg er nú búinn að sýna, að er rangt, þá hefði verðið átt að vera hærra en undanfarin ár. Mátti af ræðu hans helst skilja það, að verðið hefði ekki verið hærra en áður, því hann taldi, að síldareinkasalan hefði ekki orðið til neinna bóta. Jeg hefi það fyrir satt, að síldareinkasalan sje búin að greiða kr. 23,00 fyrir herpinótasíld og kr. 24,00 fyrir reknetasíld, og að það standi til að bæta hverja tunnu upp með a. m. k. kr. 1,50. Verður þá tunnan af herpinótasíld kr. 24,50 og af reknetasíld kr. 25,50. Auk þess hefir einkasalan orðið að greiða ýmsan annan kostnað: matskostnað, útflutningsgjald, sölu- og stjórnarkostnað o. fl., sem útflytjendur til þessa hafa sjálfir greitt. Ef það er gert kr. 3,50 á tunnu, þá er raunverulegt verð 28 kr. á herpinótasíld og 29 kr. á reknetasíld. Ef aftur á móti er athugað, hverju skilað er fyrir nýja síld, þá er rjett að miða við áðurgreint verð, kr. 24,50 og kr. 25,50, og draga frá því fyrir salt, tunnu og vinnulaun o. fl. kr. 11,00 pr. tunnu, þá hafa seljendur fengið raunverulega kr. 13,50 fyrir herpinótasíld og kr. 14.50 fyrir reknetasíld, miðað við eina tunnu af nýrri síld. Sje aftur á móti miðað við verð á máli, sem gera má ráð fyrir að sje 11/2 tunna, þá er verðið á því hlutfallslega ca. 20–22 kr. Jeg held, að óhætt sje að fullyrða, að það sje hæsta verð, sem fengist hefir fyrir síldina yfirleitt hin síðari ár. Það er a. m. k. meira en tvöfalt á við það, sem verksmiðjurnar borguðu á sama tíma fyrir nýja síld. Eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi bestar getað fengið, þá hefir síldarverðið 1927 verið 16, mest 17 kr., miðað við mál af nýrri síld. Og 1926, sem var ljelegt veiðiár, mun það hafa verið um kr. 17.50 að meðaltali pr. mál. það ár hefði þó verðið átt að vera hátt samkv. kenningu hv. þm. Vestm. En eins og jeg sagði áðan, þá var meðalverð á máli síðastl. ár um og yfir 20 kr. á því, sem fór í salt. Jeg skal að vísu játa það, að síldareinkasalan var heppin á marga lund. Síldin veiddist á heppilegum tíma.

Að síldveiðimenn hafi haft ótrú á þessu fyrirtæki, held jeg að sje bara huggunarrík ímyndun hjá hv. þm. Síldareinkasalan fjekk beiðni um söltunarleyfi á 400 þús. tunnum, og var það meira en nokkru sinni hefir verið saltað eða vit er í að salta eins og nú standa sakir. Hún mun hafa leyft um 200 þús., með því að hún hugði á sölu til Rússlands, en lœkkaði það síðan niður í ca. 170 þús. tn. En af því veiðitíminn fyrir herpinætur var stuttur, kom ekki til þessarar takmörkunar.

Hv. þm. Vestm. fann stj. einkasölunnar margt til foráttu. Jeg skal aðeins víkja að tveimur atriðum, þó að ástœða vœri máske til að víkja að fleiru af því, sem hv. þm. taldi upp. Annað, sem jeg vildi minnast á, var það, að hv. þm. sagði, að gerðir hefðu verið fyrirfram samningar um stœrri síld heldur en einkasalan gat látið og að kaupendur hefðu því getað losað sig við samningana, ef þeir hefðu viljað. — Það er nú nokkuð hæft í þessu, því miður. Síldin fjekst ekki í þeim stærðarhlutföllum, sem um hafði verið samið. En það er fjarri öllum sanni að kenna framkvœmdarstjóranum um þetta. Og hv. þm. verður að líta nær sjálfum sjer og sínum flokki, ef hann vill átelja þetta. Stj. einkasölunnar hafði samið reglugerðina, sem meðal annars ákvað það, hvað margar síldar skyldu fara í eina tunnu. Og eftir því fór framkvæmdastjórinn, er hann gerði sölusamningana. Þegar semja átti reglugerðina, fól stj. einkasölunnar Birni Líndal á Svalbarðseyri að gera það. Hann var talinn þessu kunnugastur, og reglugerðin er því að langmestu leyti hans verk. Og það var hann, sem taldi stj. trú um, að óhætt væri að gera ráð fyrir svo stórri síld. Stj. fór í því eftir till. hans. Jeg skal játa það, að þetta voru mistök, og þau ekki smá. En jeg get ekki sjeð, að framkvæmdastjórinn eigi neina sök á því, heldur á stj. einkasölunnar hana, og þá sjerstaklega Björn Líndal, sem er flokksbróðir hv. þm. Vestm. og virðist hafa átt að vera einskonar sjerfrœðingur einkasölustjórnarinnar í þessari grein.

Þá sagði hv. sami þm., að stj. síldareinkasölunnar hefði tekið upp þann ægilega ósið að selja síldina þannig, að kaupendur tœkju hana gilda eftir á við skoðun hjer. Þetta er rjett. Síldin var seld þannig, mest eða öll, „mod Besigt“. En hvernig var nú þetta áður? Það var síst betra. Jeg held, að fáir eða engir hafi áður getað selt síldina eftir mati hjer heima. Þeir urðu flestir að senda síldina út úr landinu óselda. Þar lá hún svo oft von úr viti; sumt var selt, sumu hafnað og varð það oftast verðlítið eða með öllu óseljanlegt. Þegar því hv. þm. var að tala um þetta, gleymdi hann því, að sá mikli munur var á sölunni nú í sumar og undanfarin ár, að í sumar var öll síldin seld og afhent hjer heima. Kaupendur voru skyldaðir til að kaupa síldina og taka við henni áður en hún fór út úr landinu. Var því um engin eftirkaup að ræða, ekki hœgt fyrir hina erlendu kaupendur að ganga í birgðir erlendis, velja það besta úr og gera hitt verðlaust. Þetta er afarmikils virði samanborið við það, sem áður var, þar sem altaf var undir hælinn lagt, að síldin seldist, og stundum var ekkert nema kostnað að hafa á því að flytja hana út: sumir urðu að borga fyrst stórfje fyrir geymslu og síðan til viðbótar verulegar upphæðir fyrir að fleygja síldinni í sjóinn. Jeg játa það að vísu, að langæskilegast vœri, að hægt yrði að selja síldina eftir íslenskum matsvottorðum. En það hefir ekki verið hægt til þessa. og má því ekki ásaka einkasölusj., fyrir það. En að því þarf vitanlega að stefna, og er vonandi, að það takist í framtíðinni, með öruggara og betra mati.

Jeg hefi nú um stund orðið til þess, móti vilja mínum, að verja gerðir síldareinkasölunnar en það varð jeg að gera vegna þessara tiltölulega smávægilegu saka sem hv. þm. Vestm. var að bera á hana, En sjálfur ætlaði jeg að minnast á miklu stærri misfellur sem jeg tel vera á starfi síldareinkasölunnar.

Jeg hefi sagt frá því, hvað síldareinkasalan hefir skilað síldarsaltendum, og að það svaraði til rúml. 20–22 kr. fyrir mál af nýrri síld. En hvað hafa þá síldarveiðendur, sjómennirnir og smærri útgerðarmenn, fengið fyrir síldina? Því er fljótsvarað. Það, sem þeir hafa fengið fyrir nýja síld, er 12–14 kr. meðalverð á mál, og jafnvel lægra þó. Það er sama sem 8–9 kr. á tunnu, eða lægra. Þetta er það, sem síldarveiðimennirnir hafa fengið. En þeir, sem keyptu af þeim, hafa grætt alt að 5 kr. á hverri tunnu. Með svona löguðu fyrirkomulagi er ekki náð tilgangi einkasölunnar. Það er alls ekki tilgangurinn með henni, eða á ekki að vera, að afla gróða handa milliliðum, mönnum, sem eru ekkert annað en „spekulantar“ í síld og síldarverslun. Gróðinn af veiðinni á vitanlega að ganga til veiðimannanna sjálfra. En hvers vegna urðu veiðimennirnir að selja kaupmönnum og spekulöntum? Vegna þess, að síldareinkasalan hafði ekkert rekstrarfje. Jeg er því með þessu ekki að ásaka stj. eða framkvæmdastjóra einkasölunnar, heldur Alþingi, sem gerði hana svona úr garði. Jeg þekki mann, sem síðastliðið sumar keypti 10.000 tn. af síld og seldi aftur gegnum einkasöluna. Gróði hans á þessu hefir a. m. k. verið 40–60 þús. kr. Og mjer hefir verið sagt frá öðrum manni, sem seldi einkasölunni milli 20 og 30 þús. tunnur: mest af því keypti hann af öðrum. Hann hefir einnig grætt laglegan skilding. sennilega. um 100 þús. kr.. á milliliðastarfseminni. Þannig gengur það til, meðan síldareinkasalan hefir ekkert fje handa á milli til að greiða síldarframleiðendum við móttöku, svo sem nauðsynlegt er, til þess að þeir geti sjálfir verkað eða látið verka síld sín? og notið hagnaðarins af því starfi til fullnustu, með því að selja hana sjálfir beint til einkasölunnar og fá það verð, sem hún skilar. Jeg hjelt þessu sama fram í fyrra, þótt jeg yrði að sætta mig við það, sem þá fjekst fram, þar sem mjer þótti betri hálfur skaði en allur. En jeg get vel skilið, að þeir, sem ekkert vildu gera, engu breyta til batnaðar og voru að öllu leyti ánægðir með það ástand, sem var áður, sætti sig vel við það, að þeir, sem eiga eða hafa til umráða fje og hafa aðstöðu til þess að gerast milliliðir síldveiðimanna og einkasölunnar, græði fyrirhafnarlítið. En jeg álít, að þessir milliliðir og „spekúlantar“ eigi ekki að taka gróðann frá síldveiðendum. Síldareinkasalan á að gera þá óþarfa, skila andvirðinu beint til þeirra, sem eiga skipin og veiða síldina. Til þess þarf einkasalan rekstrarfje, svo að hún geti borgað talsvert út við móttöku, í öllu falli jafnmikið og verksmiðjurnar borga. Þessir menn geta auðvitað ekki beðið eftir andvirðinu þar til síldin er seld.

Þá er annað höfuðatriði, sem jeg vil minnast á. En það er, að jeg tel síldareinkasöluna hafa lagt alt of mikla áherslu á það að útvega seljendum gróða með því að kappkosta að fá sem hæst verð. Jeg verð að telja þetta mjög óviturlegt, vegna þess að því meiri áhersla, sem lögð er á bað að selja síldina við háu verði, því þrengri verður markaðurinn fyrir hana, því færri geta keypt hana. En því lægra verði sem hún er seld, því fleiri geta keypt hana og því víðari verður markaðurinn. Það mark, sem á að setja sjer um sölu síldarinnar til þess að vinna sem víðastan markað, er að setja verðið þannig, að það sje aðeins lítið eitt fyrir ofan framleiðslukostnaðinn. Meðan þriðjungi hærra verð fæst fyrir síld, sem söltuð er, en fyrir bræðslusíld, er altaf hagur að því að selja síldina saltaða fremur en í bræðslu. Framtíð síldveiðinnar byggist á því, að vinna sem víðastan markað. Sje verðið lágt, geta fleiri og fátækari menn keypt síldina, og markaðurinn eykst. Með því að hafa verðið lægra í upphafi hefði áreiðanlega mátt selja meira af saltaðri síld. Þó að jeg ekki geti bent á dæmi þessu til sönnunar, hygg jeg, að flestir verði að játa, að stj. einkasölunnar hafi gert alt of mikið að því að halda verðinu sem hæstu. Verðið varð a. m. k. mjög gott. Hefði því vel mátt una við nokkru lægra, ef meira hefði þá verið hægt að selja. Ef dæma skal um það, hversu salan hefir hepnast, þá er rjettast að taka Norðmenn til samanburðar, og þá sjest, að einkasalan hefir selt stórum betur en þeir yfirleitt. Jeg held nú reyndar, að það hafi að nokkru leyti verið slembilukka, sem rjeði því, að svo varð, því að alt það, sem eftir var óselt í haust, um 50 þús. tn., var selt einum manni fyrir 30 kr. tn. En eftir það fór verðið lækkandi á norskri síld og hjelt áfram að lækka til áramóta. Í desember var það komið niður í 20–21 kr. pr. tn. Sennilegt er, að ef við hefðum ekki selt í haust, þá hefðum við lent í sömu verðlækkun með okkar síld. — Jeg ætla þá ekki að svara hv. þm. Vestm. meiru að sinni.

Hv. þm. Dal. þarf jeg engu að svara. Sá hv. þm. söng bara sinn vanasálm um einokun, ófrelsi og annað því um líkt. Þessi söngur hefir svo oft áður heyrst frá hv. þm., að engum bregður orðið við að heyra hann. Og jeg býst við, að hann haldi áfram að syngja í sama tón. Við því er ekkert hægt að gera. Það syngur hver með sínu nefi!