03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3185 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

39. mál, einkasala á síld

Pjetur Ottesen:

Eins og hv. þdm. muna, þá greiddi jeg atkv. með síldareinkasölulögunum á síðasta þingi. Og jeg verð að segja það, að þó á ýmsan hátt og að mörgu rjettmætan hafi að framkvæmd þeirra laga verið fundið, þá hefir það þó komið skýrt í ljós, að það hefir töluvert mikla kosti að hafa síldarsöluna skipulagsbundna og að takmarka útflutninginn. Þetta held jeg, að hafi fullkomlega komið í ljós og jeg lít því svo á, að engin ástæða sje til þess að hverfa frá þessu fyrirkomulagi, nema því aðeins, að bent sje á annað betra fyrirkomulag, sem komið geti í stað þessa. Hinsvegar gekk jeg þess ekki dulinn á síðasta þingi, nje geng þess enn, að það var galli á frv. og er á lögunum, hvernig ákvæðið var um skipun stj. fyrir síldareinkasölunni. Með því fyrirkomulagi, sem samþykt var, var þessi kosning gerð pólitísk. Og að þetta var óheppilegt, hefir nú reynslan þegar staðfest. Þegar um pólitíska kosningu er að ræða, er ekki tekið tillit til þeirra atriða, sem varða mestu, sem er þekking og reynsla og aðrir þeir kostir, sem mest þörf er á. Jeg hygg, að þau mistök, sem orðið hafa, eigi einmitt rót sína að rekja til þessa fyrirkomulags á forstöðu einkasölunnar. Og jeg verð að telja það kost á einkasölufyrirkomulaginu, að ekki skuli þó enn meiri mistök en raun er á orðin hafa átt sjer stað þrátt fyrir þetta.

Með lögunum frá síðasta þingi var alls ekki stefnt inn á þá braut að stofna ríkissjóði í neina fjárhagslega áhættu út af einkasölunni, en með því frv., sem hjer liggur fyrir, er beinlínis að því stefnt, og væri því um mjög ákveðna stefnubreyt. að ræða af hálfu Alþingis, ef það samþykti þetta frv. Þetta liggur í því ákvæði, að heimila ríkisstj. að ábyrgjast lán handa einkasölunni, að upphæð alt að hálfri miljón kr. Að öðru leyti kemur einnig fram stefnubreyt. í þessu frv. frá lögunum frá í fyrra, þar sem nú er gert ráð fyrir, að einkasalan taki þennan atvinnurekstur að nokkru í sínar hendur. Stj. einkasölunnar er sem sje gefin heimild til að krefjast þess að fá síldina nýja til verkunar, og virðist það liggja í ákvæðum 2. gr., að þessi heimild skuli notuð. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „ — — og sjá um verkun og geymslu síldarinnar, annaðhvort milliliðalaust eða eftir samningum við ákveðna saltendur“.— — —

Hjer er því með öðrum orðum slegið föstu, að það sje verk síldareinkasölunnar „að sjá um verkun og geymslu síldarinnar“, og virðist þetta sæmilega skýrt, að tilætlunin sje sú, að þessi svokallaða heimild í 1. gr. skuli notuð.

Þriðja stefnubreyt. frá því, sem núgildandi lög ákveða, er það, að gera opinberar ráðstafanir til þess að stuðla að því, að þessi atvinnuvegur geti blásið sem allra mest út. Þetta liggur meðal annars í því, að þessum atvinnuvegi er veittur greiðari aðgangur að lánsfje og hinsvegar trygt, að áhætta þeirra, sem leita sjer atvinnu við þetta, verði algerlega numin burtu.

Jeg skal þá minnast nokkru nánar á þessi þrjú stefnubreytingaratriði.

Í fyrsta lagi er ætlast til, að einkasalan taki að sjer verkun og geymslu síldarinnar. Með því er gengið inn á atvinnurekstrarsvið einstaklinga. Auk þess er gert ráð fyrir því í frv., að einkasalan hagi verkuninni þannig, að hún noti milliliði til að framkvæma hana, eða m. ö. o. feli verkunina einhverjum þeirra sömu manna, sem áður hafa rekið hana fyrir eiginn reikning. Vinningurinn yrði þá ekki annar en sá, að hin fjárhagslega áhœtta fœrist yfir á einkasöluna, þvert ofan í tilætlun margra hv. þdm., sem voru með í að setja lögin á síðasta þingi. Jeg verð að segja, að eins og stj. einkasölunnar er nú skipuð, finst mjer öldungis ótækt að ganga inn á þessa braut. Stj. einkasölunnar hefir þarna óbundnar hendur um kaupgjald, og nú hefir einn af forstjórunum lýst því yfir, bæði í ræðu og riti, að ágóðinn af atvinnurekstri þessum eigi ekki nema að mjög litlu leyti að ganga til útgerðarmanna. heldur til verkamanna. — Þarna má þá gera ráð fyrir kauphækkun, sem vitanlega leiðir af sjer aukna aðsókn að þessari atvinnu, sem þó virðist nægjanleg eins og hún er. Mætti þá œtla, að með þessu verði snúin enn fastari snara að hálsi landbúnaðarins en enn hefir orðið í þessu efni. Það er öllum kunnugt, að síldveiði og heyöflun fara fram á sama tíma, og er því auðsætt. hvernig fara muni, ef gengið er inn á þessa braut. Mér virðist þetta mjög varhugavert atriði bæði að því leyti, að það felur í sjer takmörkun á atvinnurekstri einstaklinga, og svo sú kauphækkun, sem þetta myndi leiða af sjer, sem jeg veit, að þó hún ef til vill eigi ríði landbúnaðinum að fullu, muni koma mjög þunglega niður á honum.

Þá er hitt atriðið, sem jeg mintist á í upphafi máls míns, sú stefnubreyt., sem þetta frv. felur í sjer, að láta ríkissjóðinn taka á sig ábyrgðina á þessum atvinnurekstri. Eins og jeg gat um áðan, er stj. heimilað að ábyrgjast lán fyrir einkasöluna, að upphæð alt að milj. króna. Um varasjóð er tœplega hœgt að tala á fyrsta og öðru ári. Hann getur ekki numið nema örlitlu.

Það er gert ráð fyrir, að greiða megi út fyrirfram 18 kr. fyrir hverja tunnu síldar, og það, að greiða ekki meira út, á að vera til tryggingar því, að ríkissjóður bíði ekki tjón vegna ábyrgðarinnar. Þetta er í sjálfu sjer ekki mikil útborgun, ef litið er á, hvað fengist hefir fyrir síldina á bestu árunum; en nú er það kunnugt, að mjög getur brugðist til beggja vona í þessu efni; veiðin á stundum misbrestasöm og salan stopul. Þótt sala saltsíldarinnar eigi að vera sæmilega trygg. Þá er markaðurinn fyrir hana mjög takmarkaður, og þykir mjer því alldjarft teflt og hygg jeg, að hið sama virðist öðrum þeim, sem ekki vilja með nokkru móti, að ríkissjóður taki á sig áhœttuna af þessum atvinnurekstri. Jeg sje mjer því alls ekki fœrt að ganga að þessu. Nú hefir því verið haldið fram af hv. þm. Ísaf., að með þessu mundu fleiri en áður njóta arðsins af framleiðslunni. Jeg sje ekki, að hægt sje að vita um það að svo stöddu, hvort menn, sem áður hafa veitt og selt síldina, vilja lúta að því ráði að fá lán og „spekúlera“ með síldina; yfirleitt hefir það verið reglan, a. m. k. er það svo í Noregi, að veiði og verslun með síldina eru aðskildar mjög ákveðið.

Þá kem jeg aftur að 3. atriðinu, sem sje þeim ákvœðum frv., sem stuðla að því, að þessi atvinnuvegur geti blásið sem allra mest út. Hjer kemur fyrst til greina það, að nú á að gefa miklu fleirum en áður tækifœri til að taka þátt í þessum atvinnuvegi, og svo ákvæði 5. gr. um að hækka um helming tillag til markaðsleitarsjóðs og varasjóðs.

Einn af þeim kostum, sem jeg taldi vera á frv., var sá, að nú mundi tilœtlunin að vinna betur að öflun nýrra markaða; en það undarlega kemur í ljós, að þeim, sem málið flytja, sýnist engin þörf á þessu.

Mjer er vitanlega ekki nægjanlega kunnugt um. hvað mikið verk er að vinna í þessu efni. en mjer sýnist, að úr því að ástæða þótti til að auka þetta fje, þá ætti að verja því til að afla nýrra markaða. en eftir ákvæðum 8. gr. á öll hækkunin, 11/4%, að ganga til varasjóðs, sem svo aftur á að skiftast í aðra smærri sjóði, en aðeins 3/1% í markaðsleitarsjóð.

Eins og jeg hefi minst á, hefir aðsóknin að atvinnu við veiði og verkun síldarinnar verið mjög milli undanfarið, og veldur því fyrst og fremst það háa kaup, sem oftast hefir verið í boði. Auk þess koma þarna til greina aðrar ástœður, svo sem það, að þarna eiga menn við meiri glaum og gleði að búa en annarsstaðar á þessum tíma árs. Þó hygg jeg sem sagt, að kaupið hafi valdið mestu. Nú hefir það hinsvegar á stundum verið nokkuð stopult, og hefir það dregið úr aðsókninni, en ef nú á að tryggja það, að fólk undir öllum kringumstæðum geti fengið þetta háa kaup, sem sagt, nema í burtu alla áhættu, sem þessari atvinnu hefir verið samfara, þá er auðsœtt, hvað slíkt hefir að þýða gagnvart öðrum atvinnuvegum.

Jeg skal auðvitað fullkomlega viðurkenna, að nauðsyn sje á því í hverju þjóðfjelagi, að atvinnan geti verið sem allra tryggust; en meðan ekki eru gerðar hliðstæðar ráðstafanir af hálfu þess opinbera um aðrar atvinnugreinir. Þá álít jeg, að úr þessu geti orðið tvíeggjað sverð fyrir þetta þjóðfjelag. — Jeg vil mælast til þess, að þessi hv. deild taki þessar bendingar mínar til athugunar og geri sjer ljósa grein fyrir þeirri stefnubreyt., sem hjer er um að ræða. Frá mínu sjónarmiði er það svo, að ef þessi stefna væri tekin upp, og sjerstaklega ef hún væri fœrð inn á víðara svið, þá gæti hún haft alvarleg áhrif á okkar þjóðarhag.

Þá er enn 4. atriðið, sem í rauninni er smávægilegt í samanburði við hin. Í 7. gr. frv. er gert ráð fyrir, að útflutningsnefndarmenn, umboðsmenn og skrifstofuþjónar einkasölunnar megi ekki reka síldarútveg, síldarsöltun eða kaupa síld til söltunar. Mjer finst eðlilegt að láta þetta gilda um skrifstofuþjóna, með því að það má líta á þetta sem þeirra aðalstarf, og gætu þeir líka misnotað aðstöðu sína og kunnugleika. En hvað útflutningsnefndarmenn snertir sýnist mjer nokkuð öðru máli að gegna. Sú þóknun, sem þeir fá frá einkasölunni, mun ekki vera svo mikil, að þeir geti lifað eingöngu á henni, og verða þeir því að reka aðra atvinnu jafnhliða. Auk þess kemur þarna til greina, að þetta eru menn, sem hafa öðrum fremur til að bera þekkingu á þessum atvinnuvegi, og virðist því óeðlilegt að útiloka þá frá þessum atvinnurekstri, og enda ranglátt, þar sem þeir ekki eru algerlega starfsettir af því opinbera eða einkasölunni. Jeg álít sem sagt, að þessi ákvæði 7. gr. hvað útflutningsnefndarmenn snertir sjeu varhugaverð, en hinsvegar til bóta og eðlileg að því er kemur til skrifstofuþjóna.

Jeg hefi þá gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls og ætla jeg, að jeg hafi nú tekið nægilega skýrt fram ástæðurnar fyrir því, hvers vegna jeg ekki get greitt höfuðatriðum þessa frv. atkv. mitt, þó að jeg hinsvegar sje því samþykkur, að haldið sje áfram að framkvæma lögin frá í fyrra á þeim grundvelli, sem þar var lagður.