11.05.1929
Neðri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3200 í B-deild Alþingistíðinda. (2045)

39. mál, einkasala á síld

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Breyt. þær, sem hjer liggja fyrir á lögum frá 1928 um einkasölu á síld, eru aðallega fernskonar. Að sjálfsögðu lúta þær allar að því, að laga þær misfellur, sem reynsla fyrsta árs hefir leitt í ljós, að eru á þessari löggjöf. Brtt. á þskj. 317, við 1. gr. laganna, lúta að því, að heimila einkasölunni að taka síld til verkunar og búa um hana án þess að eigendur hennar hafi afskifti af meðferðinni. Að vísu kemur þetta þar og því að eins til framkvæmdar, að einkasalan hafi yfir að ráða söltunarstöðvum og tunnubirgðum. Verulegir annmarkar á verkun síldar til og frá hafa komið í ljós nœstl. ár, og hefir stj. einkasölunnar talið þetta nauðsynlegt, einkum vegna mats og eftirlits. Það hefir reynst nokkrum örðugleikum bundið að tryggja flokkun og söltun síldar þar, sem umboðsmenn hafa eigi verið nægilega margir eða nærstaddir, einkum þegar mikil síld berst á land. Mjer virðist þessi breyt. þörf og sjálfsögð í alla staði.

Breytingin á 4. gr. lýtur að því að auka verksvið útflutningsnefndar einkasölunnar og færa út kvíarnar að því leyti.

Breytingin á 6. gr. er ef til vill sú róttækasta og óvinsælasta og fer í gagnstæða átt við tilgang laganna 1928. Er hjer gert ráð fyrir, eða heimilað, að ríkissjóður ábyrgist rekstrarlán fyrir einkasöluna, nokkurn veginn eftir þörfum, en þó að eins um stuttan tíma í senn og með tryggilegum áskilnaði um endurgreiðslu lána af andvirði síldarinnar áður en því er skift. Enn sem komið er er varasjóðurinn lítill, en mun vaxa fljótlega, ef frv. þetta verður að lögum, þar sem það seðlar honum miklu meiri tekjur en áður hefir gert verið. En þegar varasjóður einkasölunnar eflist, þá eru þessi ákvæði um ríkisábyrgð að sjálfsögðu óþörf. Enda er í 5. gr. ekki gert ráð fyrir, að ábyrgð þessi verði notuð lengur en til ársins 1930, eða m. ö. o. aðeins í bili.

Breytingarnar á 8. gr. lúta einungis að því að hækka tillag til varasjóðs og markaðsleitar úr 1% upp í 2%. Markaðsleitarsjóður stóð á síðastliðnu ári rösklega straum af ferðalögum þeim, sem farin voru í þessu skyni, og fyrir reikning hans. Nú á þessi sjóður röskar 6 þús. kr. Varasjóður einkasölunnar á nú kringum 10 þús. kr. Frv. ætlast til, að 11/4% renni eftirleiðis í varasjóð, en í markaðsleitarsjóð. Aukning þeirra ætti því að koma fljótt, en hag sjóða þessara hefi jeg nefnt til skýringar fyrir þá, sem ekki hafa getað kynt sjer reikninga einkasölunnar. (MJ: Jeg hefi ekki sjeð þá). Reikningarnir eru í prentun nú sem stendur. Jeg skál geta þess, að umsetning einkasölunnar var yfir 5 milj. kr. á síðastl. ári, og þegar reikningum lauk um nýár, áttu eigendur síldarinnar inni 48 þús. kr., sem ekki var búið að skifta upp. Það er að sjálfsögðu óheppilegt, að hv. þdm. skuli ekki hafa átt kost á að kynna sjer reikningsskil einkasölunnar fyrir síðastl. ár. Jeg veit, að þá mundu margir líta nokkuð öðrum augum á þessa stofnun, ef þeir hefðu kunnugir verið starfi hennar. Mjer finst útkoman mjög sæmileg, eftir reikningunum að dæma. Virðast mjer góðar líkur til, að stofnun þessi beri sig vel í framtíðinni, ef áhugasamir og góðir menn fara þar með stjórn. Mjer er mikil ánægja að geta lýst þessu yfir nú, því jeg var hugsandi yfir því á síðasta þingi, að einkasalan kynni að mistakast. En úr þessu hefir rætst framar öllum vonum, og eru horfurnar hinar bestu um, að stofnunni komi að tilætluðum notum framvegis, sjerstaklega ef þessar breyt. ná fram að ganga.

Jeg skal ekki gera brtt. á þskj. 575 írekar að umtalsefni að svo stöddu. Þær ber varla að skoða eins og brtt. við þetta frv., þótt svo sje látið heita. Þær eru spánýtt frv., sem í öllum verulegum atriðum gengur í sömu átt og lögin frá 1926. En þau lög voru feld á síðasta þingi, eins og kunnugt er, þegar einkasalan var sett á stofn. Jeg geri ráð fyrir, að minni hl. skýri málið nánar heldur en gert er á þskj. 575, og álít því ekki ástæðu fyrir mig til að fjölyrða um það frekar.