11.05.1929
Neðri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3231 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

39. mál, einkasala á síld

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að frv. mundi ekki ná fram að ganga, ef brtt. yrðu samþ. Hv. frsm. hefir litið svo á, að þá mundi ekki vinnast tími til að afgr. frv. En þetta er misskilningur. Það er nú þegar víst, að frv. verður að fara til einnar umr. í Ed. óbreytt fer það ekki hjeðan, og þá er engu spilt, þó að brtt., sem hv. þm. Vestm., hv. 2. þm. G.-K. og jeg flytjum, nái fram að ganga. Það hlýtur því að vera eitthvað annað, sem vakir fyrir hv. 1. þm. S.-M., og þá sennilega það, að brtt. okkar muni ekki fá nœgilegan stuðning hjer í hv. d. Við höfum fengið að heyra það nú seinni daga þingsins, og reyndar fyr, að sumir framsóknarmenn, og þar á meðal hæstv. dómsmrh. sjálfur, hafa staðið upp og lýst yfir skoðun síns flokks, en það hefir brugðið svo við, að þegar á átti að herða, hafa flokksbrœðurnir látið uppi aðra skoðun með atkv. sínum. Og það eru engin smámál, sem jeg get bent á í þessu efni. Skal jeg taka til dæmis frv. um gerðardóm í vinnudeilum, sem afgr. var hjer á fundi síðastl. nótt, þar sem hæstv. dómsmrh. þóttist lýsa yfir skoðun síns flokks og sagði, að ekki væri nema tímaeyðsla að vera að ræða málið. En hvernig fór? Þriðjungur flokksmanna var í andstöðu við hæstv. ráðh. Jeg vænti þess, að í þessu máli verði það sama uppi á teningnum, og jeg þykist hafa ástæðu til þess, þar sem Framsóknarflokkurinn hefir nú fyrir skemstu gengið inn á þá braut í öðru máli, að byggja á samvinnugrundvelli, en hverfa frá einkasölugrundvelli. Jeg á við frv. um síldarbræðslustöð. Nógu stór hluti flokksins hvarf frá yfirlýstri skoðun sumra flokksmannanna og bygði á samvinnugrundvelli. Enda er það eðlilegt, því innan Framsóknarflokksins munu menn fremur hneigjast til samvinnu en ríkisrekstrar og einkasölu. Það er og farið að koma í ljós, að eitthvað er að losast um þœr viðjar, sem flokkurinn hefir verið bundinn í á undanförnum þingum.

Þær till., sem við flytjum á þskj. 575, stefna að því, eins og allir sjá, að þoka einkasölunni nœr samvinnugrundvelli og gefa þeim, sem svo mikilla hagsmuna eiga að gæta, að þeir eiga alla sína fjárhagsafkomu undir þessu fyrirtœki, tækifæri til að eiga hlutdeild í rekstrinum. Það er skoðun okkar, að frjáls samvinna og einstaklingsframtak sje besta lyftistöngin til þess að ná þroska í atvinnumálunum, en að einokun, þar sem einstökum mönnum eru veitt nær því ótakmörkuð ráð yfir atvinnu manna, stefni til hins verra.

Eftir því sem fram hefir farið í þessu máli síðan lögin voru staðfest í fyrra, er það ljóst, að ekki er sjerstaklega verið að leita eftir hæfum mönnum í stj. þessa fyrirtækis. Nei, það var tekið meira tillit til pólitískra hagsmuna einstakra manna en þarfa atvinnurekenda og verkafólks við síldarútveginn. Ljósasti vottur þess er sá, þegar sóttir eru menn eins og hv. 2. þm. S.-M. austur á land, sem vitað er um, að bera ekkert skynbragð á þennan atvinnurekstur eða sölu síldarinnar. Og það er ekki nóg með þetta. Nú á að ganga skrefi lengra og útiloka þá menn, sem mesta þekkinguna hafa, frá því að sitja í útflutningsnefnd. Í frv. frá Ed. er svo langt gengið, að þeir, sem salta eða verka síld til útflutnings, mega ekki einu sinni vera í útflutningsnefnd. Þetta er því óskiljanlegra, þegar litið er til þess, að frv. er flutt af einum forstjóra einkasölunnar, sem vissulega hefði gott af því að fá ofurlitla nasasjón af þekkingu um þessi mál. Ekki mátti fela útvegsmönnum eða öðrum, sem að atvinnurekstrinum standa, endurskoðun á reikningum einkasölunnar; nei, það varð að nota það sem bein handa flokksbændum. Ef það er satt, sem jeg las nýlega í blaði frá Noregi, er sýnilegt, að einkasöluforkólfarnir vita ekki, hvar takmörk þeirra eru, því að þeir gerast svo djarfir að koma með till. um skipun utanríkismálanna, auk þess sem þeir fara skakka leið frá verslunarlegu sjónarmiði um að afla markaðar og velvildar til handa fyrirtækinu. Þegar forstjórar síldareinkasölunnar íslensku fara til Noregs til að biðja Norðmenn um samvinnu, líta Svíar svo á, að Íslendingar ætli sjer að fá samtök við hið stærra ríki, Noreg, til þess að þröngva kosti innflytjenda og neytenda í Svíþjóð. Og afleiðingin verður sú, að ríki eins og Svíþjóð, sem á við bestan fjárhag að búa allra Norðurlandaríkjanna og á góðan skipakost til fiskveiða, fer að hugsa um, hvort Svíar geti ekki sjálfir veitt síld og fullnægt sínum þörfum. Framkoma forstjóranna er því til skaða fyrir okkur Íslendinga, frá hvaða sjónarmiði sem á er litið.

Það er talið víst af flytjendum frv., að til þess að fá peninga til að borga mönnum með einhvern hluta síldarinnar, áður en hún er seld, þurfi að fá ríkisábyrgð. Nú er það vitanlegt, að bankarnir hjer lána altaf peninga út á fengna vöru, mismunandi mikið eftir markaðshorfum. Það er svo um fiskinn, og hefir verið svo um síldina. Þess vegna er ríkisábyrgð óþörf, því að einkasalan á líklega ekki að borga mikla upphæð út á síldina, áður en hún er veidd. Ef svo væri, að borga ætti út upp á ófenginn afla, þá er ábyrgð ríkissjóðs ekki lítið hættuleg. Það gæti valdið því, að ríkissjóður yrði árlega að greiða nokkur hundruð þús. krónur.

Þess ber líka að geta, að forstjórarnir gera ráð fyrir að selja fyrirfram talsvert af veiðinni. Því hægra verður þeim að fá fje til útborgunar á veiddri síld, er þeir hafa gert slíka fyrirframsamninga.

Það er skiljanlegt, að þeir, sem ekki eru vanir verslunarrekstri í stærri stíl, sjái ekki hin heppilegustu úrræði og vilji þess vegna hafa ríkið að bakhjalli. Alt virðist benda á, að jafnaðarmenn muni sem fyr geta kúgað stj. og þingflokk hennar í þessu máli, þrátt fyrir yfirlýsingu Framsóknarflokksins um, að hann sje andstæður ríkisrekstri og einkasölum, og hjer komast jafnaðarmenn lengra; þeir binda ríkissjóði þann baggann, sem þyngstur er, en það er ábyrgðin á atvinnurekstrinum undir stj. óvaldra manna.

Hv. þm. Vestm. hefir gert svo rækilega grein fyrir till. okkar á þskj. 575, að ekki er þörf á frekari grg. Hjer er sannarlega um að ræða eitt hið stærsta fjárhagsmál fyrir ríkissjóð og áhættan óvenjumikil, ef ógætilega er stjórnað.

Eitt af því undarlega, eins og fleira í síldareinkasölunni. er það, að úrskurður reikninga hennar skuli vera falinn stj. einkasölunnar sjálfrar. Það er hið sama og ef úrskurður bankareikninga væri falinn hlutaðeigandi bankastjórn, og reikningar Samb. ísl. samvinnufjel. væru úrskurðaðir af sambandsstjórninni.

Hingað til hefir verið litið svo á, að þeir aðilar, sem legðu mest verðmæt í fyrirtækin og ættu mest undir afkomu þeirra, mættu fá að líta á reikningana og gera sínar till. um úrskurðun þeirra. Hjer er alt á sömu bókina lært: Útilokun allra þeirra, sem hagsmuni hafa í sambandi við atvinnu reksturinn. Það hefði mátt vænta þess, að ríkisstj. skipaði fyrir endurskoðendur einkasölureikninganna einhverja af þeim mönnum, sem standa nærri útgerðinni og eiga nokkuð á hættu um, hvernig hún er rekin. Nei, það fanst stj. ófært. Jeg hygg, að þessi meðferð málsins hljóti að vekja óhug meðal þeirra, sem síldveiðar stunda, og að það innan skams hljóti að draga úr þessum atvinnurekstri, sem þó eins og nú er komið er nauðsynlegur til að tryggja hinu sífjölgandi vinnandi fólki atvinnu. Þeim finst, að hjer sje á bak við tjöldin verið að þóknast bitlingasálum, en ekki að tryggja hagsmuni almennings og þeirra, er stunda þennan atvinnurekstur. Það er svo margt, sem vekur undrun manna í þessu máli. Þó að reikningar einkasölunnar sjeu fyrir löngu fullgerðir, þá eru þeir ekki sendir þingmönnum. Þm. fá ekki, þrátt fyrir eftirgangsmuni, að sjá ágrip af reikningunum. Þeir, sem ræða þessi mál og taka ákvarðanir um þau, fá ekki að kynnast þeim af reikningunum. öllu er haldið leyndu og allri kritiskri endurskoðun bægt frá þessu fyrirtæki. Sjálfu Alþingi er haldið svo fyrir utan rekstur þessa stórfyrirtækis, að kalla verður hreina ósvífni. Í stað þess, að Alþ. ætti að heimta full reikningsskil og hafa strangt eftirlit, vill meiri hl. þingsins gefa forstjórum einkasölunnar meiri völd en áður og kasta í hendur þeirra lítt takmarkaðri ábyrgð ríkissjóðsins. Alt eftirlit og aðhald frá hálfu þeirra manna, sem vit hafa á, er útilokað. Skrifstofumönnum einkasölunnar er bannað að hafa nokkur viðskifti við einkasöluna, og er það sjálfsagt. En skrifstofustjórarnir eru undanþegnir þessu banni; þeir mega velta sjer eins og þeir vilja við síldarútveg og söltun. Jeg hefi heyrt það fullyrt af mörgum kunnugum mönnum, að þegar síldveiðin brást í ágúst í fyrrasumar, þá hafi einn skrifstofustjóri einkasölunnar fengið hjá henni 5.000 tunnur og salt og farið að kaupa síld til söltunar. Það er ennfremur talað, að hann hafi ekki sótt um söltunarleyfi upphaflega fyrirfram. Þarna er þessum manni, sem hefir aðstöðu til þess að vita betur en flestir aðrir, hvað markaðnum líður, leyft að nota sjer hana eins og honum þykir best.

Það mun reynast svo, að verði síldareinkasalan rekin framvegis í því formi, sem til er stofnað, þá mun hröfnunum fara fjölgandi, sem krunka í kringum hana; og þeir heimta stærri og stærri krásir.

Jeg vil nú vænta þess, að þar sem svo margir af flokksbræðrum hv. frsm. meiri hl. hafa lýst sig andvíga ríkisrekstri og einkasölu, að þá hverfi þeir nú frá þeirri braut og samþykki till. okkar hv. þm. Vestm., því fremur, sem þær eru bygðar á samvinnugrundvelli. Það væri þeim sæmilegra vegna sinnar aðstöðu og yfirlýsinga að fornu og nýju. Ef þessu fer fram, sem nú er til stofnað, má svo vera, að þeir einir reki síldarútveg, sem langar til að spekúlera, en að hinir, sem vilja fara gætilega, hverfi úr sögunni.

Þessi atvinnurekstur hefir fært ríkissjóði drjúgar tekjur; árin 1918 og 1919 skiftu tekjur ríkissjóðs af síldarútveginum miljónum króna.

Jeg vil ekki líta svo á, að það fámenni, sem verið hefir hjer í deildinni undir umr. þessa stórmáls, bendi til þess, að búið sje að binda úrslit þess flokksböndum, þannig að róleg yfirvegun og skynsamleg afgreiðsla geti ekki komist að.