11.05.1929
Neðri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3237 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

39. mál, einkasala á síld

Pjetur Ottesen:

Við 1. umr. þessa máls benti jeg á nokkur atriði í þessu frv., sem hjer liggur fyrir, sem jeg finn ástæðu til að víkja nú nánar að. í frv. kemur fram alger stefnubreyt. frá því, sem er í gildandi lögum. Í fyrsta lagi þar sem nú á að láta einkasöluna taka að sjer þann hluta þessa atvinnurekstrar, söltun síldarinnar og geymslu, sem engin heimild liggur fyrir um í þeim lögum, sem nú eru í gildi um þetta efni, og ekkert bendir til, að það hafi verið ætlun síðasta þings.

Í öðru lagi benti jeg á, að ríkissjóður ætti að taka ábyrgð á allmiklu láni fyrir einkasöluna til kaupa á salti og tunnum handa síldveiðimönnum. Á þennan hátt er ríkissjóði blandað inn í áhættu af einkasölunni, þannig að ekki er útilokað, að hann geti orðið fyrir skakkafalli. Það kom mjög skýrt fram í umr. um þetta mál á síðasta þingi, að það væri alls ekki meiningin, að ríkissjóður blandaðist á nokkurn hátt inn í þetta fyrirtæki. Jeg man, að hv. þm. Dal. benti á, að þetta gæti orðið afleiðing af því skipulagi, sem stofnað var til með þeim lögum. Jeg og fleiri þdm. tóku þá í þann sama streng, að til slíkrar áhættu mætti ekki koma fyrir ríkissjóð, og að ekkert atriði í því frv., sem þá lá fyrir þinginu, gæti bent til þess. Vil jeg, til sönnunar mínu máli, benda á, hvaða orð hv. 1. þm. S.-M., sem þá var frsm. meiri hl., ljet falla í þessu máli á þinginu í fyrra; þá sagði hann út af ummælum hv. þm. Dal. um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta: „Um fjárhagslega áhættu ríkissjóðs af einkasölunni, sem hv. þm. Dal. gerði svo mikið úr, get jeg verið fáorður. Sjálft frv. ber ekki með sjer, að þar geti verið um neina áhættu að ræða fyrir ríkissjóð. Þó að gert sje ráð fyrir, að taka þurfi fje að láni til bráðabirgðagreiðslu síldar, þá liggur í hlutarins eðli, að það verður tekið í bönkum á ábyrgð síldareigenda og kemur ríkissjóði ekkert við“.

Síðar segir hv. þm. einnig í þessu sambandi: „Ríkissjóði getur því engin áhætta af þessu stafað“. — Jeg ætla, að þetta sje fullkomin sönnun þess, að með gildandi lögum var ríkissjóði ekki ætluð nein ábyrgð eða áhætta af þessu fyrirtæki. (ÓTh: Það þýðir ekkert að tala nú um svo stór mál, það er nálega enginn stjórnarflokksmaður í deildinni). Jeg tala samt fyrir hina auðu stóla; þá verður að telja fulltrúa hinna fjarverandi þingmanna. — Í sambandi við þá stefnubreyt., sem þetta frv. markar, hefir því verið haldið fram, að nauðsyn bæri til, að einkasölunni væri trygð aðstoð til þess að fara með vöruna á þann hátt, sem markaðurinn krefst. En þetta er alls ekki frambærileg ástæða, af því að samkv. lögunum er það trygt, að einkasalan hefir þetta alt saman í hendi sinni; framkvæmd matsins er undir hana lögð. Áður voru matsmennirnir stjórnskipaðir, en nú eru þeir þjónar einkasölunnar og eiga að starfa samkv. reglugerð, sem samin er af stjórn einkasölunnar og staðfest af landsstj. Síldareinkasalan þarf ekki að fá nýja heimild til þessa. Hún hefir þetta alt á valdi sínu samkv. gildandi lögum. Eins og hv. þm. Vestm. tók fram, þá hefir enginn síldveiðamaður í annað hús að venda en að láta einkasöluna selja fyrir sig, og hún tekur ekki síld til útflutnings nema matsvottorð fylgi. Það eru því alt aðrar ástœður fyrir því, að þarna á að fœra út verksvið einkasölunnar; hverjar þær eru, skal jeg ekkert um segja. En mjer verður fyrst fyrir að ætla, að það eigi að gera nána sjálfráðari en hún nú er samkv. gildandi lögum, og einstaklingana ósjálfráðari. Það er verið að taka verkefni úr höndum einstaklinga og leggja þau í hendur einkasölunnar, aðeins til þess að auka vald hennar og starfsvið. Þetta er algerlega ný braut. Jeg sje enga ástæðu til að efla vald hennar og er því algerlega mótfallinn.

Um hitt atriðið, ábyrgð ríkissjóðs á veltufje einkasölunnar, hefi jeg sagt, að þar er líka farið inn á nýja braut, og jeg get ekki sannfœrst um, að það sje nein sjerstök ástæða til að gera það. Eins og jeg hefi áður tekið fram, þá vil jeg ekki, að neinar sjerstakar ráðstafanir sjeu gerðar til þess að blása út síldarútveginn. Það er engin ástæða til að ganga lengra í því efni en að hann fái að njóta sinnar eðlilegu þróunar.

Jeg held, að því sje þannig varið um síldarútveginn og samband hans við aðra atvinnuvegi þessa lands, að það sje ekki ástæða til að vera að ganga þar neitt framar í opinberum ráðstöfunum en það, að þar ráði neitt annað og meira en hin eðlilega þróun, sem fyrir liggur á hverjum tíma.

Þá eru þrjú atriði, sem jeg vildi ennþá minnast á, þótt jeg hafi gert það nokkuð þegar við 1. umr. þessa máls, og það er breytingin á 5. gr. l., þar sem gert er ráð fyrir því að auka tillagið til þeirra sjóða, sem þar um ræðir, með helmingshækkun frá því, sem er í gildandi lögum, og það var algerlega rangt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að sú aukning kæmi að nokkru leyti fram til markaðsleita. Sú upphæð, sem ákveðin er í gildandi lögum til markaðsleita, 3/4%, er algerlega óbreytt. Þessi aukning á að renna í varasjóð og honum á að skifta í deildir, stofnsjóð og aðra sjóði til að tryggja framþróun þessarar starfsemi, þegar síldarvinna bregst eða eitthvað ber út af með hana. Það er m. ö. o. að safna fje til að greiða ýms skakkaföll, sem útvegurinn og þeir, sem við hann vinna, kunna að verða fyrir, og til að skifta upp þegar miður árar fyrir síldarútveginum. Af þessu leiðir það, að mjög lítið er upp úr því leggjandi, að þessi sjóður á að vera til þess að ljetta ábyrgð af ríkissjóði, því að þótt þar safnist nokkurt fje, þá má miklu fremur ganga út frá því, að þessu fje verði skift upp, og það er einmitt alveg sjerstakt með þetta atriði, þar sem ekki er neitt hliðstætt til í íslenskri löggjöf, að það á að gera opinberar ráðstafanir til að bæta upp skakkaföll, sem menn kunna að verða fyrir við atvinnuveginn. Ef ætti að ganga inn á þessa braut, þá ættu slík ákvæði einnig að koma hvað aðra atvinnuvegi snertir, og jafnvel síst að ná til þessa atvinnuvegar. Jeg verð þess vegna að segja það, að þar sem mjer virðist vera um að ræða svo mikilsverða stefnubreyt. og efnisbreyt. í þessu frv. frá því, sem er í gildandi lögum, þá finst mjer það harla einkennilegt, að meiri hl. hv. sjútvn. skuli svona alveg fortakslaust hafa gengið inn á allar þessar breyt., án þess að finna nokkra ástæðu til að athuga þœr nokkru nánar eða koma með nokkrar breyt. Það segir í nál., að meiri hl. n. fallist á þessar breyt. og telji þær hagkvæmar, og leggur þar að auki til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Jeg verð að segja það fyrir mitt leyti, að þegar jeg veitti þessu máli minn stuðning í fyrra, þá gerði jeg það á þeim grundvelli, sem það lá þá fyrir á og jeg hefi nú lýst, og eftir því, sem þá kom fram hjá hv. frsm. meiri hl., er ekki hœgt að sjá annað en að það sama hafi vakað fyrir honum og öðrum stuðningsmönnum málsins. Það er þess vegna ekki hægt að sjá annað en að hjá hv. frsm. meiri hl. og meiri hl. sjútvn. hafi orðið alger stefnubreyt. í skoðunum, náttúrlega að undanteknum þeim eina jafnaðarmanni, sem þar er, þar sem þeir hafa getað samþýðst þeirri breyt., sem fram kemur hjer. Það er því eðlilegt, þar sem mín aðstaða er óbreytt frá í fyrra, að nú hljóti okkar leiðir að skilja.

Í sambandi við heimildina í 3. gr., sem jeg hefi nú minst á, um ríkissjóðsábyrgðina, vil jeg benda á það, að mjer þykir harla undarlegt. eftir þeim ummælum, sem fjellu áðan hjá hv. frsm. meiri hl., að hann skuli nú telja þá ábyrgrð fyrir einkasöluna nauðsynlega, því að hv. þm. sagði, að einkasalan hefði í fyrra greitt fyrir mönnum um útvegun á salti og tunnum. svo vel hefði mátt hlíta. Úr því að hún gat gert það í fyrra án þess að ríkissjóðsábyrgð kæmi til, hvers vegna er þá nokkur ástæða til að setja ríkissjóð í hættu út af því nú? Mjer verður það, satt að segja, því óskiljanlegra sem jeg hugsa meira um það, hvernig því muni vera varið, að hv. frsm. og þeir, sem honum fylgja að málum, skuli hafa getað fallist á þessa till.

Hv. 1. þm. S.-M., frsm. þessa máls, gat þess hjer áðan, að hann hefði fengið að sjá reikninga einkasölunnar fyrir síðastl. ár og gat þess um leið, að ef hv. þm. yfirleitt hefðu átt þess kost eins og hann að sjá reikningana, þá myndu menn ef til vill hafa litið öðrum augum á þetta mál. Jeg verð að segja, að mjer þykir það undarlegt, að ekki skuli hafa verið hagað svo til, að þingmenn fengju að sjá þessa reikninga, þar sem þeir nú munu vera fullgerðir, eða a. m. k. svo langt komnir, að það hefir þótt fært að sýna hv. frsm. meiri hl. þá, þá hefði og verið jafnfært að láta þá koma fyrir augu fleiri þm. Mjer finst það einkennilegt, þegar hjer er um að ræða gagngerðar breyt. á lögum einkasölunnar, að þeim skuli ekki hafa verið leyft að sjá þá, og ekki einusinni að þeim hafi verið send sú skýrsla, sem gefin hefir verið út og prentuð á kostnað einkasölunnar. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg búist við, að þeir myndu hafa haft þau áhrif á mig, að jeg hefði getað fylgt þeirri stefnubreyt., sem hjer er verið að gera, en mjer finst ekki nema rjett að senda þm. þessa skýrslu og gefa þeim kost á að sjá þessa reikninga, og það því fremur sem sá tími er kominn, sem þeir eiga að vera tilbúnir. (SvÓ: Þeir eiga að vera tilbúnir fyrir maílok). Já, þeir eiga að vera prentaðir fyrir maílok, og þeir ættu því að vera svo fullgerðir nú, að þeir gætu komið fyrir augu þm. vjelritaðir eða skrifaðir. (ÓTh: Þeir sýnast a. m. k. vera tilbúnir, úr því að hv. frsm. meiri hl. hefir sjeð þá).

Það eru nú komnar fram nokkrar breyt. við þetta frv. Það eru hjer gagngerðar brtt. frá þrem þm., á þskj. 575, sem hv. þm. Vestm. hefir reifað hjer í deildinni. Viðvíkjandi þessum brtt. er það að segja, eins og hv. þm. tók fram, að tilgangurinn með þeim er að færa málið inn á það svið, sem það upphaflega var á í þeim lögum, sem samþ. voru hjer á þinginu 1926. En þar sem jeg ætla, að svo muni vera um hnútana búið um afgreiðslu þessa máls, sem raun mun á verða, þá er það tómt mál að fara að tala um jafngagngerðar breyt. á lögunum eins og felast í þessu frv., og þess vegna ætla jeg ekki að fara neitt inn á það mál. Annarsvegar eru komnar hjer fram brtt. frá hv. 2. þm Eyf. Á efni annarar þessarar brtt. mintist jeg við 1. umr. þessa máls; hún er um það að lagfæra þau ákvæði frv., að í útflutningsnefnd megi ekki sitja menn, ef þeir hafi síldarsölu eða síldarverslun með höndum, nje heldur reka síldarútveg. Jeg benti þá á það, að af þessu ákvæði mundi leiða það, að nauðsynleg þekking á þessu máli og meðferð þess myndi verða þarna útilokuð, því að það er vitanlegt, að þeir menn, sem fengist hafa við síldarverslun og síldarverkun áður, þeir myndu standa miklu betur að vígi vegna kunnugleika síns á allri stj. og framkvæmdum á slíkum hlutum heldur en þeir menn, sem ekkert hafa við það fengist, og verða þess vegna alveg að byrja á nýjan leik og þreifa sig áfram um alla tilhögun. Því fjarstæðara virðist mjer að gera slíka breyt., og þar sem bátaútvegsmönnum er nú einusinni heimilað að hafa einn mann í stj. síldareinkasölunnar, þá er það alveg óheyrilegt að taka af þeim ráðin með að láta menn með sjerþekkingu á þessum hlutum í stj., sem vitanlega er mikið tryggingaratriði fyrir starfsemina. Jeg veit, að hv. 2. þm. Eyf. muni reifa þessar till., og þess vegna skal jeg ekki fara lengra út í það að ræða þetta atriði, en mjer virðist, að hjer sje um svo sjálfsagða leiðrjettingu á frv. að ræða, að hv. deild geti ekki gengið á móti henni.

2. brtt. hv. 2. þm. Eyf. gengur út á það, að lögheimili einkasölunnar skuli vera á Siglufirði, en ekki á Akureyri, eins og það var ákveðið í lögunum. Jeg minnist þess, að það var töluvert deilt um þetta atriði á síðasta þingi, en það fjekst þá ekki, að lögheimilið skyldi vera á Siglufirði, en það er hinsvegar öllum ljóst, sem nokkuð þekkja til þessa máls og allrar aðstöðu þarna norðurfrá, að þetta er ekki ákveðið af hagkvæmisástæðum, því að vitanlegt er, að öll meginstöð síldveiðanna og síldveiðastarfsemi norðanlands er á Siglufirði, enda hefi jeg svo frjett, að þessi tilhögun hafi valdið miklum vandkvæðum á framkvæmd síldareinkasölunnar á síðastl. ári. Virðist mjer því, að hjer sje verið að leggja til þær breyt. á lögum einkasölunnar, sem reynslan hafi bent til, að rjett væri að gera, og að þarna sje a. m. k. eitt atriði, sem ekki hefir verið tekið til greina, því að það er óyggjandi, að þetta olli miklum erfiðleikum á síðasta ári, og jeg er viss um, að hvert það fyrirtæki, sem hefði átt að starfa á þessu sviði og sett hefði verið á stofn af einhverjum einstaklingi eða frjálsum fjelagsskap, hefði verið látið hafa lögheimili sitt á Siglufirði. Það eru því alt aðrar ástæður, sem leiða til þessarar tilhögunar, sem leiða kostnað af sjer og vitanlega þyngja á þeim mönnum, sem leggja afurðir sínar inn í einkasöluna til þess að koma þeim í peninga.

Þá vildi jeg gera eina fyrirspurn til hv. frsm. meiri hl. út af því, að hjer stendur í 7. gr. frv., að útflutningsnefndarmenn, umboðsmenn (síldarmatsmenn) og skrifstofuþjónar einkasölunnar megi ekki reka síldarútveg, síldarsöltun eða kaupa síld til söltunar. — Jeg vildi aðeins spyrja hv. frsm. meiri hl. um það, hvort þetta næði ekki til allra þeirra manna, sem starfa í skrifstofunni, og þar á meðal þess manns, sem hefir á hendi stj. skrifstofunnar. Jeg hafði nú í rauninni skilið þetta svo, að það hlyti að ná til allra þeirra manna, sem starfa í skrifstofunni, en af því að mjer fanst það koma fram hjá einum hv. deildarmanni, sem taldi, að þetta gæti verið vafasamt, þá er nauðsynlegt að kveða skýrt á um þetta atriði.

Jeg ætla þá ekki að fjölyrða meira um þetta mál, en eins og þetta frv. liggur nú hjer fyrir, þá get jeg ekki greitt bví mitt atkv., og þykist jeg hafa gert bæði nú og við 1. umr. fullkomna grein fyrir, á hverju það byggist. Jeg skal viðurkenna það, að í þessu frv. eru nokkur atriði, sem jeg teldi, að hefðu verið til bóta. Það er m. a. ákvæðið í fyrri málsgr. 1. gr., um að einkasalan nái líka til þeirrar síldar, sem er veidd fyrir utan landhelgi, og svo ákvæðin um það, að skrifstofustjóri og starfsmenn megi ekki fást neitt við síldarútveg eða þessháttar. Það eru breyt., sem jeg fyrir mitt leyti gæti verið fylgjandi, en þær eru svo smávægilegar og lítilfjörlegar, samanborið við þær höfuðbreyt., sem frv. inniheldur, að jeg hika ekki við að greiða atkv. móti frv. samt sem áður.