13.05.1929
Neðri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3264 í B-deild Alþingistíðinda. (2053)

39. mál, einkasala á síld

Magnús Jónsson:

* í sjálfu sjer þarf engum að bregða í brún, þó að fram komi breyt. á þessu frv. Ýmsir rendu grun í það í fyrra, að lögin, sem þá voru samþ., mundu ekki verða ævarandi. Það er yfirleitt einkenni á þessu ríkisrekstrarbrölti öllu saman, að það er fult af allskonar örðugleikum. Þá má undarlegt heita, að menn skuli ekki trjenast upp á því. Meðal annars hefir hv. flm. frv. orðið að játa, að örðugleikarnir sjeu svo miklir, að nú þurfi einhverra aðgerða við, og það má búast við, að á sömu leið fari á næsta þingi.

Það er ekki hægt að segja, að við höfum enga reynslu fengið um þetta ríkisrekstrarfyrirkomulag. Við höfum einmitt fengið dýra reynslu. Það hefir verið komið á ríkisrekstri og landsverslun, og það hefir kostað bæði þing og stjórnir mikinn tíma og mikla fyrirhöfn að fást við það. Það er undarlegt, þegar verið er að setja upp ríkisrekstur og skapa örðugleika, sem má leysa með því að lofa einstökum mönnum að hafa reksturinn á hendi, í staðinn fyrir að binda hann með löggjöf. Þegar frv. um síldarbræðslustöð var hjer á döfinni, kom líka í ljós, að örðugleikar við það mál stóðu í sambandi við sjálfa ríkisrekstrarhugmyndina.

Hv. þm. Borgf. var á þinginu í fyrra að sumu leyti ekki óhlyntur þessum lögum, en hann lýsti yfir því mjög eindregið, að hann ætlaðist ekki til, að ríkissjóði væri stefnt í neina áhœttu vegna laganna, enda vildi hann ekki fallast á það, þó að jeg og fleiri menn óttuðumst, að þess yrði ekki langt að bíða, að færi að bera á áhættu fyrir ríkissjóð. Jeg verð því að segja, að það er hugboð, sem hefir rætst, þegar nú er farið fram á að fara miklu lengra á ríkisrekstrarbrautinni en gert var í fyrra, meðal annars með því að setja mikla fjárhæð úr ríkissjóði í fyrirtœkið.

Það eru auðvitað fyrst og fremst á einkasölunni þeir gallar, að hún nær alls ekki tilgangi sínum. Eins hefði orðið, þó að aðhylst hefði verið það fyrirkomulag, sem farið var fram á með lögunum 1926, að þetta samlag, eða það sem nú er einkasala, hefir ekki þau fullu tök á síldarmarkaðnum, sem ætlast er til, að hún hafi. Það var einkum bent á það í fyrra, að veiðin utan landhelgi gerði það að verkum, að einkasalan gœti ekki haft þessi tök á markaðinum, þar sem hún yrði til þess að auka veiðar útlendinga utan landhelginnar. Það má búast við, að þeir, sem með einkasölunni var bolað í burtu frá þessum atvinnurekstri hjer á landi, nefnilega Svíar, muni nú herða á veiðum utan landhelgi, ekki síst þar sem reynsla Norðmanna sýnir, að þetta er vel fært.

Ef svo hefði verið komið þessum málum, að ekki hefði verið um annað að ræða en síldarverslunina eins og hún var, sem öllum er vitanlegt, að var í mikilli óreiðu, eða einkasölufyrirkomulag, þá væri málstaður einkasölumanna skárri en hann er nú, þegar sannað er, að ná má alveg sama árangri án þess að bendla ríkissjóð við þetta fyrirtæki. Það var gert með lögunum 1926, en fíknin í einkasöluna var svo mikil, að það mátti til að koma henni á, heldur en að bíða eftir því, að lögin frá 1926 kæmust í framkvœmd.

Jeg spáði því í fyrra, að ekki mundi lengi vera hægt að halda síldareinkasölunni á því stigi, sem þá var gert ráð fyrir, nefnilega án þess að hafa nokkurt rekstrarfje. Það var auðsjeð, að ef reka átti fyrirtækið án nokkurs rekstrarfjár, yrði hún mörgum framleiðendum, einkum hinum smærri, hinn mesti háskagripur. Þeir, sem áður höfðu keypt síld í umboði annara, höfðu þó losað þá við veiðina, sem ekki höfðu tök á að verka hana sjálfir. Það var talað um í fyrra, að óhjákvæmilegt væri, að einkasalan gæti komið í stað þeirra leppa. En það heyrðist strax á fundi nokkru síðar, að einn forstjórinn sagði, að reynslan hefði sýnt, að ekki væri hægt að reka fyrirtækið án þess að það hefði rekstrarfje. Og í þessu frv. er farið fram á að bendla ríkissjóð við fyrirtækið. Í fleiri atriðum er hert á. Það er líka ætlast til, að einkasalan þenji sig út yfir það að útvega tunnur og salt og sjá um verkun og geymslu síldarinnar. Áður var þetta atriði miklu vægara orðað, þar sem aðeins er heimild í frv. til að liðsinna mönnum um útvegun á tunnum og salti, ef það verður gert án áhættu fyrir ríkissjóð. Það er vert fyrir hv. þm. að taka eftir, að þetta ákvæði er vendilega þurkað út úr frv. Nú á ríkissjóður að gerast stór atvinnurekandi við útvegun á tunnum og salti. Þetta er mikil útfærsla á verksviði einkasölunnar. en eins og komið er, hefði henni verið sæmra að draga heldur í land en auka afskifti sín af öllu, sem að síldarmálum lýtur.

Vegna ónógs kunnugleika skal jeg ekki fara út í önnur atriði, sem þó virðast allhörð, t. d. ákvæði 1. og 4. gr., sem gera þá, sem veiðileyfi hafa, alveg ófrjálsa menn. Það má heimta af þeim, sem veiðileyfi hafa fengið, að þeir afhendi einkasölunni síld til söltunar, ef stj. telur það nauðsynlegt vegna starfrækslunnar, en á hinn bóginn hefir framkvæmdarstjórnin öll ráðin í hendi sjer, ef hún álítur, að of mikið berist að af síld, og þarf þá ekki að taka við meiru en henni þóknast. Og ef leyfishafi getur ekki fyrir 1. júlí sannað, að hann hafi trygt sjer skip, má taka leyfið af honum aftur. Já, það er mikið vald, sem framkvæmdarstj. einkasölunnar er fengið yfir framleiðendum. En þetta er nauðsynleg afleiðing af ríkisrekstri. Það verður að margreyra alt í endalausum böndum. Það er yfirleitt einn gallinn á afskiftum löggjafarvaldsins af atvinnurekstri landsmanna, og það kyrkir og drepur niður framleiðsluna. Við höfum hjer í frv. gott dæmi upp á það, hvernig atvinnureksturinn er harðfjötraður, og það er ef til vill tilgangurinn. Það hafa heyrst raddir um það, hvað þessi atvinnuvegur sje ljótur og skaðlegur, svo að það á kannske að kyrkja hann alveg. Ef svo er, þá getur maður sagt, að frv. nái tilgangi sínum. En ef það á að verða til þess að efla þennan atvinnuveg og styrkja, sem trúlegra er, er óhætt að segja, að það hafi ekki tekist.

Það hefir verið talað mikið um þetta mál og margt tekið fram, sem jeg hefði annars minst á, eins og t. d. 7. gr., um að útflutningsnefnd megi ekki hafa á hendi söltun síldar eða sölu. Þetta nær engri átt. Það er alveg óhugsandi, að þó að menn sjeu valdir til einhvers starfs, sem fyrst og fremst byggist á kunnugleika, en er aukastarf, þá sjeu þeir útilokaðir frá því að taka þátt í atvinnurekstrinum. Það er alveg eins og ef ætti að útiloka bankaráðsmenn frá að reka fyrirtæki, sem skifti við þann banka, sem þeir vinna við.

Þrír þm. hafa borið fram mjög víðtækar brtt., þar sem farið er fram á að snúa einkasölunni upp í lögþvingað samvinnufjelag þeirra, sem við síldarverslun fást. Jeg þarf ekki að taka það fram, að jeg kýs það fyrirkomulagið, og býst því við, að jeg muni greiða brtt. atkv. mitt. Það er sá mikli munur á þessum till. og frv., að frv. fer fram á hreinan ríkisrekstur, en till. einstaklingsrekstur, þó að skipað sje með lögum. Þetta er hliðstœtt því, sem samþ. var um síldarbrœðslustöðina, og vonandi er aðstaða hv. d. sú sama nú og þá var.

Jeg veit, að menn eru því andvaralausari um þetta mál, sem heppilega vildi til fyrir einkasölunni síðastliðið ár. Það var eitt af hættuminni árunum fyrir síldarútveginn og því engin furða, þó að einkasala slampaðist fram úr því. En þegar ver stendur á, er ekki víst, að eins vel fari. Þess vegna œttu einkasölumenn að þakka fyrir og draga í land, meðan fleytan hangir ofansjávar.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.