13.05.1929
Neðri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3270 í B-deild Alþingistíðinda. (2058)

39. mál, einkasala á síld

Bernharð Stefánsson:

Jeg er einn af þeim, sem hafa óskað, að umr. yrði hætt um mál þetta, og þess vegna vil jeg ekki lengja þær mikið. Það er út af tveimur brtt. á þskj. 609, að jeg kvaddi mjer hljóðs, því að jeg hefi komið fram með þær báðar. Hv. þm. Borgf. hefir mælt svo vel með þessum till., að jeg get látið það nœgja, og það því fremur, sem annar hv. þm., hv. 1. þingmaður Reykvíkinga, hefir orðið til þess að þynna ræðu hans út og taka í sama strenginn. Hin fyrri brtt. er gamall kunningi frá því í fyrra og fer fram á það, að heimili og varnarþing síldareinkasölunnar verði á Siglufirði, en ekki á Akureyri. Jeg færði rök að því í fyrra, að það væri heppilegra í alla staði að hafa heimili einkasölunnar þar, sem hún rekur aðalstarf sitt, og jeg spáði því þá, að annað myndi illa gefast. Jeg hygg, að þetta hafi komið fram, og það þegar á 1. starfsári hennar. Eftir að jeg hafði skrifað till. fjekk jeg þær upplýsingar, að einkasalan væri búin að byggja hús undir skrifstofur sínar á Akureyri, og úr því svo er komið málum, vil jeg ekki halda þessari till. minni til streitu hjer við 2. umr., en mun taka hana aftur að sinni og hugsa mig betur um.

Hin brtt. er á sama þskj. og er þess efnis, eins og hv. þm. Borgf. hefir tekið fram, að útflutningsnefndarmönnum sje heimilt að reka síldarútveg og síldarverslun. Mjer fanst mjer skylt að koma með till., er gengi í þessa átt, einkanlega þar sem þau ákvæði höfðu komist inn í frv. í fyrra fyrir minn tilverknað, að framkvæmdastjórum einkasölunnar var bannað að gefa sig að slíku, og nú á að banna útflutningsnefndarmönnum þetta líka. Það er í sjálfu sjer ekki nema eðlilegt, að framkvæmdastjórunum sje bannað að reka síldarútveg og síldarverslun, því að þeir eiga að helga alla krafta sína einkasölunni, en alt öðru máli er að gegna með þá menn, sem eru í útflutningsnefnd, því að af þeim er ekki hægt að krefjast svo mikils, enda er einn þeirra manna kjörinn af útgerðarmönnum og því beinlínis fulltrúi þeirra í n. Nær ekki nokkurri átt annað en þeir fái að velja hann úr sínum flokki. Ennfremur hefir a. m. k. einn af hinum þingkosnu mönnum verið valinn úr flokki útgerðarmanna, og það yrði að telja ósanngjarnt, ef honum yrði með þessu ákvœði bolað burt úr nefndinni. Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, og það því síður, sem hv. þm. Borgf. hefir skýrt málið rækilega fyrir hv. þdm.

Jeg varð þess var, að sumir hv. þdm. urðu mjög æstir, þegar ósk kom fram um það, að umr. yrði slitið. (ÓTh: Þau getur verið gott að kveðja sjer hljóðs sjálfur, en banna öðrum að tala). Úr mínum flokki hefir aðeins hv. frsm. tekið til máls, og svo jeg, sem hefi vikið lítið eitt að tveimur brtt. Hitt finst mjer nýstárleg aðferð, sem hv. íhaldsmenn viðhafa til að draga málið á langinn, er hver maðurinn stendur upp eftir annan úr sama flokki án þess að nokkur af andstœðingunum hafi svarað þeim. Enda tyggja þeir upp sömu orðin hver eftir annan. Hvað var t. d. ræða hv. 1. þm. Reykv. nema útþynning af því, sem aðrir flokksmenn hans höfðu sagt? Hið eina, sem virðist vaka fyrir þeim, er að tefja málið, því að öll rök, sem þeir hafa fram að færa, eru fyrir löngu fram komin, og þá virðist mjer, að ekkert harðræði sje sýnt, þótt óskað sje eftir, að umr. verði skornar niður.