13.05.1929
Neðri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3285 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

39. mál, einkasala á síld

Frsm. minni hl. (Jóhann Jósefsson):

Einn hv. þm., sem talaði í þessu máli, mintist á það, að þegar deila risi hjer upp um fyrirkomulag á þessum atvinnurekstri, yrði hann þess var, að þeir menn, sem fastast halda á einkasölufyrirkomulaginu, ættu erfitt með að taka sönsum um annað fyrirkomulag á síldarútvegi og síldarsölu. Væri líkast því, sem skoðun þessara manna á því efni væri orðin þeim að einskonar trúaratriði, þeir hefðu bitið sig fast í þetta, og þótt komið væri fram með rökstudd andmæli. dygði það ekki.

Jeg verð að taka undir ummæli þessa hv. þm., sem jeg held að hafi verið hv. 3. þm. Reykv. Mjer virðist framkoma hv. meiri hl. sjútvn. og meiri hl. hv. deildar sanna það, að þeir virðast fyrirfram vera ráðnir í því að taka engum leiðrjettingum, hvaðan sem þær koma. Það hófst þegar í n.. og hjelt hv. frsm. meiri hl. áfram, er hann hóf fyrri ræðu sína á því, að hann sagðist tala fyrir siðasakir. Það var ekki vegna þess, að hann gæti bent á skakka leið hjá okkur minnihl.mönnum, að hann talaði, en við viljum ekki herða á einokunarhlekkjunum. Hv. frsm., jafnbráðgreindur maður og hann er, gerir það ekki að gamni sínu að ganga framhjá öllum skysamlegum rökum andstæðinganna og láta þau óhrakin, en það er ljóst, að hann er fyrirfram sendur og ráðinn til þess að framfylgja þessu frv. gegnum þykt og þunt athugasemdalaust.

Áður en jeg held lengra, vil jeg stuttlega drepa á ýms atriði, sem fram hafa komið hjá öðrum hv. þdm. í þessu sambandi. — Það hefir verið bent á það af hv. þm. Borgf. og hv. þm. Dal., að hjer væri verið að ganga inn á braut, sem gæti orðið hættuleg fyrir ríkissjóð, og hv. frsm. meiri hl. og öðrum hv. andmælendum okkar hefir algerlega mistekist að hnekkja þessum ummælum með neinum rökum. eða þeir hafa alveg gengið á snið við þau.

Hv. 2. þm. Eyf. hefir lýst brtt. sínum, og er hann okkur sammála, að ekki sie rjett að útiloka útflutningsnefndamenn frá því að gefa sig að síldarverkun og síldarútflutningi. Gat hann þess, að hann ætti unnástunguna um það, að framkvæmdastjórarnir mættu ekki reka síldarútgerð „prívat“, en að útiloka alla útflutningsn.-menn frá því, næði vitanlega engri átt. Virðist það æðihörð meðferð á útgerðarmönnum, ef þeir mega ekki velja menn í nefndina úr hópi sinnar stjettar. Og hvernig myndi bændastjettinni líka það, ef líkt fyrirtæki væri fyrir landbúnaðinn og síldareinkasalan er fyrir síldarútveginn og ef útiloka ætti hæfa menn úr þeirra hópi frá því að eiga einhvern þátt í stj. slíks fyrirtækis?

Þá þótti mér hv. 1. þm. N.-M. alleinkennilega um þetta mál. Vildi jeg víkja að honum nokkrum orðum, en hygg, að hann sje ekki viðstaddur í deildinni sem stendur. Á meðan hann kemur ekki, get jeg gert nokkrar aths. við ræðu hv. frsm. meiri hl. Hann drap nokkuð á aðfinslur þær, er gerðar hefðu verið á gerðum framkvæmdastjóra einkasölunnar, og taldi það ekki viðeigandi að ræða þær hjer, þar sem hlutaðeigendur ættu ekki sæti í þessari hv. deild. Jeg vil benda hv. frsm. á það, að minni hl. er einmitt að gera till. til umbóta á skipulagi einkasölunnar, svo að ekki þurfi að ræða fyrirkomulagið hjer á Alþingi, en meðan Alþingi er sá vettvangur, þar sem fyrirkomulag einkasölunnar er rætt, í stað aðalfundar, get jeg ekki sjeð annað en hlutaðeigendur verði að koma fram með aðfinslur sína — hjer. Jeg hygg líka, að þeir, sem fyrir einkasölunni standa, eigi hjer sína málsvarsmenn, því að bæði hv. þm. Ísaf. og hv. frsm. meiri hl. hafa leitast við eftir bestu getu að bera í bætifláka fyrir þessa menn. En það mun verða þeim hv. meirihl.mönnum ofurefli að verja fyrirframsamninga síldareinkasölunnar fyrir árið sem leið, eins og þeir voru úr garði gerðir. Sömuleiðis hygg jeg, að það sje ekki á þeirra færi að verja hlutdrægnina í úthlutun tunnuforðans, þar sem hlaðið er undir stórspekúlantana til skaða fyrir smærri framleiðendur.

Hv. frsm. meiri hl. tók það rjettilega fram, að jeg hafi hælt einum af forstjórum einkasölunnar, hv. 2. þm. S.-M., fyrir það, að hann hefði eftir atvikum notað aðstöðu sína til þess að sveigja framhjá hinum verstu árekstrum út af samningum þeim, sem hinir forstjórarnir voru búnir að gera.

Hv. frsm. tók það rjettilega fram, að nauðsynlegt væri, að hjer væru vandaðir menn að verki, enda er því svo farið um hvaða fyrirtæki sem er. En þar sem hv. frsm. segir, að verslunarþekking sje ekki nauðsynleg, fer hann alveg villur vegar. (SvÓ: Þetta hefi jeg aldrei sagt). Mjer virtist hv. frsm. ekki telja það vítavert, þótt valdir hefðu verið þeir menn til þess að veita fyrirtækinu forsjá, sem ekki hefðu slíka þekkingu til að bera. Og það þótti mjer miklu miður, er hv. frsm., jafngætinn maður og hann er, talaði um „viðskiftahræfugla“ í þessu sambandi. Ef þessi ummæli hv. frsm. á að skilja sem lýsingu á verslunarstjettinni og útgerðarmannastjett landsins — og um aðra getur ekki verið að ræða, þar sem aðfinslur hv. þm. N.-Ísf. hnigu í þá átt að vita það, að menn úr þeim stjettum voru ekki valdir til þess að veita fyrirtækinu forstöðu —, þá fer mig ekki að furða á því, þótt hv. frsm. sje nokkuð tómlátur við athugun þessa máls. Slík ummæli sem þessi sýna hina megnustu lítilsvirðingu á þeirri stjett manna, er fæst við viðskiftamál, og þykja mjer þau orð hv. frsm. því undarlegri, sem jeg hygg, að hann höggvi þar nokkuð nærri sjálfum sjer.

Þá mintist hv. frsm. lítillega á brtt. okkar minnihl.manna og rökræddi þetta mál alveg óvanalega lítið. Hv. frsm. er vanur að nota vit sitt til þess að gagnrýna hvert mál og þau rök, er fram koma, en að þessu sinni brá svo við, að hann gerði það ekki, annaðhvort viljandi eða óviljandi, því að meiri hlutinn í ræðu hans gekk út á það, að hann ætlaði ekki að rökræða þetta eða hitt atriðið.

Þá vildi hv. þm. ekki gera mikið úr áhættu ríkissjóðs. Hjelt hann því fram, að eftir tvö ár, þegar heimildinni væri lokið, yrði varasjóður nægilega sterkur til þess að standa straum af öllum áhættum. Í fyrri ræðu sinni lýsti hv. frsm. því, að varasjóður hafi verið 10 þús. kr. eftir rekstrarárið 1928, og virðist hann hjartanlega ánægður með þau úrslit. Þetta sýnir, að hv. frsm. meiri hl., sem allir vita, að þó er vel greindur maður, skortir í þessum efnum bæði reynslu og þekkingu til þess að geta lítið rjett á. En nú er þess að gæta, að varasjóði eru ætluð önnur hlutverk en að vera trygging fyrir áhættu einkasölunnar, því að í 5. gr. frv. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Varasjóði má síðar, þegar ástæða þykir til, skifta í deildir, svo sem stofnsjóð og aðra sjóði, til tryggingar framþróun einkasölunnar, útgerðinni og verkafólki þessarar framleiðslu, þegar síld veiði og síldaratvinna bregst“. Þegar þessa er gætt, liggur í augum uppi, að staðhæfingar hv. frsm. meiri hl. um, að sjóðurinn verði fullfær til þess að standast áhættur allar fyrir einkasöluna, eru út í bláinn, eða stafa af misskilningi á þessu atriði og málinu yfir höfuð að tala, eins og mjer er næst að halda að sje.

Það mun koma á daginn, að varasjóður treystist ekki að bera allar áhættur, og mun þá farið fram á nýja ábyrgð ríkissjóðs, er þessi ár eru liðin, og þannig koll af kolli, því að þegar einu sinni er komið inn á þá braut, er erfiðara að snúa aftur.

Það mun mála sannast, að hv. frsm. er ekki viðskiftamaður, eða eins og hann orðaði það, viðskiftahræfugl. Ummæli hans sýna, að viðskiftahlið málsins ber hann ekki skyn á.

Þá kem jeg að hv. 1. þm. N.-M. Hann talaði með nokkuð óvenjulegum hætti um málið og bar þeim mönnum, sem talað höfðu með brtt. okkar minnihl.manna, allþungar sakir á brýn. Kom mjer þetta á óvart, því að jeg varð ekki var við, að nokkur ástæða væri til þess, að nokkur þm. fyndi tilhneigingu til að tala í þeim tón, sem hv. þm. leyfði sjer að viðhafa. Hann mintist fyrst á það, að málið hefði verið lítið rætt í nefnd. Þetta er rjett athugað, og jeg mintist einmitt á þetta í fyrri ræðu minni. Þá gat hann þess, að hjer hafi verið haldinn fyrirlestur í þessu máli. Það kann að vera, að ræður hafi verið langar, en þess eru þá dæmi fyr. En hvort sem hv. þm. vill kalla það ræður eða fyrirlestra, þá er það víst, að í þeim ræðum hafa engin brigsl komið fram í garð bænda, eins og hann vildi vera láta. Jeg skaut því fram í ræðu hv. þm., hvort hann vildi ekki tilfæra einhver slík orð, en hann daufheyrðist við þeirri ósk minni. Hitt er annað mál, að jeg sagði, að við fulltrúar útvegsins í sjútvn. kunnum því ekki vel, að bændur í þinginu sameinist til þess að taka ráðin af útgerðarmönnum í slíku máli sem þessu og fá þau öðrum í hendur. Þetta ber hvorki að skilja sem brigsl eða skjall. Fulltrúar bænda á þingi ættu að hugsa sig um tvisvar áður en þeir taka ráðin af útvegsmönnum og fá þau í hendur mönnum, sem annaðhvort af illvilja í garð útgerðarinnar eða þekkingarleysi á því, sem hag hennar varðar, gera hverja skyssuna af annari útvegsm. til tjóns. Og því þarf sannarlega ekki að vera tekið með þökkum, að þeir hv. þm., sem vegna flokksaðstöðu hafa flutst úr sveitunum til þess að setjast í embætti hjer í höfuðstaðnum, tali um þá, sem útgerðina stunda, sem ómerka ómaga. Þeir hafa áreiðanlega enga aðstöðu til þess.

Hann fann til þess, að hjer væri um óvanalega aðferð að ræða, og hv. 1. þm. S.-M. hefir óbeint játað það líka, þar sem hann taldi sig aðeins tala í þessu máli fyrir siðasakir.

Nú ætla jeg að leiða hjer eitt vitni til þess að sýna hv. þdm., hvers erindi þeir eru að reka þessir hv. þm., sem vilja láta kalla sig fulltrúa sveitanna og þykjast beita sjer á allan hátt fyrir bestri og hagkvæmastri afkomu bænda.

Það hefir áður verið bent á, að einn af framkvæmdastjórum síldareinkasölunnar er viðurkendur „kommúnisti“ og ekki dregin dul á það af einum eða neinum, sem til þekkir. Í blaðagrein sem jeg las í vetur, þar sem þessi forstjóri er að deila á hæstv. dómsmrh., kvartar hann yfir því, að fyrirkomulag síldareinkasölunnar sumarið 1928 hafi verið svo úr garði gert, að framleiðendur hafi haft of mikinn ágóða af síldarversluninni. Á fyrirkomulaginu eru þeir þyrnar að hans dómi, að hann finnur að því opinberlega og með fullri einurð sem „kommúnisti”, að arðurinn renni um of í vasa þeirra, sem framleiðslutækin eiga. Í tímaritinu „Rjetti“ hefir þessi sami forstjóri síldareinkasölunnar og „kommúnisti“ birt grein nú í vetur, er hann nefnir „Komandi þing“, og telur þar upp ýms mál, er hann telur, að verða eigi verkefni komandi þings að leysa. Það væri mjög freistandi að lesa talsvert upp úr þessari grein, hv. þdm. til athugunar, en þó mun jeg sleppa því að mestu leyti, en ætla aðeins, með leyfi næstv. forseta, að lesa fáeinar setningar, og byrja þá á bls. 134. Þar segir hann m. a.:

„Þessi stórmál (sem komandi þing á að leysa) eru olíueinkasalan, tóbakseinkasalan, síldareinkasalan og önnur einkasölumál, ennfremur tryggingamál verkalýðsins, kosningarrjetturinn og rannsókn togaraútgerðannnar, og fleira, sem ekki verður hjer nefnt“.

Hjer er aðeins stiklað á stærstu stefnumálunum, sem komandi þing á að taka á, og í áframhaldi af því fer hann svo að lýsa ýmsum einkasölum, t. d. steinolíu- og tóbakseinkasölunni, sem hann segir meðal annars um:

„Verkalýðnum er tóbakseinkasalan engan veginn beint hagsmunamál; gildi hennar liggur í því að draga úr gróða burgeisastjettarinnar og sameina verslunina á einn stað“.

Og svo heldur hann áfram:

„Öðru máli er að gegna um síldareinkasöluna. Það er beint hagsmunamál verkalýðsins, hvernig henni er háttað. Síðasta þing gaf þeirri einkasölu formið, skipulagið, en það skorti hið rjetta innihald, þann anda og takmark, sem gat gefið henni gildi fyrir verkalýðinn“. (HStef: Hann er þá jafnóánægður og þm.). Forstjórinn kemst svo að þessu sama, sem jeg mintist á áðan: að framleiðendurnir hefðu of mikinn arð af síldarversluninni, og segir, að ekki sje nema um tvent að velja: að halda fyrirkomulaginu óbreyttu, eða eins og hann orðar það:

„Hinn kosturinn er að láta einkasöluna taka að sjer alla söltunina, ráða alt verkafólkið, semja við útgerðarmennina. Til þess yrði ríkið að láta hana fá höfuðstól til rekstrar. Með þessu móti væri trygt, að ágóði síldaratvinnuvegsins rynni til verkamanna“.

Þetta er þá skoðun „kommúnistans“ í framkvæmdastjórn síldareinkasölunnar. Hann sjer aðeins tvær leiðir að því leyti, sem um er að ræða framkvæmd laganna um einkasölu á síld. Önnur er sú, að láta lögin standa óbreytt og það fyrirkomulag haldast, sem nú er, með þeim ágöllum þó að hans dómi, að framleiðendur beri of mikið úr býtum, eða þá hin, að taka þann kostinn, sem hann telur vænlegri: að einkasalan taki að sjer síldarsöltunina og að ríkið beri alla ábyrgð á þeim rekstri. Nú vill svo til, að frv. það, sem hjer liggur fyrir, uppfyllir að öllu leyti óskir forstjórans í þessu efni. Með frv. er einmitt fyrir því sjeð, að arðurinn falli ekki framleiðendum í skaut. Og við þessu gleypir hv. frsm. meiri hl. og rekur á þann hátt erindi „kommúnistans“, sem situr í forstjórn einkasölunnar. Innihald þessa frv. er ekkert annað en það, sem forstjórinn nefnir að vanti í lögin í áðurnefndri ritsmíð sinni.

„Andann og takmarkið“ vantar í lögin, segir Einar Olgeirsson. En andinn og takmarkið liggur einmitt í þessu frv., sem hv. 1. þm. S.-M. og aðrir framsóknarmenn taka nú tveim höndum. Það er „andi og takmark“ „kommúnistiskra“ hugsjóna í síldarmálum. Og þennan „anda“ og þetta „takmark“ á svo framsókn að gefa einkasölunni samkv. ósk „kommúnistanna“!

En þessum „anda og takmarki“ höfum við minni hl. í sjútvn. talið okkur skylt að andæfa. Þess vegna höfum við leyft okkur að bera fram brtt., sem stefnir í gagnstæða átt við það, sem forstjórinn og „kommúnistinn“ vill, og sem miðar að því að efla samvinnufjelagsskap og samtök á milli síldarútvegsmanna.

Hv. 1. þm. N.-M. var að fetta fingur út í orðalag 1. brtt. okkar, sagði m. a., að ekki væri gott að skilja, hvað við meintum með orðinu „samlag“, eða eftir hvaða reglum samlagið ætti að starfa. En jeg vil aðeins minna hann á, að brtt. á að fella inn í lögin, og sjest þá, að með reglugerð á að setja ákvæði um starfsemi samlagsins.

Jeg hefi þá sýnt skýrt fram á það með orðum Einars Olgeirssonar, undan hvaða rifjum þau ráð sjeu runnin, sem lögð eru á með frv. þessu. Með því, sem jeg las áðan upp úr „Rjetti“, hefi jeg sannað, af hvaða toga það er spunnið, sem hjer er haldið fram. En aðferð hv. framsóknarmanna, er fyrst hafa neitað að rœða málið í n. og síðan beitt því ofbeldi nú í dag að skera niður umr. um málið í hv. d., hún skýrir betur en nokkuð annað þá játningu þessara manna, að ganga undir það ok að vinna samkv. „anda“ þeim og „takmarki“, er „kommúnistinn“ og forstjóri síldareinkasölunnar hefir krafist að gert vœri. Því er það ekki fyrir síldarútveginn gert að samþ. þetta frv., heldur eingöngu fyrir „kommúnistann“ Einar Olgeirsson og þá, sem honum fylgja að málum. Þetta er leiðin til þess að fá „anda og takmark“ „kommúnismans“ inn í atvinnulíf þjóðarinnar. Þess vegna á að láta einkasöluna taka alla síldarsöltun í sínar hendur og láta jafnframt ríkissjóð bera alla ábyrgðina.

Jeg hygg, að það, sem jeg hefi nú bent á, sje enn eitt dæmi um það ok, sem stjórnarflokkurinn hefir orðið að gai.ga undir til þess að fá að halda völdum í landinu, að hjer sje um að rœða eina skuldina enn, sem stofnað hefir verið til með „hlutleysi“ hv. jafnaðarmanna við núv. stjórn, er þeir heimta nú greidda.

Hv. 1. þm. N.-M. var að tala um óboðna þjónustu í sambandi við brtt. okkar og ljet svo um mælt, að sjer væri lítil þökk á henni. Jeg ætla ekki að svara því neinu, en vildi hinsvegar í lok ræðu minnar skjóta því að honum, að jeg hygg, að sá tími kunni að koma, að bændur landsins veiti þessum hv. þm. og öðrum, sem vinna í „anda“ og að „takmarki„ kommunismans, þá óboðnu þjónustu, sem slík starfsemi að rjettu verðskuldar. (HStef: Er þetta hótun?).