16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3318 í B-deild Alþingistíðinda. (2071)

39. mál, einkasala á síld

Forseti (BSv):

Hv. þm. Dal. hefir óskað úrskurðar forseta um það, hvort 4. málsgrein 3. gr. þessa frv. megi koma til atkvgr., vegna þess, að þar sjeu brotin fyrirmæli stjórnarskrárinnar um eignarrjettinn (63. gr.).

Þessi ákvæði frv., sem óskað er úrskurðar um, hljóða svo:

„Nú er andvirði síldar að nokkru eða öllu leyti greitt þeim, sem afhenti hana til einkasölunnar, og er einkasalan þá ábyrgðarlaus, þótt síðar sannist, að síldin var annars eign eða veðsett öðrum án vitundar einkasölunnar. Greiðast þá eftirstöðvar síldarandvirðis rjettum eiganda eða veðhafa, en síldin sjálf er aldrei afturkræf“.

Í sambandi við þetta verð jeg að taka það fram, að það hefir eigi verið talið koma í bága við ákvœði stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarrjettarins, þó að löggjöfin setji sjerstök ákvæði um skilríki (legitimation) fyrir eignarheimild að einstökum tegundum eigna eða verðmætis, jafnvel þó að slík ákvæði hafi það stundum í för með sjer, að rjettur eigandi geti tapað eign sinni. Til dæmis má benda á það, að eigandi skuldabrjefa og verðbrjefa af ýmsum tegundum getur tapað brjefunum, ef handhafi hefir selt eða afhent manni, sem vissi ekki betur en að seljandi væri rjettur eigandi, — nema brjefið sjálft hafi borið það með sjer, að annar en handhafi ætti það. Þetta mun koma oft fyrir í bankaviðskiftum, að t. d. bankanum er seldur tjekk, og þó að upp komi síðar, að sá, sem afhenti hann, var ekki sá rjetti eigandi, þá fæst ekki leiðrjetting á því.

Á sama hátt virðist löggjöfin geta sett álíka undantekningarákvæði um skilríki fyrir eignarheimild einstakra vörutegunda, þegar sjerstakar ástæður eru taldar mæla með því að víkja frá almennum reglum í því efni, eins og hjer virðist vera fyrir hendi.

Af þessum ástæðum verður ekki tekin til greina krafa hv. þm. (SE) um að vísa málinu frá atkvgr., og verður því frv. borið upp til samþyktar eða synjunar, svo sem venja er til.