02.05.1929
Neðri deild: 59. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3339 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

37. mál, verkamannabústaðir

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Mjer datt í hug, þegar jeg heyrði hv. þm. Barð. tala og sá nál. minni hl. n., að hendurnar væru Esaús, en röddin Jakobs, því að jeg þykist sjá, að hv. 1. þm. Skagf. hafi búið málið í hendurnar á honum. En hv. þm. Barð. reyndi að halda fram málstað, sem honum er ekki hjartakær. Aðalröksemd hans var afareinkennileg: Það á að auka fólksstraum til sveitanna, og á þann hátt, að gera fólkinu ólífvænt í bæjunum. Ef því líður betur þar, myndu allir þyrpast þangað. Hv. þm. vitnaði í byggingar- og landnámssjóð. Við jafnaðarmenn greiddum því máli atkv. alveg eins og hv. þm. Barð. Jeg hafði þó ekki mikla von um, að hægt væri að taka fólk úr kaupstöðunum til sveitanna. Hitt hafði jeg von um, að í sveitunum gæti haldist það fólk, sem þar er, og því gæti liðið vel. Enda álít jeg það aðalatriðið, að fólkinu geti liðið vel, en hugsa mjer hvorki þetta frv. eða önnur hliðstæð sem neina dráttarvjel. Þó að jeg hafi trú á, að hægt sje að reka landbúnað hjer, ef vel og rjettilega er á haldið, hefi jeg enga trú á, að menn geti hætt að stunda sjóinn. Og jeg hygg, að hv. þm. Barð. þætti þröngt í Haga, ef á hann flyttust 4–5 verkamannafjölskyldur hjeðan.

Hv. þm. mintist á, að 70–100 þús. kr. væri mikil upphæð, og þegar jeg tók fram í og sagði, að 100 þús. kr. væri ekki rjett, sagði hann, að ekki mætti miða við nútímann, heldur yrði að gera ráð fyrir framtíðarþróun. Jeg sje ekki, að við getum miðað við annað en nútímann. Í frv. er nú gert ráð fyrir hámarksupphæð, en það kann að vera hægt að segja, að þetta sje mikið fje. Það er oft talað um bændaveldi á þingi. Jeg held, að skoðanir yrðu skiftar um, hversu heppilegt það sje, ef bændum svíður þessi upphæð. Jeg ætla að nefna aðeins eina upphæð í fjárl., nefnil. 1 milj. og 100 þús. til vega, sem veitt er aðeins til sveita. Jeg skal ekki neita því, að þetta sje gagnlegt, en það er ekki heldur í því tilfelli verið að spyrja um 60–70–80 þús., þó að vegirnir sjeu ekki notaðir til annars en að flytja afurðir til og frá. En þessar 80 þús. kr., sem frv. mitt fer fram á í mesta lagi, mundu beinlínis vera veittar í því skyni að láta fólkinu líða betur og gera hina nýju kynslóð hraustari og mennilegri. Það er nógu gaman að lesa nál. á þskj. 457. Hv. þm. Seyðf. segir þar: „Að vísu er heilbrigðisnefndum fengið í hendur nokkurt vald í þessu efni í heilbrigðissamþyktum kaupstaðanna, en hvergi nærri nógu víðtækt, eins og reynslan sýnir, því óhætt er að fullyrða, að búið sje a. m. k. í Reykjavík í íbúðum, og þá sjerstaklega kjallaraíbúðum, sem ættu ekki að vera mannabústaðir“. Það má líka minnast á grg. fyrir frv. um íbúðir í jarðhúsum, sem flutt var af flokksmönnum hv. þm. Barð. í Ed. Þar er talað mikið um raka, birtu- og sólarleysi og ilt loft. Nú eru í Reykjavík um 800 kjallaraíbúðir, eins og jeg gat um í fyrri ræðu minni, og auk þess eru margar háaloftsíbúðir. Um þessar íbúðir segja flokksmenn hv. þm. Barð. í Ed., að þær sjeu ljótur blettur á Reykjavíkurbæ. En hv. þm. Barð. vill ekkert gera til að afmá þann blett.

Það má líka benda á annan lið í fjárl., sem hv. þm. hefir greitt atkv. með, en það er fje það, sem greitt er til berklavarna og heilbrigðisráðstafana. Sá liður nemur 1.600 þús. kr. Hversu hlægilega lítil upphæð er þá ekki það, sem frv. mitt fer fram á. Þó getum við með því fje komið í veg fyrir þá sjúkdóma, sem nú er kastað miljónum í til að reyna að lækna. Hvort ber sig betur, að koma í veg fyrir sjúkdómana eða að reyna að lækna þá, er þeir koma?

Þessi sjóður verður ekki hálfdrættingur á við byggingar- og land námssjóð, sem þó er eigi ætlað að ná til fleiri íbúa en eru í kaupstöðum og kauptúnum landsins, og á fyrst og fremst að verja til þess, að fólkið í sveitunum geti fengið holla og sæmilega bústaði.

Jeg mun þá eigi lengur elta ólar við hv. þm. Barð. En jeg vildi víkja mjer lítið eitt að hv. 1. þm. N.-M. Því miður hafa till. hans komið svo seint fram, að nefndin hefir ekki getað athugað þær. Vil jeg því mælast til, að hann taki þær aftur til 3. umr. (HStef: Jeg felst á það og tek brtt. aftur til 3. umr.). Jeg þakka fyrir. Annars virðist mjer aðalefnið í brtt. hans vera: lækkun á tillagi ríkissjóðs og bæjarsjóða og hækkun vaxta. Jeg get fylgt því atriði í brtt. hans, að frv. nái einnig til kauptúna, eftir því sem þörf er á. Jeg leyfi mjer að vænta þess, að hv. 1. þm. N.-M., sem hefir sjerstaka aðstöðu til að vita um nýbyggingar í kauptúnum, gefi upplýsingar um þessa þörf. Ef um sömu nauðsyn er að ræða í kauptúnum og kaupstöðum, finst mjer rjett og eðlilegt, að frv. nái einnig til þeirra. En jeg er ekki viss um, að sama fyrirkomulag eigi við í kauptúnunum, þar sem ef til vill yrðu aðeins bygð 1–2 hús á ári. Byggingarfjelögin eru miðuð við, að bygt sje í stærri stíl.

Þá vil jeg víkja að brtt. hv. 1. þm. N.-M. um lækkun tillaga og hækkun vaxta. Hv. þdm. verða fyrst og fremst að hafa það hugfast, að verkamenn verða að geta bygt svo ódýrt, að þeir geti búið í húsunum á eftir, og að þá verður að styrkja, svo að lánskjörin verði þeim ekki ofviða. Því minni sem styrkurinn er, því fyr stöðvast þessar framkvæmdir. Jeg vil ennfremur benda hv. þm. á það, að sá útreikningur hans, að hægt sje samkv. tillögum hans að greiða vaxtamismun af 4 milj. er með öllu rangur. Það er ólíklegt, að takist að fá lán til 42 ára, og má því búast við, að fjelögin verði að sætta sig við styttri lán, og opinberi styrkurinn fer þá ekki aðeins til þess að greiða vaxtamun, heldur líka afborganamun. Því verður þessi styrkur fyr upp jetinn en hann bjóst við.

Aðrar brtt. hv. þm. mun jeg ekki ræða fyr en við 3. umr. Vænti jeg þess, að hv. deild samþ. frv. til 3. umr. Eins og jeg hefi getið um í nál., býst jeg við að koma þá fram með brtt.