02.05.1929
Neðri deild: 59. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3343 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

37. mál, verkamannabústaðir

Gunnar Sigurðsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara. Jeg hafði hugsað mjer að koma fram með brtt. við 2. umr., en vannst ekki tími til, þar sem jeg var bundinn af nefndarfundum. En nú sje jeg, að hv. 1. þm. N.-M. hefir komið fram með svipaðar brtt. og jeg hafði hugsað mjer, og get jeg því slept að bera fram mínar. Þessar brtt. ganga í þá átt, að lækka tillag ríkissjóðs og að frv. nái einnig yfir kauptún landsins. Það nœr engri átt að taka ekki tillit til sanngjarnra krafna úr sjávarþorpum í þessu efni. Og í rauninni tel jeg það ekki stórt atriði fyrir ríkissjóð, þótt bætt sje úr sárustu neyð kaupstaða og kauptúna á þann hátt, sem hjer er til ætlast. En þá verða menn jafnframt að hafa augun opin fyrir því, hvílík lífsnauðsyn sveitunum er, að samgöngur þeirra sjeu bættar. Hv. 2. þm. Reykv. sagðist hafa trú á landbúnaðinum, ef hann væri rekinn með fjármagni og vjelum. En hann gleymdi samgöngunum, sem þó eru aðalatriðið. Jeg vona, að hv. þm. skilji það, að það er lífsskilyrði fyrir sveitirnar, að kaupstaðirnir og fulltrúar þeirra skilji það, hvílík nauðsyn bættar samgöngur eru fyrir íslenskan landbúnað.