02.05.1929
Neðri deild: 59. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3349 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

37. mál, verkamannabústaðir

2086Magnús Guðmundsson:

Því hefir verið haldið fram hjer í umr., að áður hafi verið bornar fram á Alþingi till. í sömu átt og þetta frv. fer, sem hjer liggur fyrir, og að hjer sje ekki um nýtt mál að ræða. En jeg verð að taka undir það með hv. 1. þm. N.-M., að þeim till. hafi verið gefinn svo lítill gaumur á þinginu í fyrra, að þetta frv. er sama sem nýtt mál nú. Og þá álít jeg, að ekki sje ástæða til að keyra það í gegn á þessu þingi, en tel eðlilegra að athuga það til næsta þings. Þetta er þýðingarmikið mál og stórt mál, — það verður að viðurkenna — hin fjárhagslega hlið þess stórfelt atriði og athugavert. Það er beinlínis Grettistak fyrir þjóðina, ef hún ætlar að taka að sjer að byggja upp í kaupstöðunum á þann hátt, sem ætlast er til með þessu frv. Enda er jeg viss um það, að þegar ekki verður hægt að fara lengra en þessi lög heimila, þá verður fitjað upp á nýju og heimtað meira af því opinbera til framhalds í sömu átt. Mjer er það ljóst, að þegar búið verður að byggja í kaupstöðunum fyrir svo mikið fje, að sá skattur, sem lagður er á íbúa kaupstaðanna með þessu frv., gerir ekki betur en að greiða vaxtamismun af því fje, sem lagt var í byggingarnar, þá er ekki nema tvent fyrir höndum: að hætta að byggja, eða hækka framlögin frá ríkissjóði og bæjarfjelögunum til þeirra. Ef það á að halda inn á þessa braut, þá verður að gera sjer það ljóst þegar í byrjun, að hjer verður um stórfje að ræða þegar tímar líða.

Undanfarin ár hafa sveitir þessa lands verið að tæmast að fólki; kaupstaðirnir hafa heillað til sín unga fólkið og á þann hátt sogið blóð og merg úr sveitunum. En eldra fólkið hefir setið eftir í sveitunum við að stjórna búunum, og örfátt af rosknu fólki, sem áður var í vinnumensku. Einmitt af þessum ástæðum hefir það verið stefna Alþingis á undanförnum árum að bæta sveitunum upp þennan blóðmissi. Mjer finst sú stefna mjög eðlileg. Eða hvaða skyldu hefir Alþingi œðri en þessa? Og hvernig færi fyrir sveitunum, ef þær fengju ekki stuðning í þessari baráttu? Það hefir sýnt sig, að kaupstaðirnir hafa yfirhöndina og soga til sín fólkið. (MJ: Er það ekki af því, að fólkinu þykir betra að búa í kaupstöðunum?). Jeg kem seinna að því. Þingið hefir reynt að bæta sveitunum þetta tap á ýmsan hátt; og jeg vil segja, að þingið hefði vanrækt skyldu sína, ef það hefði látið það ógert. Því að hvert hlutverk þings og stj. í þessu efni, annað en að styðja þá, sem lakar eru staddir? Auðvitað hefir þingið ekki gert þetta af neinum við kaupstaðina, heldur gætt hófs til beggja hliða. Enda álít jeg, að það sje jafnáríðandi fyrir kaupstaðina, að sveitunum vegni vel.

En ef það á nú að gera hið sama fyrir kaupstaðina og búið er að fyrirhuga sveitunum, þá koma sömu ólíku átökin og áður milli þessara aðilja. Jeg álít, að það sje ekki enn fengin reynsla í sveitunum, hver áhrif stuðningur undanfarinna þinga hefir. Jeg geri mjer talsverða von um góðan árangur, ef ekki verður stigið spor aftur á bak, þá muni straumurinn breytast sveitunum í hag. En ef það á nú að fara að skakka leikinn aftur og styrkja sterkari aðilann, þá kemur sami misjafni leikurinn upp aftur, og niðurstaðan verður sú, að ekkert hefir áunnist sveitunum í hag.

Hv. 1. þm. Reykv. skaut því fram áðan, hvort fólkið streymdi ekki til kaupstaðanna af þeirri ástœðu, að því fyndist sjer líða þar betur. Jú, auðvitað er það af því. Þegar verið er að tala um, að það sjeu verri húsakynni hjer í Reykjavík en í sveitunum, þá er það bygt á hinni mestu vanþekkingu, því í sveitunum eru víða til miklu verri íbúðir. Og þar fer fólkið á mis við ýms þægindi, sem hjer fylgja svo að segja hverri íbúð. Það má enginn halda, að fólkið sje svo heimskt, að það vilji sækja þangað, sem því líður ver. Það fer til kaupstaðanna auðvitað af því að kjörin eru þar betri.

Það verður að athuga alvarlega, hvað á að gera í þessu máli; og því má ekki gleyma, að ef sveitunum verður komið á knje, þá eru kaupstaðirnir stórlega lamaðir innan skamms tíma. Það má vera, að það þyki fremur lítilfjörleg upphœð, 70 til 100 þús. kr. föst, árleg útgjöld úr ríkissjóði til bygginga í kaupstöðum: en jeg er svo þröngsýnn, að jeg álít, að þó að unt sje að veita slíka fjárhæð í því góðæri sem nú er. Þá getur það komið fyrir, að erfitt verði fyrir ríkissjóð að inna af hendi lögákveðnar greiðslur, og einhversstaðar verður að stöðva hinar föstu útgjaldakvaðir í fjárl.

Jeg verð að segja það, að mjer þótti vænt um að sjá brtt. hv. 1. þm. N.-M. við þetta frv.; þó ekki væri fyrir annað en það, að hann hefir komið auga á það ranglæti, sem fram kemur gagnvart kauptúnum, ef þessi réttindi verða aðeins veitt kaupstöðunum. Því það er ekki gott að sjá, hvaða rjettlœti er í því að veita aðeins íbúum kaupstaðanna styrk til bygginga, en ekki þeim, sem í kauptúnunum búa. Jeg mun alveg óhikað greiða atkv. með till. hv. 1. þm. N.-M.; þær mjög áreiðanlega til bóta á frv., og jeg vil taka undir það með hv. þm. Borgf., að æskilegt væri, að þessar till. kæmu til atkv. við þessa umr., en yrðu ekki geymdar til 3. umr.

Auk hins fasta árlega framlags bygginga í kaupstöðum á að greiða úr ríkissjóði laun allra sjóðstjórna byggingarsjóða kaupstaðanna, og verða það líka föst, árleg útgjöld. Mjer þykir undarlegt, að sjóðirnir sjálfir skuli ekki vera látnir greiða þessi laun sjóðstjórnanna. Og ekki bætir það úr skák, að launin skuli ekki vera ákveðin í lögunum, heldur á atvmrh. að ákveða þau.

Þá vil jeg spyrja um það, hvort tilgangur frv. sje ekki sá, að ríkið og kaupstaðirnir eigi að taka venjulega leigu af þessum lóðum. Jeg hefi skilið það þannig, að svo ætti að vera. (Forsrh.: Það stendur í frv.). Nei, það stendur þar ekki. Og hvernig á að fara að, þegar svo stendur á, að hvorki ríkið eða kaupstaðirnir eiga lóðir til þess að leggja til undir þessar byggingar?

Ef þessi lög verða líka látin ná til kauptúnanna, þá þarf að hugsa betur fyrir þessu atriði.

En þar sem svo er ástatt eins og hjer í Reykjavík, að bæði ríkissjóður og bæjarfjel. eiga lóðir í bænum, og annar aðilinn vill ekki leigja lóðir til þessara bygginga nema hinn geri það líka, — hver á þá að skera úr um það? Og hvor aðilinn er skyldari til að verða við þessari kvöð, að láta lóðirnar af hendi?

Mjer finst eðlilegast, að kaupstöðunum sje gert að skyldu að láta lóðirnar af hendi undir húsin. (Forsrh.: Þess þarf ekki í Vestmannaeyjum eða á Siglufirði, þar sem ríkið á allar lóðirnar). Nei, en í hinum kaupstöðunum?

Þá skilst mjer samkv. brtt. hæstv. forsrh., að það sje meiningin að láta 10. gr. standa í lögunum, þar sem bæjarfjel. er heimilað að láta reisa bústaði fyrir verkamenn. (Forsrh.: Nei, nei, hún er aðeins af vangá á þskj. 429). Þá ætti hv. flm. frv. að taka hana aftur.

Hv. þm. Borgf. svaraði því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um samgöngubœtur á landi — brýr og vegi —, að þær væru aðeins gerðar fyrir sveitirnar, sem auðvitað er hin mesta fjarstæða, og þarf jeg ekki að svara því frekar.

Út af 3. brtt. hœstv. forsrh. vil jeg spyrja, hvaðan þessi 15% eigi að koma. Mjer skilst, að það eigi að vera frá fjelagsmönnum byggingarfjelaganna. (HV: Já). Það hefir ekkert verið skýrt, og þess vegna spurði jeg um það.

Þá talaði hv. 2., þm. Reykv. um, að við, sem værum á móti þessu frv., vildum drepa fólkið í kaupstöðunum. (HV: Hálfdrepa). Það er gott, að hann vill nú helminga þessa fjarstœðu. Hjer er ekki aðeins um það að ræða, hvað við viljum, heldur hvort við getum tekið að okkur svo mikið hlutverk, að byggja húsin í kaupstöðum og kauptúnum hjer á landi, auk þess, sem við verðum að gera fyrir sveitirnar til þess að þær geti staðist samkepnina við kaupstaðina, og til þess óbeinlínis að bjarga líka kaupstöðunum. Og því má hv. 2. þm. Reykv. ekki gleyma, að ef sveitirnar tæmast af fólki, þá geta kaupstaðirnir ekki lifað.

Um það hefir verið rætt töluvert, hve hægt væri að byggja fyrir mikið hjer í Reykjavík samkv. frv., en mjer hefir virst svo, að ágreiningur væri um það. Nú er það auðsjeð, að ekki er hægt að byggja fyrir meira fje en svo, að framlag ríkissjóðs og bæjarsjóðs nægi til að greiða vaxtamismun lána þeirra, sem tekin verða, og þess, sem leigjendur greiða fyrir íbúðirnar. Hve mikill þessi munur verður, fer eftir lánskjörunum, sem enginn veit um. En ef gengið er út frá svipuðum lánskjörum og nú eru fáanleg, býst jeg við, að hægt verði að byggja fyrir 3–4 milj. kr. Jeg er sannfærður um það, að eftir nokkur ár verður búið að byggja svo mikið hjer í Reykjavík, að annaðhvort verði þá að leggja árar í bát eða heimta meiri styrk úr ríkissjóði. — Þetta atriði vildi jeg biðja hv. þdm. að athuga vel, því að ef hætt væri frekari framkvæmdum í þessu efni, þegar svo og svo margir eru búnir að njóta góðs af þeim, mundi það skapa hróplegt ranglæti gagnvart þeim, sem enn hefðu ekki borið neitt frá borði.

Jeg ætla ekki að fara neitt út í byggingar- og landnámssjóðinn, enda hefir hv. þm. Borgf. tekið af mjer ómakið í því efni. Sá sjóður er ekki tekinn til starfa enn, en lánbeiðnirnar hrúgast upp með hverjum deginum, sem líður, án þess að nokkuð sje afgr. Það virðist þó svo, sem ekki ætti að vera fyrirstaða á að fá lán, þegar um ríkisábyrgð er að ræða. (HV: En stendur ekki einmitt á láninu?). Jeg veit það ekki. En svo mikið er víst, að sjóðurinn er ekki tekinn til starfa enn. (Forsrh.: Það stendur ekki á peningunum). Á hverju. stendur þá? Ekki stendur á lánbeiðnunum. Jeg heyri að vísu sagt, að það standi á einhverjum teikningum, en jeg fæ með engu móti skilið, að svo geti verið. Það virðist ekki svo mikið verk að gera teikningu að fyrirkomulagi sveitabæja, að á því ætti að geta staðið mánuðum saman.