04.05.1929
Neðri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3374 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

37. mál, verkamannabústaðir

Magnús Jónsson:

Þeir hv. þm., sem talað hafa síðan jeg kvaddi mjer hljóðs, hv. þm. Dal. og hv. 2. þm. G.-K., hafa minst á þau tvö atriði, sem jeg ætlaði aðallega að ræða. svo að jeg get verið stuttorður. Áður en jeg kem að því, ætla jeg þó að víkja að nokkrum aukaatriðum, sem fram hafa komið í umr.

Það er leiðinlegt, að fram skuli hafa komið andmæli gegn þessu frv. á þeim grundvelli, að það sje illa viðeigandi, að ríkið fari að gera ráðstafanir til að bæta úr húsnæðisleysinu hjer í Reykjavík. Þó að ekki sje farið strangt út í það, hverjir það eru, sem gjalda til ríkissjóðsins, og hverjir fá úr honum aftur, er það ekki fallegt, að nokkur skuli verða til þess að telja það illa viðeigandi, að eins mikill gjaldandi og Reykjavík er fengi þessar 50 þús. kr. til að bæta úr þeim húsnæðisvandræðum, sem hjer eru. Ef bót mætti verða að þessum ráðstöfunum á annað borð, ætti þetta fjárframlag út af fyrir sig ekki að vaxa neinum í augum.

Jeg hjó eftir því hjá hv. þm. Barð., að hann vildi bæta úr hinni háu húsaleigu með öðrum ráðstöfunum en hjer er gert ráð fyrir. Jeg komst aldrei að því, hvað fyrir honum vakir í þessu efni, en ef hann hefir hugsað sjer að bæta úr þessu með húsaleigulögum eða einhverju áþekku, vona jeg, að menn hafi sjeð svo vel árangurinn af slíkum l., að ekki verði farið að leggja inn á þá braut aftur. Enda virðist það harla einkennileg speki, að ætla sjer að bæta úr húsnæðisvandræðum með því að þrengja kosti þeirra, sem hús eiga og reisa.

Þeir mintust á það, hæstv. forsrh. og hv. þm. Dal., að það hefði verið mikil sjón að sjá hinn stóra hóp hinnar uppvaxandi kynslóðar, er börnin í barnaskólanum fóru í skrúðgöngu hjer um bæinn á sumardaginn fyrsta. Það er ekki lítið verkefni, sem liggur í því að reisa hús yfir allan þann fjölda, sem hjer vex upp, en slíkt er hinn hrapallegasti misskilningur, að aðeins þurfi að koma upp góðum húsum í stað þeirra, sem ljeleg eru fyrir. Það þyrfti að bæta við nýjum húsum á hverju ári, þó að öll væru þau viðunandi, sem fyrir eru, en slíkt getur aldrei átt sjer stað, vegna þess að hús ganga úr sjer; þau eldast og kröfur tímans breytast.

Húsnæðismálið verður ekki leyst á einum tíma eða öðrum. Það er eitt af þeim málum, sem aldrei verða leyst. Hvað stór upphæð, sem lögð er fram í eitt skifti fyrir öll til húsabygginga, þarf altaf að endurnýja, byggja við og breyta. Það stoðar ekkert að ákveða einhverja eina upphæð í þessu skyni eða miða við ákveðinn íbúðafjölda. Alt breytist þetta með tíð og tíma.

Það er rjett hjá hv. 2. þm. Reykv. og fleiri hv. þm., sem talað hafa, að það er mest um vert, að hægt sje að byggja ódýrt. En jeg held, að besta ráðið að því marki sje að gera engar ráðstafanir, því að allar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, a. m. k. hjer í Reykjavík, hafa miðað að því að gera húsin dýrari. Jeg hygg því, að í þessu máli verði að stöðva með að setja nýjar reglur, sem ýmist verða til að tefja eða gera húsin dýrari. En það, hve hús eru dýr hjer, stafar af því, að hjer verður að fylgja ýmsum reglum, sem ekki eru annarsstaðar.

Það munu allir geta verið sammála um, að bæta þurfi úr húsaskortinum hjer í Reykjavík, en spurningin er, hvort þetta er heppileg leið að því marki. Mjer virðist sem við með þessum ráðstöfunum munum lenda í sömu reynslunni og t. d. Englendingar. Jeg hefi hjer bók eftir enskan mann, Ernest Benn að nafni. Hann er „individualisti“ og eindreginn andstæðingur jafnaðarmanna. Bæði flokksmenn og andstæðingar þessa manns lúka upp einum munni um það, að hann berjist drengilega, noti rjettar tölur og upplýsingar í bókum sínum og berjist eingöngu gegn þeim skoðunum, sem hann er andvígur af sannfæringu. Í þessari bók, sem jeg gat um, ræðir hann um húsnæðismálið í Englandi, sem er eitt af mestu vandamálum Englendinga sem annara. Hann sýnir þar fram á, að síðan farið var að leggja fram mikið fje af ríkinu til húsabygginga, hafi stórkostlega kipt úr öllum nýbyggingum á Englandi. Hann tekur þetta t. d. frá því sjónarmiði, hve margir fást við ýmsar greinar bygginga nú og fyrir 20 árum, og niðurstaðan er sú, að í öllum þessum stjettum hefir fækkað mjög mikið. Múrarar, trjesmiðir o. s. frv. hafa nú minna að gera á Englandi en á meðan einkaframtakið fjekk að njóta sín í því að reisa húsin. Hann tekur nokkur bæjarfjelög, sem mikið hafa gert til þess að byggja handa verkamönnum sínum, en reynslan er alstaðar sú sama, að þetta gengur svo hœgt, að t. d. í London þarf 2.500 ár til að endurnýja íbúðarhúsin. — Hann skýrir frá því, að í Bandaríkjunum hafi verið sett n. til þess að athuga þetta mál, og hafi hún komist að þeirri niðurstöðu, sem ekki þætti lofsverð hjer á landi, að ekki vœri hægt að gera neitt, sem ekki spilti fyrir. Eftir þessu fóru Bandaríkjamenn, og Benn skýrir frá því, að húsnæðisvandræðin sjeu hverfandi í New-York, þar sem einstaklingarnir voru látnir í friði um að byggja, í samanburði við það, sem er í London. Í New-York hafi verkamennirnir góðar íbúðir og bílskúr fylgi flestum húsum; en í London, þar sem mörgum miljónum hefir verið varið af opinberu fje til bygginga, sje „spursmálið“ altaf opið og tala þeirra, sem íbúðir vantar, fari stöðugt hœkkandi.

Jeg býst við, að sumum láti þetta í eyrum sem hver önnur þjóðsaga og telji það ómögulegt, að það kippi úr byggingum, þó að styrkur sje veittur til þeirra. En slíkt er skammsýni. Frv., sem hjer liggur nú fyrir, sýnir greinilega, að þessu er svona farið. Þær ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir, geta leitt beint úr öskunni í eldinn. Hjer á að veita takmarkaða upphæð til bygginga með vildarkjörum og þannig að takmarka, hve hægt verður að byggja mikið með þeim kjörum. Við þetta bætist svo, að nauðsynlegt er, að stjórn byggingasjóðsins takmarki. hve mikið verði bygt á ári. veiti þetta 300–400 þús. kr. árlega í þessu skyni, því að ef öllum peningunum er varið til þessa í einu, verður það til þess, að þeir, sem efnaðir eru, hrifsa þetta alt til sín, en hinir fátækari verða útundan. Stjórn sjóðsins verður að hnitmiða það niður, hverjir fái þessi vildarkjör. Það verður að dreifa þessum peningum út um langt tímabil. og afleiðingin er sú, að allir þeir, sem eru að brjótast í að koma sjer upp húsi, reyna að bíða í lengstu lög, til þess að geta notið þessara vildarkjara. Vildarkjörin verða þannig til að kippa úr byggingum, ef ekki er hægt að veita þau öllum, sem á þurfa að halda. Jeg get hugsað mjer, að ef slík l. sem þessi yrðu samþ., mundi kippa úr byggingum, og þá kemur það fram, sem hv. 2. þm. G.-K. rjettilega sagði, að húsabyggingum fækkar, en húsaleigan hækkar. Sumir koma sjer upp húsum með góðum kjörum, en aðrir, og þeir verða fleiri, sitja hjá. Það má auðvitað segja, að menn verði betur stæðir, þegar þeir eru búnir að byggja fyrir góð kjör, en þau hús, sem ekki komast upp, bæta ekki úr húsnæðisvandræðunum hjer í bænum. Þetta er því alveg rökrjett.

Það verður að gæta þess vel að grípa ekki inn í eðlilega rás viðburðanna með hinum og þessum ráðstöfunum. Það er því ekki rjett hjá hv. 2. þm. Reykv., er hann var að bera þetta frv. saman við frv., sem samþ. var hjer í gærkvöldi, og sagði, að ef það hefði verið spor í rjetta átt, væri þetta það líka, því að þetta frv. getur verið víxlspor. Það getur verið spor aftur á bak, og ekkert er sennilegra en að svo fari. Því að ef menn eiga von á 4% lánum, býst jeg við, að þeir þoli lengur vondu húsakynnin, til þess að geta notið þessara vildarkjara. Og jeg skora á þá menn, sem ekki eru mjer sammála um þetta, að hrekja þaft.

Það var aðeins þetta í ræðu hv. 2. þm. G.-K., sem jeg vildi sýna greinilegar fram á en hann gerði, af því að það er mörgum manninum hreinasta hebreska, að úr húsabyggingum geti dregið við það, að þær eru styrktar.

Hitt atriðið, sem jeg vildi drepa á, er sú aðferð, sem hafa á í þessu máli. Hjer á að fara að stofna svokallaðan byggingarsjóð, og á hann að lána alt að 85% af virðingarverði húsanna, en það er miklu meira en venjulegt er að lána út á fyrsta veðrjett. Mjer þykir undarlegt, að hjer skuli eiga að ganga framhjá veðdeildinni. Jeg hefi aldrei heyrt það, að vandræði væru með að fá þann hluta af byggingarkostnaðinum, sem hægt er að fá með veðdeildarláni. Hitt hefir allajafna orðið til trafala, hve bilið er mikið á milli þess, sem hægt er að fá í veðdeildinni, og hins, sem menn geta lagt fram sjálfir. Það er á þessu bili, sem menn stranda, en ekki á því, að þeir vilji ekki taka veðdeildarlán, því að þarna á milli liggur meira en helmingur af verði húsanna. Það er því þetta bil, sem þarf að brúa. Jeg vildi vekja athygli hæstv. forsrh. á þessu, hvort ekki væri óheppilegt að taka verkefnið af veðdeildinni.

Jeg skal ekkert um það segja, hvort ekki mætti reyna að greiða fyrir því úr ríkissjóði að milda kjör veðdeildarinnar. En jeg álít, að hún ætti að geta klárað þetta, og þessi sjóður að taka við, þar sem henni sleppir. Nú lánar veðdeildin um 40%, og það mundi greiða fyrir þessum sjóði, ef hann þyrfti ekki að lána nema 45% í stað 85%.

Það hefir komið fram till. um að vísa málinu til stj. Jeg er ekki ánægður með það; jeg vildi heldur samþ. rökstudda dagskrá, með beinum tilmælum um að leggja málið fyrir næsta þing. En jeg get vel orðið við tilmælum hæstv. atvmrh. um að láta atkvgr. fara fram um frv., og kem því ekki fram með rökstudda dagskrá nú.