04.05.1929
Neðri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3384 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

37. mál, verkamannabústaðir

Haraldur Guðbrandsson:

Eftir þessa ræðu hv. 8. þm. Reykv. er maður alveg jafnnær um það, hvort hann er með frv. eða á móti því. Hann segist vera fylgjandi hugmyndinni, ef hún sje klædd í skynsamlegan búning. En um það hefir hann enga bendingu gefið, hver sá búningur sje. En hins má minnast, að í fyrra lýsti hann sig fylgjandi máli þessu. Væntanlega sjest bráðlega, hvort það var af heilindum mælt.

Þau eru allbrosleg rökin íhaldsmannanna gegn frv. þessu. Allir fullvissa þeir þingheim um, að þeir vilji alt gera til að bæta úr húsnæðisvandrœðunum, en það er sama, á hvaða umbœtur er bent, alt á það að vera ómögulegt. Af þessu verða þær ályktanir einar dregnar, að fagurmœlin sjeu yfirskin eitt og þeir sjeu ráðnir í því að leggjast á móti málinu. En forsendur þeirra eru sín úr hverri áttinni að vanda og ósamrýmanlegar.

Hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Barð. telja sig andvíga því, að bætt sje úr sárustu húsnœðisvandræðum verkamanna og sjómanna í kaupstöðum af því, að þá muni fólkið leita þangað úr sveitunum. Hv. 2. þm. G.-K. telur frv. vera argasta „kák“, málið hjegóma og „smámál“ og telur þó, að það verði til þess að gera kjör fátæks fólks í kaupstöðum miklu verri en þau nú eru, ef frv. verði að lögum. En hvað verður þá úr kenningu hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Barð.? Hann œtlar sveitamönnum meir en meðalflónsku, ef hann gerir ráð fyrir, að þeir flytji frekar til bæjanna fyrir það, að kjör fátœkra bæjarbúa verða verri en þau eru nú. Nei, þessir herrar eru sammála um það eitt að reyna að koma málinu fyrir kattarnef, en ákafinn er svo mikill, að rök þeirra stangast eina og mannýgir hrútar. Allir virðast þeir þó halda, að þeir standi sig prýðilega.

Út af tölu hv. 2. þm. G.-K. verð jeg að segja það, að hafi hann í henni nokkurntíma komist nálægt sannleikanum, þá hlýtur hann að hafa lækkað röddina alveg óvenjulega, því að jeg gat ekki heyrt það.

Hann kallaði frv. hv. 2. þm. Reykv. kákmál, en í lok ræðu sinnar komst hann þó að þeirri niðurstöðu, að hægt yrði að byggja verkamannabústaði fyrir 1.300.000 kr. hjer í Reykjavík, ef frv. hv. 2. þm. Reykv. yrði að lögum. En samkv. brtt. hæstv. atvmrn., sem hjer er eiginlega um að ræða, yrðu það a. m. k. um 2.600.000 kr., sem hægt væri að byggja fyrir hjer í bænum. Jeg hefi athugað þetta, og telst mjer til, að ef lán fengist til 30 ára, þá yrði hægt að byggja fyrir nærfelt 3 milj. króna, að meðtöldu framlagi þeirra, sem íbúðirnar kaupa. Hv. 2. þm. G.-K. getur kallað þetta „kák“, ef hann vill. En jeg veit með vissu, að um það munar stórmikið, ef hægt er að byggja nýja verkamannabústaði fyrir 3 milj. króna á t. d. næstu 3 árum hjer í bœnum. En það er ekki hægt, ef frv. verður að lögum. Auk þess er þess að gœta, að nú fjölgar hjer í bænum um 1.000–1.200 manns árlega. Það má því telja víst, að sjóðirnir aukist svo, að þeir geti, auk þess að bera vaxtajöfnuð af þessari upphœð, lagt nokkuð til nýbygginga árlega, eftir því sem íbúatalan eykst. Það er því alveg víst, að frv. þetta bœtir verulega úr fyrir bæjarbúum, þótt hinsvegar engin hætta sje á, að fólk streymi til kaupstaðanna og sveitirnar tæmist af þeim sökum.

Það er furðulegur hugsunarháttur að bera það fram gegn þessu máli, að í sveitum sjeu þó til enn verri hreysi en í kaupstöðum. Það er búið að gera ráðstafanir til þess að bæta úr húsnæðisástandinu í sveitum, eins og rjett var og sjálfsagt að gera. Lögin um byggingar- og landnámssjóð voru sett í því skyni. Ríkissjóði er ætlað að ábyrgjast fyrir hann 5 milj. kr. og leggja auk þess fram til hans 200 þús. kr. á ári hverju. Sú röksemd, að fátæklingarnir, sem búa í heilsuspillandi híbýlum í bæjum, eigi rólegir að sætta sig við þau, af því að einhversstaðar uppi í sveitum sje enn hægt að finna jafnvel verri hreysi, er engum siðuðum manni samboðin. Það er furðulegt blygðunarleysi að ætla að rjettlæta sig með þessu. Eins og verkamenn og sjómenn, sem búa við okurleigu í rökum, dimmum, köldum og heilsuspillandi kjallaraholum með fjölda barna, sje nokkur bót í því, þótt ljeleg húsakynni sjeu til ennþá einhversstaðar í sveitum landsins. Það er til vansæmdar þessari hv. deild, að slíkt skuli hjer fram borið sem rök.

Þeir, sem hafa verið með því að samþ. lögin um byggingar- og landnámssjóð, sem binda ríkissjóði árlegan útgjaldabagga, 200 þús. kr. auk 5 milj. kr. ábyrgðar, til þess að bæta húsakynni í sveitum, geta ekki kinnroðalaust verið á móti því, að frv. þetta sje samþ. Hjer er um að ræða aðeins 1/5 hluta þess, sem ríkissjóður árlega leggur til bygginga í sveitum, og býr þó um helmingur landsmanna í kaupstöðum og kauptúnum. Í raun rjettri ætti ríkissjóður að leggja sömu upphæð, 200 þús. kr. á ári, til húsabóta í kaupstöðum og kauptúnum.

Hv. 2. þm. G.-K. segir, að frv. sje „kák“ eitt, að ekkert muni um það, þótt hægt verði að byggja til viðbótar verkamannabústaði fyrir 3 milj. kr. hjer í Reykjavík. Hampar hann því mjög, að hjer hafi í fyrra verið bygt fyrir um 5 milj. kr. — Þetta mun vera nærri sanni.

En hvað mikið af þessum húsum er bygt sem íbúðarhús fyrir verkamenn og sjómenn, fyrir tekjuminsta fólkið? Getur hv. þm. upplýst það? Jeg hygg ekki.

Hitt vita allir, að það er aðeins örlítill, örlítill hluti þessara húsa, sem notuð verða til íbúðar fyrir fátækt fólk.

Jeg man eftir 8–10 stórhýsum, sem bygð voru síðasta ár eingöngu fyrir verslanir, skrifstofur og þess háttar. Í þeim er engin íbúð, en andvirði þeirra skiftir áreiðanlega milj. Þá er barnaskólinn nýi, Landsspítalinn og Kleppur; að minsta kosti eitt eða tvö þessara húsa eru talin með í brunabótavirðingum ársins síðasta.

Jeg hygg, að öll þessi stórhýsi eigi æðidrjúgan þátt í þessum 5 milj., sem bygt var fyrir í fyrra, en auðvitað hafa fleiri hús verið bygð en þessi. Ef menn ganga vestur fyrir bæ, upp á Sólvelli og Landakotstúnin gömlu eða annað vestur í bæinn, getur þar að líta fjölda nýbygðra húsa, en hverjir eru það, sem hafa bygt þau? Eru það verkamenn? Nei, það eru mestmegnis betri borgarar, sæmilega efnum búnir menn, og flest eru húsin ekki ætluð nema fyrir eina fjölskyldu. Þetta eru yfirleitt lagleg og prýðileg hús, og til flestra hefir bersýnilega verið vel vandað. Yfirleitt er þeim háttað svo, að sá, sem er húseigandinn, býr á 1 eða 2 hæðum, en kjallarinn og súðarherbergin eru leigð fátæklingum. Þessi herbergi eru aftur leigð svo dýru verði, að leigan eftir þau hjálpar húseigandanum töluvert til að standa straum af eigninni. Hús þessi geta orðið arðberandi, ef eigendurnir hlífast ekki við að okra á verkalýðnum, sem á þess engan kost að koma sjer upp húsum. Margir þeirra geta kannske lagt fram 1.000–1.500 kr., en meira ekki, og slík upphæð stoðar ekkert nú. Hjer í Reykjavík má ekki byggja nema svo stór hús samkv. byggingarsamþyktinni, að það er verkamönnum alment alveg um megn að koma þeim upp eins og lánskjörin eru nú, og því er þá að finna í gömlum húsum og ljelegum og í kjöllurum og súðarherbergjum í nýrri húsum. Þetta má sjá í húsrannsóknarskýrslunum. Hv. 2. þm. G.-K., sem þykist þekkja kjör verkalýðs þessa bæjar út í ystu æsar, rak upp stór augu, er jeg sagði honum, að hundruð íbúða, sem verkamenn yrðu að hafast við í, væru beinlínis óhæfar til íbúðar, hættulegar fyrir heilsu íbúanna, eldri sem yngri. Ef hann hefði kynt sjer skýrslurnar frá í sumar, hefði hann sjeð, að það eru fjölmargar íbúðir, sem svo er lýst, að þœr sjeu kaldar, rakar og dimmar og í alla staði heilsuspillandi. Þessar íbúðir eru líka oftast svo þröngar, að þœr mega teljast óviðunandi, en verkalýðurinn verður að gera sjer þær að góðu og borga fyrir þær okurleigu. Fátæklingarnir verða að sætta sig við að hýrast í þeim skotum, sem eigendurnir nota ekki, vilja ekki nota. Þetta er bæjarskömm og bæjarvoði, og úr þessu er skylda ríkis og bæjar að bæta. (HK: Ljót lýsing, ef sönn er). Hv. þm. Barð. má vita það, að jeg stunda sannleikann, og það gerum við báðir — venjulega. (HK: hvað sagði hv. þm., — venjulega?). Já, „venjulega“ á við hann. Hv. 2. þm. G.-K. mælti það rjettilega, að hvort sem þetta frv. næði fram að ganga eða ekki, þyrfti að útvega þeim mönnum, sem rjeðust í húsabyggingar, betri lánskjör yfirleitt en nú væri völ á. Það er alveg ósæmilegt, að húseigendur skuli nú fá aðeins 1/3 af verði húsanna úr veðdeildinni, og verða svo að greiða 12% afföll af þessum margtrygðu lánum. Úr þessu þarf að bæta, en það er undarlegt, að hv. þm. og flokkur hans skuli ekki hafa gert neitt í þessu máli, meðan hann fór með völd. Þá var þó ástandið engu betra. Jeg get sagt hv. þm. það, að jeg er fús til að vinna með honum að því, að menn fái út úr veðdeildinni t. d. 60–70% af verði húsa sinna, en það kemur ekki við þessu frv., sem hjer liggur fyrir. Jeg get tekið undir það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að þetta tvent væri gerólíkt. Annað miðar að því að hjálpa mönnum, sem lítil eða engin efni eiga, til að koma sjer upp húsum fyrir sig og sína aðeins. En veðdeildin lánar aðallega þeim, sem einhver efni hafa eða talsvert lánstraust, og þeir menn geta rekið bygginguna sem gróðafyrirtæki. Veðdeildin skiftir sjer ekkert af því. Og það er sjálfsagt að gera skýran mun á þessu tvennu, nauðsynjabyggingum og gróðafyrirtækjum.

Annars er það nú frv. um verkamannabústaði, sem hjer liggur fyrir til umr., en ekki veðdeildin. og skal jeg því snúa mjer að því og þeim brtt., sem fram hafa komið við það. Brtt. hæstv. atvmrh. eru að ýmsu leyti eins góðar og frv., en að sumu leyti langtum verri. Brtt. eru sprottnar af því, að horfið er frá þeirri hugmynd, sem fram kemur í frv., að bæjarfjelögin sjái sjálf um byggingarnar, en aftur á móti er þar horfið að því ráði, að setja inn byggingarfjelög sem milliliði. Jeg álít, að bæjarfjelögin sjeu fullfær um að sjá um þetta sjálf, en rjett er það, að erlendis hafa þessar aðferðir verið notaðar svo að segja jöfnum höndum. Það hefir verið veittur styrkur bæði til bæjarfjelaga og byggingarfjelaga í þessu skyni. Sá bær, sem stendur fremst í þessu efni, er Stokkhólmur. Þar lætur bærinn sjálfur byggja húsin og selur þau síðan verkamönnum. Þar hefir verið bygt fyrir tugi miljóna, og á bærinn lóðirnar og tekur leigu af þeim, en selur húsin jafnóðum og bygð eru. Jeg verð að taka undir það með hv. þm. Dal., að það er ljóður á þessu frv., hve mörg smálán þarf að taka á ábyrgð ríkissjóðs. Það væri í alla staði heppilegra, að stórlán yrðu tekin og færri og fjenu svo skift á milli hlutaðeigenda. Þetta œtti hv. nefnd að taka til athugunar fyrir 3. umr. Ennfremur vil jeg benda á það, að ef bæirnir bygðu húsin, þá gœtu þeir, sem ekki geta lagt fram í vinnu eða peningum 15% verðs, samt haft möguleika til þess að eignast húsin með tímanum. Þeir gætu orðið leigjendur fyrst í stað og greitt mánaðarlega eitthvað lítilsháttar umfram leiguna og á þann hátt orðið eigendur með tíð og tíma. Þetta myndi þeim auðvitað torveldara, ef um byggingarfjelög væn að ræða. Það eru ýmsir fleiri annmarkar á brtt. hæstv. atvmrh., en það hefir orðið að samkomulagi milli flm. þessa frv. og næstv. ráðh. að láta þessar brtt. standa. Í því trausti, að frv. nái fram að ganga, og er þá skýrður þessi mikli dráttur, sem hefir orðið á, að málið kæmi úr nefnd. Hv. 1. þm. Reykv. las upp ýmsar tölur til útskýringar á ræðu hv. 2. þm. G.-K., og það er í sjálfu sjer fallega hugsað af honum að hlaupa undir bagga með samherja sínum, en þó held jeg nú, að það hafi verið alger óþarfi af honum, því að hv. 2. þm. G.-K. má eiga það, að hann skýrði mál sitt nægilega; í það minsta þóttist jeg skilja meiningu hans. Þessir hv. þm. hjeldu því fram, að er frv. þetta næði fram að ganga, mundi það draga mjög úr öllum byggingaframkvæmdum, og þessu til sönnunar las hv. 1. þm. Reykv. upp kafla úr enskri bók. Vil jeg ekki draga í efa, að hann hafi lesið rjett. En fleira mun þurfa að athuga en þessa ensku bók í þessu sambandi. Hann skýrði frá því, að laun verkamanna í New-York vœru þreföld við það, sem þau eru í Englandi, og má það vel vera, að íhaldið sje eitthvað skárra að sumu leyti þar vestra en hjer í Evrópu. En þetta kom frv. ekkert við. Aðalatriðið er hitt, hvort það muni rjett vera, að frv. þetta muni draga úr byggingum, ef það verður að lögum, hvort þeir, sem nú láta byggja, myndu þá leggja hendur í skaut sjer og bíða eftir þessum vildarkjörum. En eins og jeg benti á, er sett ákvæði um, hverjir skuli njóta styrks þessa, og það eru þeir einir, sem hafa undir hinu tiltekna tekju- og eignahámarki, en þeir, sem meira eiga, koma ekki til mála. Þess vegna getur ekki verið um það að ræða, að þeir menn haldi að sjer höndum, sem ekki hafa rjett til að fá styrkinn. Það væri alveg þýðingarlaust fyrir þá. Auðvitað byggja þeir áfram sín hús. En með því að samþ. frv. er mönnum, sem nú er ókleift að koma upp húsum, gert það mögulegt, og við það aukast auðvitað byggingar í bæjunum. (MJ: Hvernig fer fyrir hinum, sem hafa bygt hús sín þannig, að þau yrðu „rentabel“?). Það er eins og hver önnur „forretning“, sem altaf getur mislánast. Við því er ekki hœgt að sjá. Ef þessir menn hefðu ekki hugsað um að hafa kjallara og súðarherbergi til að leigja öðrum, þá hefðu þeir getað dregið mikið úr byggingarkostnaði, haft húsin við sitt hœfi, ekki bygt þau til að græða á leigjendum. Annars eru engar líkur til, að ekki fáist nógir leigjendur, a. m. k. œtti hv. 1. þm. Reykv. ekki að óttast það, eftir því sem hann áðan sagði, en hitt vona jeg og tel vel farið, að leigan lækki og rýmra verði í þessum leigukytrum. Þessum tveimur hv. þm. ætti að vera það kunnugt, að flokksbræður þeirra í Ed. hafa komið fram með frv. um bann gegn íbúðum í jarðhýsum og hyggjast að geta útrýmt þeim á 20 árum. En hvað á þá að verða um fólkið, sem í þeim býr? Eitthvað verður að gera til þess að sjá því fyrir húsnœði, og fæ jeg því ekki annað sjeð en að við flm. þessa frv. og þessir hv. þm. ættum að geta verið sammála um að gera frv. þetta að lögum og banna íbúð í óhollum kjöllurum.