04.05.1929
Neðri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3397 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

37. mál, verkamannabústaðir

Ólafur Thors:

Jeg heyrði ekki alla ræðu hæstv. forsrh., en jeg heyrði, að hann sagði, að hann hefði ekki haft nógan tíma til að athuga málið. Mjer finst mjög sennilegt, að þetta sje rjett, því að vitanlega er hæstv. ráðh. mjög önnum kafinn eins og stendur, og í öðru lagi bera handbrögð hans á brtt. þess vott. Hinsvegar taldi hæstv. ráðh., að bæta mætti úr þessu með því að athuga málið til 3. umr. Jeg er fyrir mitt leyti hræddur um, að ekki vinnist tími til að athuga málið að gagni á þeim tíma, og teldi heppilegast að athuga það til næsta þings.

Hv. þm. Ísaf. beindi sumpart orðum sínum til mín. Honum þótti rök okkar íhaldsmanna stangast, er við segðum, að frv. væri kríli, en myndi þó draga fólkið úr sveitunum. En þetta getur ákaflega vel samrýmst. Fólkið í sveitunum myndi vænta miklu meira af þessum ráðstöfunum en rjett er, eins og vonlegt er, þar sem hv. þm. Ísaf. og aðrir samherjar hans hafa sýnt svo lítinn skilning á málinu, og þá einkum hinum tölulega grundvelli þess.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að ekki væri rjett að gera lítið úr þessum sjóðum, því að þeir gætu bygt fyrir 3 milj. kr. á 30 árum. Segjum nú, að svo löng lán fáist. Flestir efast víst um það. En þá er líka tæmt verkefni sjóðanna í 30 ár á eftir. Nú er bygt fyrir 5 milj. á ári hjer í Reykjavík. Eftir 30 ár yrði búið að byggja fyrir 150 milj. með sama áframhaldi. — Þessar ráðstafanir mættu því ekki draga úr einstaklingsframtakinu að 1/50, án þess að byggingaraukinn sje skertur.

Hitt er gersamleg hugsunarvilla hjá hv. þm. Ísaf., að byggingar efnamanna hjer í bænum hafi ekki áhrif á húsaleigu eða stuðli ekki að auknu húsnæði í bænum. Það skiftir ekki máli, hver byggir, heldur að bygt sje. Og þó að stórhýsi sjeu bygð fyrir skrifstofur eingöngu, verður afleiðingin sú, að rýmkar um húsnæði til íbúðar. Ef þær byggingar hefðu ekki verið reistar, hefði sú þörf, er þær fullnægja, orðið að leita annað og dregið úr möguleikum fyrir húsnœði til íbúðar.

Annars rugla formælendur þessa frv. saman þörfinni á auknu og bœttu húsnœði og því, að frv. kríli þetta ráði bót á þeirri þörf. Það er hægt að þenja sig og grenja um dimmu, köldu, röku kjallaraholurnar. Það hefir enginn mótmœlt því, að húsnœði hjer í bænum sje ábótavant að ýmsu leyti, en hinu hefir verið haldið fram með góðum og gildum rökum, að ráðið til að bæta úr því væri ekki í frv. eða brtt. þess.

Annars er um þetta tilfinningavæl jafnaðarmana eins og sníkjurnar, að þeir eru sjaldan fyrstir til að grípa beiningastafinn, sem þörfin sverfur brýnast að. Það getur vel verið, að íhaldsmenn finni eins til umbótaþarfar á þessu sviði og jafnaðarmenn, sem hæst æpa um málið.

Jeg og hv. 1. þm. Reykv. höfum sýnt fram á, að hœtta er á, að frv. þetta, ef að lögum verður, geri það að verkum, að húsaleiga í bœnum hækki, vegna þess að það muni draga úr framkvæmdum einstaklinganna. Og jeg tel það satt að segja nægjusemi að ætla að byggja vonir sínar um umbætur á húsnæðinu á fyrirmœlum frv. Ráðið til þess er, að menn fái meiri og betri lán út á fasteignir sínar en verið hefir. Að því vildi jeg stuðla, og ef þessu máli verður vísað til vil jeg skora á hana að hafa þessa leið fyrir augum.

Það er með öllu rangt, að Íhaldsflokkurinn vilji ekkert gera í málinu. Íhaldsflokkurinn átti góðan þátt í frv. um lánsfjelög, og jeg myndi kjósa, að lengra yrði gengið á þeirri braut.